Rúmur helmingur, eða 55,5 prósent ungs fólks á aldrinum 18-24 ára, bjó í foreldrahúsum á síðasta ári, samkvæmt tölum úr lífskjarakönnun Hagstofu Íslands. Frá því að Hagstofan hóf að mæla búsetu ungs fólks í foreldrahúsum árið 2004 hefur þetta hlutfall aldrei verið lægra, en hæst var það árið 2016, er 62,2 prósent allra á þessum aldri bjuggu með foreldrum sínum.
Talsverður munur er á milli ungra karla og kvenna hvað þetta varðar, en árið 2021 bjuggu 63,6 prósent karla á þessum aldri með foreldrum sínum, en 46,3 prósent kvenna. Hlutfall karla sem búa hjá foreldrum sínum hækkaði frá fyrra ári á meðan að hlutfall kvenna sem búa í foreldrahúsum lækkaði.
Samkvæmt því sem fram kemur í umfjöllun á vef Hagstofunnar virðist þessi kynjamunur þó jafnast út eftir því sem fólk eldist, en í hópi þeirra sem voru 25-29 ára árið 2021 bjuggu 23,6 prósent karla með foreldrum sínum en 21,1 prósent kvenna. Hlutfall kvenna sem búa í foreldrahúsum á þessum aldri hefur aukist nokkuð á undanförnum árum, en á fyrstu árum mælinga Hagstofunnar voru oft innan við 10 prósent kvenna á aldrinum 25-29 í foreldrahúsum.
Ungt fólk á höfuðborgarsvæðinu er líklegra til að búa í foreldrahúsum en ungt fólk í landsbyggðunum. Árið 2021 bjuggu 51,2 prósent 18-29 ára gamalla karla á höfuðborgarsvæðinu með foreldrum sínum en en 44,7 karla á sama aldri utan höfuðborgarsvæðisins. Þá bjuggu 45,4 prósent 18-29 ára kvenna á höfuðborgarsvæðinu með foreldrum sínum, en einungis 24,9 prósent kvenna utan höfuðborgarsvæðisins.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar hafa orðið nokkuð miklar breytingar á högum ungra kvenna á aldrinum 18-29 ár utan höfuðborgarsvæðisins á skömmum tíma, en árið 2019 bjuggu 42,5 prósent þeirra með foreldrum sínum. Hlutfallið var orðið 24,9 prósent árið 2021, sem áður segir.
Fæstir búa með foreldrum á Norðurlöndunum
Í samanburði við ríki Evrópusambandsins búa tiltölulega fá ungmenni í foreldrahúsum á Íslandi. Heilt yfir bjuggu um 80 prósent þeirra sem voru á aldrinum 18-24 ára í foreldrahúsum árið 2021, á meðan að hlutfallið var 55,5 prósent á Íslandi. Hlutfall ungmenna í foreldrahúsum var lægst í Danmörku, þar sem rúm 34 prósent bjuggu með foreldrum sínum á þessum aldri árið 2021, en hæst í Króatíu, þar sem tæp 96 prósent fólks á þessum aldri bjó með foreldrum sínum.
Sem áður segir bjuggu 22,5 prósent þeirra sem voru á aldrinum 25-29 ára með foreldrum sínum hérlendis árið 2021. Í ríkjum ESB var þetta hlutfall 42,1 prósent að meðaltali, lægst á Norðurlöndunum, einungis 5 prósent fólks á þessum aldri bjó með foreldrum sínum í Danmörku, tæp 7 prósent fólks á þessum aldri í Finnlandi og 7,5 prósent fólks á þessum aldri í Svíþjóð. Hlutfallið var hins vegar hæst í Króatíu, þar sem 77 prósent bjuggu með foreldrum sínum og þar á eftir komu Ítalía og Grikkland.
Fólk í foreldrahúsum líklegra til að vera í vinnu eða námi
Í samantekt Hagstofunnar eru einnig tölur um hlutfall fólks á aldrinum 16-24 ára sem ekki er í námi, vinnu eða starfsþjálfun. Árið 2021 átti það við um 6,3 prósent Íslendinga á þessum aldri, og lækkaði hlutfallið úr 7,2 prósentum árið 2020.
Fólk sem bjó í foreldrahúsum var samkvæmt tölum Hagstofunnar meira en tvöfalt líklegra til þess að vera í námi, vinnu eða starfsþjálfun en þau sem ekki búa með foreldrum sínum á þessum aldri, en árið 2021 voru 12,8 prósent fólks á aldrinum 16-24 ára sem ekki bjuggu í foreldrahúsum ekki í námi, vinnu eða starfsþjálfun samanborið við 5,0 þeirra sem bjuggu með foreldrum.
Sjá má hvernig Ísland stendur í samanburði við ríki Evrópu í þessum efnum hér að neðan.