Bæjaryfirvöld í Kópavogi hafa ekki í hyggju að svo stöddu að endurskoða þau uppbyggingaráform á tveimur reitum í miðbæ Kópavogs, sem mætt hafa háværri andstöðu hluta íbúa bæjarins á undanförnum misserum.
Helga Hauksdóttir, formaður skipulagsráðs bæjarins og bæjarfulltrúi Framsóknar, segir þó við Kjarnann að henni lítist vel á það að ráðist verði í hugmyndasamkeppni um útfærslu annarra hluta miðbæjarsvæðisins.
Hún segist skilja áhyggjur íbúa á miðbæjarsvæðinu sem hafa lýst yfir óánægju með áformin á Hamraborgarsvæðinu og vill ekki útiloka að þau verði endurskoðuð að einhverju leyti, þó að það sé ekki á döfinni í dag.
Íbúahópurinn Vinir Kópavogs, sem stofnaður var vegna andstöðu við fyrirhuguð áform í miðbænum í Kópavogi og raunar fleiri skipulagsáform bæjarins líka, lét nýlega framkvæma skoðanakönnun, meðal annars á afstöðu bæjarbúa til þess að að ráðast í hugmyndasamkeppni um miðbæjarsvæðið.
Svipað mörgum líst illa og vel á samþykkt skipulag
Rúmlega 71 prósent þeirra íbúa sem svöruðu könnuninni, sem framkvæmd var af Gallup, sögðust hlynnt því að ráðist yrði í hugmyndasamkeppni.
Vert er að taka fram að sú spurning var almennt orðuð og felur yfirlýstur stuðningur við hugmyndasamkeppni um miðbæinn því ekki í sér að fólk sé endilega að samsinna því að bærinn ætti að hverfa frá samþykktu skipulagi á þeim tveimur reitum sem skipulag hefur nýlega verið samþykkt fyrir, Fannborgarreit og Traðarreit vestur.
Hópurinn lét einnig Gallup spyrja bæjarbúa hvernig þeim litist á uppbyggingaráformin sem samþykkt hafa verið í miðbænum og var niðurstaðan á þá leið að um tæp 38 prósent sögðu að þeim litist illa á áformin, en rúmum 34 prósentum vel.
Um 28 prósent tóku svo ekki sérstaka afstöðu til þess álitaefnis, samkvæmt könnun Gallup. 385 manns svöruðu könnuninni, sem framkvæmd var dagana 17. desember til 26. janúar.
Rúm 17 prósent gætu hugsað sér að kjósa Vini Kópavogs í vor
Í könnuninni sem Vinir Kópavogs létu Gallup framkvæma kom einnig fram að rúm 17 prósent bæjarbúa teldur líkleg að þau myndu kjósa sérframboð undir nafni Vina Kópavogs í komandi bæjarstjórnarkosningum, en þessar niðurstöður voru kynntar á fundi félagsins sem haldinn var í Smáranum í gærkvöldi.
Stjórn Vina Kópavogs mun á næstunni taka frekari afstöðu til þess hvort ráðist verði í slíkt sérframboð eða ekki. Á fundinum í gærkvöldi kom fram tillaga þess efnis að Vinir Kópavogs myndu bjóða fram undir hatti Miðflokksins, en hún var felld einum rómi og var það afstaða fundarmanna að ef félagið færi fram yrði það óháð flokkspólitískum línum.
Áhrifa Vina Kópavogs gæti þó gætt í bæjarmálapólitíkinni í Kópavogi í vor óháð því hvort ákveðið verður að fara í sérframboð eða ekki, en einn virkur stofnfélagi í samtökunum, Hákon Gunnarsson, býður sig fram til þess að leiða Samfylkinguna í bænum.
Hann gefur kost á sér til þess að vera í 1.-2. sæti í forvali flokksins í Kópavogi, sem hófst í dag. Í framboðsyfirlýsingu sinni sagði hann að það þyrfti ekki einungis að vinda ofan af þeim ákvörðunum sem teknar hefðu verið um þessi skipulagsmál, heldur þyrfti „algerlega að kúvenda allri aðferðafræði og stjórnunarháttum í stjórn og rekstri bæjarfélagsins.“
Mikil uppbygging samþykkt
Deiliskipulag Fannborgarreits og Traðarreits vestur var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs í desember. Það gerir ráð fyrir því að það verði ansi mörg ný hús byggð á þessum reitum. Til stendur að rífa gömlu bæjarskrifstofurnar við Fannborg 2, 4 og 6, alls um 5300 fermetra húsnæði, til þess að rýma fyrir nýbyggingum og einnig byggja upp á svæðum sem í dag að miklu leyti undirlögð undir bílastæði.
Bílastæði eiga í staðinn að færast neðanjarðar og plássið sem verður til á að nýta undir þétta byggð undir íbúðir og atvinnustarfsemi, auk opinna torgsvæða. Nýjar íbúðir á þessum reitum eiga að verða allt að 550 talsins, auk rýmis fyrir þjónustu- og atvinnustarfsemi.
Afar mikilvægt svæði fyrir bæinn
Á vettvangi bæjarstjórnar Kópavogs er þessa dagana verið að fjalla um heildarsýn fyrir miðbæjarsvæði Kópavogs.
„Þróunarsvæðið er mun stærra en þessir reitir og það er alls ekki loku fyrir það skotið að það verði haldin hugmyndasamkeppni um einhvern hluta af þessu miðbæjarsvæði,“ segir Helga Hauksdóttir formaður skipulagsráð við Kjarnann, en sjálfri líst henni vel á að ráðast í slíka vinnu.
Hún segir miðbæjarsvæðið bæði stórt og afar mikilvægt fyrir bæinn. „Þarna verður kjarnastöð Borgarlínu og það verður ofboðslega gott upp á almenningssamgöngur að vera þarna. Við erum að skoða hvernig útfærslan á Borgarlínunni verður á þessu svæði,“ segir Helga.