Eitt helsta áherslumál Sósíalistaflokksins í Reykjavík er að útsvar verði lagt á fjármagnstekjur. Launafólk greiði hluta af sínum tekjum til sveitarfélagsins sem fari í sameiginlegan sjóð, nýttan til þjónustu og uppbyggingar borgarinnar og að ekki sé eðlilegt að ríkasta fólkið, fólk sem hafi tekjur sínar af fjármagni, þ.e. fjármagnstekjur, sé ekki að greiða neitt af sínum tekjum til borgarinnar. Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins og eini fulltrúi flokksins í núverandi borgarstjórn, segir um að ræða mikið hagsmunamál fyrir sveitarfélagsins, enda sé útsvar veigamesti tekjustofn þeirra. Útsvar á fjármagnstekjuskatt þurfi auðvitað að setja með lögum á Alþingi, en rétt sé að Reykjavíkurborg verði leiðandi í því ákalli.
Þetta kemur fram í viðtali hlaðvarps Kjarnans fyrir borgarstjórnarkosningarnar, Með orðum oddvitanna, við Sönnu, þar sem hún sagði borgina verða af mörgum milljörðum á ári hverju vegna þess að ekkert útsvar sé lagt á tekjur þeirra ríkustu.
Þá vill Sósíalistaflokkurinn að borgin fari sjálf að byggja húsnæði sem henti borgarbúum og sérstaklega þeim verst settu. Sú nálgun sem notuð sé nú sé ekki að virka, 930 séu á biðlistum hjá Félagsbústöðum og það gangi ekki að þeir séu einungis að kaupa íbúðir heldur þurfi að byggja. Þegar skoðað sé hjá Þjóðskrá hvaða einstaklingar það eru sem eru að kaupa sér nýja íbúð sjáist að það sé erfiðara fyrir fólk að kaupa sína fyrstu íbúð, á meðan fólk sem eigi þegar íbúð sé að kaupa íbúð númer tvö eða jafnvel fyrirtæki að kaupa íbúðir. Þannig sé húsnæði að fara í hendurnar á eignafólki; litið sé á húsnæði sem fasteign en ekki heimili. „Það á að líta að húsnæðisuppbyggingu sem heimili fólks og mannréttindi,“ segir Sanna, og vill að borgin byggi sjálf með sérstaka áherslu á uppbyggingu félagsíbúða, sem sést hafi í löndunum í kring um okkur.
Meðal þess sem tekist er á um fyrir borgarstjórnarkosningarnar sem fram fara 14. maí er þétting byggðar. Sanna segir þéttingu byggðar ágæta og að víða megi þétta, þó passa verði að það verði ekki of langt gengið í þeim efnum. Hins vegar sé alderi talað um húsnæðisstefnuna sjálfa þegar þétting byggðar er nefnd. Ekki sé nóg að þétta og byggja ef húsnæðið sem byggt er henti ekki þörfum fólks og að ef íbúðirnar séu of dýrar lagi það ekki húsnæðisvandann. Formúlan sem hafi verið í notkun síðustu ár skilji alltaf eitthvað fólk eftir, uppbyggingaráætlunin sé ekki hönnuð að þörfum þeirra verst settu, og vísar Sanna meðal annars til skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem sýndi að 860 byggju í atvinnuhúsnæði í Reykjavík. Skoða þurfi hvernig íbúðir sé verið að byggja, hver sé að byggja þær og að félagslega nálgun þurfi. „Annars endum við bara með íbúðir sem enginn er að kalla eftir.“
Betri samgöngur núna
Hvað Borgarlínuna varðar segir Sanna að allt sem miði að því að efla almenningssamgöngur sé gott, en ekki á þeim forsendum að fólk þurfi að sætta sig við niðurskurð á núverandi kerfi með loforði um að allt verði betra í framtíðinni. Alltaf sé spurt um viðhorf til Borgarlínu í framtíðinni en aldrei rætt um kerfið eins og það sé í dag. Þjónusta Strætó hafi orðið fyrir talsverðum skerðingum nýverið, sem sé mjög vont fyrir fólk sem treysti á Strætó núna og hafi ekki aðra valmöguleika, auk þess sem verðið á nokkrum árskortum hafi hækkað. „Það fer ekki alveg saman hljóð og mynd, við tölum um að það þurfi að efla almenningssamgöngur en svo er bara verið að gera kerfið verra,“ segir Sanna.
Vilja efla og manna gjaldfrjálsa leikskóla
Loks vill Sósíalistaflokkurinn leggja áherslu á að efla og manna leikskólana með því að bæta kjörin og hlusta á starfsfólkið, auk þess sem huga þurfi að starfsaðstæðum. Meira fjármagn eigi að leggja í uppbyggingu leikskólanna, þar sem um sé að ræða grunnstoð samfélagsins, og það sé meðal annars hægt að fjármagna með því að setja útsvar á fjármagnstekjur. Þá vill Sósíalistaflokkurinn hafa öll skólastig, þar með talið leikskóla, gjaldfrjáls fyrir öll börn, og bendir Sanna á að gjöld foreldra nemi ekki nema 9,3% af kostnaði við rekstur leikskólanna, svo það sé ekki eins og foreldrar séu að halda leikskólunum uppi.
Hlustað sé á íbúa og starfsfólk borgarinnar
Eins og áður segir er Sanna eini borgarfulltrúi Sósísalistaflokksins og segir hún það geta verið erfitt. Minnihluti í borgarstjórn upplifi oft að ekki sé á hann hlustað og tillögur þeirra felldar. Þó segist Sanna hafa fengið nokkrar tillögur samþykktar til skoðunar en gagnrýnir að ekkert hafi komið upp úr þeim skoðunum. Hún segir þetta geta verið erfiða stöðu, þegar verið sé að segja frá ákveðnum veruleika og upplifa að ekki sé hlustað, en að Sósíalistaflokkurinn hafi þó áhrif; án Sósíalistaflokksins væri engin stéttaumræða innan borgarstjórnar. Flokkurinn þurfi þó að hafa meiri áhrif með því að koma fleirum inn í borgarstjórn og segir Sanna að flokkurinn myndi vilja mynda vinstri-sósíalistameirihluta.
Að lokum ítrekar Sanna að mikilvægt sé að laga grunnþjónustu borgarinnar, án grunns verði borgin aldrei góð og að ekki sé verið á réttri leið þegar fólk í erfiðri stöðu upplifi að ekkert sé hlustað á það. Sósíalistaflokkurinn vilji að fólk, borgarbúar og starfsfólk borgarinnar, hafi meira um málin að segja. Ekki bara að ganga til kosninga á fjögurra ára fresti og geta svo tekið þátt í íbúakosningu um það hvort fólk vilji ærslabelg í hverfið sitt.
Hægt er að hlusta á viðtalið við Sönnu í heild sinni í spilaranum hér að neðan.