Lögreglu barst ábending í morgun að Gabríel Douane Boama, tvítugur karlmaður sem strauk úr haldi lögreglu við Héraðsdóm Reykjavíkur fyrir tveimur dögum, væri í bakaríi í Mjóddinni í Reykjavík.
Ekki reyndist það vera Gabríel heldur 16 ára drengur í fylgd með móður sinni að kaupa bakkelsi. Þetta er í annað sinn á tveimur dögum sem lögreglan stöðvar för drengsins en í gær hafði hún afskipti af honum í strætisvagni.
Ríkislögreglustjóri sendi frá sér tilkynningu í gærkvöldi vegna málsins en þar segir að um leið og sérsveitarmenn fóru inn í vagninn hafi þeir séð að ekki var um að ræða einstaklinginn sem leitað er að og því hafi þeir yfirgefið vagninn.
Móðir drengsins hafði samband við ríkislögreglustjóra og lýsti áhyggjum af þeirri stöðu sem komin var upp, þar sem ungmenni í minnihlutahópi óttist að vera tekin í misgripum vegna útlits.
„Í samtalinu komu fram mikilvægar áherslur sem ríkislögreglustjóri ætlar að bregðast við, þ.m.t. samtal við samfélagið um fordóma,“ segir í tilkynningunni.
Maður á Teslu hringdi í lögregluna
Kjarninn hefur undir höndum myndband af atvikinu í morgun þar sem lögreglumenn sjást ganga fyrir utan gluggann á bakaríinu en samkvæmt upplýsingum Kjarnans var sérsveitin einnig fyrir utan. Í myndbandinu sést hvernig mæðginin eru sest við borð til að fá sér að borða. Móðirin tekur strax til máls þegar lögreglumaðurinn nálgast og heyrist hún segja: „I knew it!“ eða „ég vissi það.“ Þegar lögreglumennirnir ganga að henni segir hún: „You can not talk to my child“ eða „þið megið ekki tala við barnið mitt.“
Hún skiptir yfir í íslensku og segir að hún viti af hverju lögreglan sé komin. „Þetta er ekki hann!“ segir hún við lögreglumanninn og útskýrir að drengurinn hennar sé ekki strokufanginn sem leitað er nú að. Sýnilegt er að móðirin er í uppnámi, enda gerðist slík hið sama í gær í strætó, eins og áður segir, þegar lögreglumenn og sérsveitarmenn stöðvuðu vagninn til að athuga hvort drengurinn væri sá sem leitað er að.
Móðirin segir í myndbandinu að hún viti að maður á Teslu hafi hringt í lögregluna þar sem hún hafi séð bílinn sniglast í kringum þau á bílastæðinu. Hún segir í samtali við Kjarnann að maðurinn á Teslunni hafi beðið fyrir utan þangað til lögreglan kom.
Hún útskýrir í myndbandinu fyrir lögreglunni að hún hafi ákveðið að fara í bakaríið með syni sínum til að róa hann niður eftir atvik gærdagsins. „Þetta var mjög erfitt kvöld,“ segir hún við lögregluna. „Þegar barnið mitt, 16 ára, þið sendið sérsveit á hann og eruð komin aftur í dag.“ Hún bendir á í samtali við lögregluna að hún hafi talað við Sigríði lögreglustjóra í gær og hún segist skilja að lögregluþjónarnir séu að vinna vinnuna sína en að þetta sé ekki í lagi.
„Þetta er ekkert annað en „racial profiling“ á 16 ára barn sem ég er að reyna að róa niður vegna atviks gærdagsins,“ segir hún við lögreglumennina. „Racial profiling“ þýðir að lögreglan beini athygli sinni eingöngu að fólki af ákveðnum kynþætti og frá ákveðnu svæði við rannsókn mála.
Annar lögreglumaðurinn í myndbandinu tekur til máls og segir að nú séu þeir komnir, þeir séu rólegir og sjái að ekki sé um strokufangann að ræða. „Þá erum við bara farin,“ segir hann.
Þarf hún að vera með drengum öllum stundum?
Móðirin spyr á móti hvort sonur hennar geti gengið niður götuna í friði – þurfi hún alltaf að vera með honum hvert fótmál? „Ég hélt honum heima í gær,“ segir hún og útskýrir frekar fyrir lögreglunni að hann hafi ekki treyst sér í vinnuna í morgun og í staðinn hafi þau ætlað að eiga stund saman í bakaríinu.
Hún spyr jafnframt hvaða strokufangi muni sitja inn á veitingastað til að borða. Annar lögreglumaðurinn segir að þeir þurfi að leita af sér allan grun. Móðirin segist styðja þá með það en að það verði að finna lausn á þessu því barnið hennar eigi að geta verið í friði.
Lögreglumaðurinn tekur undir það. Hún spyr hvort drengurinn þurfi að raka af sér hárið til að fá frið. „Hvernig eigum við að leysa þetta?“ spyr hún. „Þetta er áreiti.“
Lögreglumaðurinn segir að nú viti þeir að hann sé ekki umræddur strokufangi. Móðirin spyr hvort drengurinn þurfi að ganga í gegnum þetta aftur og aftur. „Þetta er bara ekki í lagi. Þið getið sent óeinkennisklæddan [lögreglumann] þannig að hann verði ekki smeykur við ykkur og ég þarf ekki að vera í þessari stöðu að vera „the mad black mom“. Þetta er ekki í lagi.“
Hann segir að það sé vissulega betra; að vera með óeinkennisklædda lögreglumenn til að sinna þessari skyldu. „En akkúrat núna erum við bara þrír lögreglumenn á vakt ...“ en móðirin segir að það sé ekki hennar að leysa það. Hann segist skilja það.
„Ég er núna að sinna barni sem svaf varla í nótt,“ segir hún og lögreglumaðurinn segir að honum þyki það mjög leitt. Hún segist hafa viljað sitja með honum í smá næði og spjalla saman um það sem gerðist í gær og af hverju hann þurfi ekki að óttast lögregluna. „En svo er lögreglan bara mætt aftur! Þetta eru ekkert annað en fordómar.“
Lögreglumaðurinn biður í framhaldinu um kennitölu drengsins og móðurinnar. Hún samþykkir að gefa þær upplýsingar í næði en bætir að endingu við að þessar aðfarir séu alls ekki í lagi.
Fangi á eigin heimili
Móðirin segir í samtali við Kjarnann að atvikið hafi verið niðurlægjandi. Lögreglan var hjá þeim í nokkrar mínútur eftir að myndbandinu lauk og segir móðirin að hún hafi séð óttann í andliti barnsins allan tímann. „Þetta er ekki í lagi,“ segir hún.
Hún hefur þegar haft samband við ríkislögreglustjóra en hún krefst breytts verklags án tafar þar sem barnið hennar sé nú fangi á eigin heimili fyrir glæp sem hann framdi ekki.
Vitundarvakning hjá lögreglunni og samfélaginu sé brýn og nauðsynleg. Móðirin mun funda á ný með ríkislögreglustjóra seinna í dag vegna atviksins en markmiðið er að reyna finna lausn á þessu máli með hag drengsins að leiðarljósi.
Drengurinn er sjálfur með ósk sem hann vill koma á framfæri: „Ég væri til í að geta stigið út úr mínu eigin húsi og vera með vinum mínum án þess að lögreglan stoppi mig fyrir það hvernig ég lít út.“