Hvorki eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga né innviðaráðuneytið hafa tekið fjármál Reykjavíkurborgar til sérstakrar skoðunar. Ástæðan fyrir því er sú að lykiltölur úr rekstri borgarinnar hafa ekki gefið tilefni til þess.
Þetta kemur fram í skriflegu svari Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra við fyrirspurn Kjartans Magnússonar varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins og frambjóðanda flokksins til borgarstjórnar í Reykjavík.
Spurningar Kjartans til innviðaráðherra voru lagðar fram er hann tók sæti á þingi á meðan á prófkjörsbaráttu sjálfstæðismanna í borginni stóð, en Kjartan, sem var borgarfulltrúi frá 1999 til 2018, hafnaði í 3. sæti í prófkjöri flokksins.
Í jómfrúarræðu sinni á Alþingi í byrjun febrúar gerði hann fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar að umtalsefni, sagði hana grafalvarlega og velti því upp hvort Reykjavíkurborg væri komin í gjörgæslu hjá ráðuneyti sveitarstjórnarmála, samkvæmt frétt mbl.is.
Sagðist hann ætla að leggja fram formlega fyrirspurn um málið til ráðherra sveitarstjórnarmála, sem nú hefur svarað. Kjartan óskaði eftir svörum við því hvort fjármál borgarinnar hefðu verið tekin til sérstakrar skoðunar og ef svo væri ekki, þá hvers vegna ekki.
Jákvæð afkoma flest ár og skuldir innan viðmiða
Í svari innviðaráðuneytisins segir sem áður segir að ekki hafi verið tilefni til þess að skoða fjármál borgarinnar sérstaklega. Svo er útskýrt af hverju það hafi ekki verið gert.
Sett er upp tafla með lykiltölum úr rekstri Reykjavíkurborgar á árunum 2015-2020 þar sem sjá má að skuldaviðmið bæði samstæðu borgarinnar (A- og B-hluta) og A-hlutans, þess hluta borgarsjóðs sem rekinn er fyrir skatttekjur, var undir 150 prósentum öll þessi ár.
Auk þess er rakið í svari ráðherra að samstæða Reykjavíkurborgar hafi uppfyllt viðmið um jafnvægi í rekstri, svokallaða jafnvægisreglu, sem sýni rekstrarniðurstöðu á þriggja ára tímabili og einungis verið með neikvæða afkomu árið 2020. Skuldaviðmið samstæðu borgarinnar var 143 prósent árið 2020, en má alla jafna vera 150 prósent að hámarki, samkvæmt sveitarstjórnarlögum.
Vegna kórónuveirufaraldursins hefur þeim lögum þó verið breytt og skuldaviðmið sveitarfélaga má vera 200 prósent fram til loka árs 2025. Meirihlutinn í borgarstjórn lagði fram fjárhagsáætlun síðasta haust, þar sem gert var ráð fyrir því að skuldaviðmið samstæðunnar yrði á bilinu 150 til 156 prósent á árunum 2022 til 2025, en lækkaði svo aftur undir 150 prósentin.
Varðandi A-hluta borgarsjóðs segir í svarinu frá ráðherra að skuldaviðmiðið hafi verið undir 150 prósenta hámarkinu öll árin. Skuldaviðmið A-hluta borgarinnar var 56 prósent árið 2020.
Jafnvægisreglan fór þó í mínus í borginni fyrir árin 2015, 2016 og 2017, eftir að hækkun lífeyrisskuldbindinga vegna Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar að fjárhæð 14,6 milljarða króna var gjaldfærð árið 2015.
„Þetta er stærsta skýringin á neikvæðri rekstrarniðurstöðu um 13,6 milljarða kr. á árinu 2015, sem hefur þau áhrif að jafnvægisreglan er í mínus fyrir árin 2015, 2016 og 2017. Að öðru leyti er ekkert í lykiltölunum fyrir árin 2015–2020 sem hefur kallað á sérstaka skoðun á fjármálum Reykjavíkurborgar,“ segir í svari innviðaráðherra við fyrirspurn Kjartans.