„Í raun er málið ósköp einfalt. Það snýst um að útgreidd laun voru hærri en þau laun sem greiða átti lögum samkvæmt. Það er óþolandi að þetta hafi gerst en við því verður að bregðast.“
Þetta skrifar Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra um ofgreidd laun æðstu embættismanna ríkisins í færslu á Facebook í dag.
Kjarninn greindi frá því í dag að Dómarafélag Íslands mótmælti harðlega „ólögmætri ákvörðun fjármálaráðherra um einhliða og afturvirka skerðingu á kjörum dómara“. Í yfirlýsingu frá félaginu segir að ákvörðunin sé í andstöðu við gildandi lög um launakjör dómara og með henni sé vegið að rétti borgaranna til réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli. Aðgerðirnar feli í sér atlögu framkvæmdavaldsins að dómsvaldinu sem ekki eigi sér hliðstæðu í íslenskri réttarsögu.
Kjartan Björgvinsson, héraðsdómari og formaður stjórnar Dómarafélagsins, birtir yfirlýsinguna á Facebook-síðu sinni. „Sú undarlega ákvörðun blasti við dómurum landsins í morgun að laun þeirra voru lækkuð fyrirvaralaust,“ skrifar hann ennfremur. „Þessi lækkun mun vera í umboði fjármálaráðherra sem hefur boðað frekari og afturvirkar skerðingar á launum dómara.“
Telur málstaðinn býsna auman
Bjarni segir aftur á móti í færslu sinni á Facebook að laun dómara eins og annarra æðstu embættismanna séu ekki lækka, eins og formaður dómarafélagsins hefur sagt.
„Þau eru leiðrétt núna um mánaðamótin og hækka svo frá 1. júlí um 6,9 prósent frá þeirri leiðréttingu. Frá þeim tíma verða launin nákvæmlega þau sem þau eiga að vera lögum samkvæmt. Að ræða um geðþóttaákvörðun fjármálaráðherra í þessu samhengi er fráleitt. Fjárhæðin er lögákveðin.
Málstaður þeirra sem mótmæla því að nú eigi að leiðrétta ofgreidd laun er býsna aumur. Ég vænti þess að þeir vilji bera fyrir sig að hafa tekið við of háum launum undanfarin ár í góðri trú,“ skrifar hann.
„Stenst augljóslega enga skoðun“
Þá telur Bjarni að önnur rök séu yfirsterkari – og muni miklu.
„Þegar í hlut eiga æðstu embættismenn ríkisins, alþingismenn, ráðherrar, forseti lýðveldisins, dómarar, seðlabankastjóri og saksóknarar á ekki að þurfa opinberar skeytasendingar til að útskýra að rétt skal vera rétt.
Að halda því fram, líkt og formaður dómarafélagsins gerir, að þetta einfalda mál snúist um rétt borgaranna til réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstólum stenst augljóslega enga skoðun,“ skrifar hann jafnframt.
Ráðherrann segir að málið snúist frekar um að fólkið í landinu ætti ekki að þurfa að hlusta á að það sé flókið fyrir efsta lag ríkisins, æðstu embættismennina, að skila því sem ofgreitt var úr opinberum sjóðum. Annað væri hrikalegt fordæmi og ekkert minna en siðferðisbrestur.
„Gjör rétt. Ávallt,“ skrifar hann að lokum.