„Það er ekki alveg öruggt, nei,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við Kjarnann, spurður hvort öruggt sé að þeir sem mögulega hafi smitast af kórónuveirunni á píanókonsert í Hörpu á föstudagskvöld myndu örugglega greinast jákvæðir í dag. Ekki stendur til að skima allan hópinn á ný síðar í vikunni.
„Ég held að það sé nú kannski ekki þörf á því,“ sagði Þórólfur síðdegis í dag, en undanfarið ár, frá því að veirufaraldurinn hóf að raska venjulegu lífi, hefur oft komið fram að það getur tekið nokkra daga frá því að fólk verður útsett fyrir veirunni og þar til einstaklingar greinast jákvæðir fyrir COVID-19 í prófum.
Í grein á Vísindavefnum frá því í október segir að það taki um 3-4 daga að jafnaði frá því að fólk byrjar að verða smitandi með COVID-19 eftir að hafa smitast sjálft. „Þetta passar við þá staðreynd að það tekur einnig nokkra daga fyrir sýni að verða jákvætt fyrir SARS-CoV-2 úr stroki frá upphafi smits,“ segir í greininni.
Núna klukkan 20 í kvöld eru þrír sólarhringar liðnir frá því að tónleikarnir sem um ræðir hófust í Eldborgarsal Hörpu.
Alltaf að eiga við líkur
Þórólfur telur okkur þó geta verið „nokkuð sátt með að gera þetta svona“ og segir að það séu „miklar líkur“ á að möguleg smit frá því á föstudag greinist í skimun tónleikagesta sem staðið hefur yfir í dag.
„Við erum alltaf að eiga við alls konar líkur,“ segir Þórólfur og bendir á að hið sama eigi við varðandi tvöfalda skimun á landamærunum með seinni skimun á fimmta degi eftir komuna, alltaf séu einhverjar líkur á að smit sleppi í gegn.
Beint í próf ef einkenni koma fram
Sóttvarnalæknir segir að hann telji skynsamlegt að ráðast í skimun þeirra sem sóttu tónleikana í Hörpu á föstudaginn núna strax. „En það þarf líka að brýna fyrir fólki sem hefur verið þarna að passa sig. Og ef fólk fer að finna fyrir einhverjum einkennum, að fara þá aftur í próf,“ segir Þórólfur.
Síðan séu þeir sem sátu næst þeim einstaklingi sem var smitaður í sóttkví, en það voru um tíu manns. „Þeir verða í hefðbundinni sóttkví í vikutíma og þurfa þá að fara í skimun, þeir sem voru næstir þessum smitaða einstaklingi,“ segir Þórólfur.
Hið sama á við um þá starfsmenn og sjúklinga á Landspítala sem taldir eru hafa verið í nánd við starfsmann spítalans sem greindist með breska afbrigði kórónuveirunnar yfir helgina.
Þegar Þórólfur ræddi við Kjarnann á fimmta tímanum í dag höfðu engin ný jákvæð sýni greinst svo hann vissi til það sem af var degi. „Við fáum að vita fram eftir kvöldi hvort einhver greinist, ef einhver verður jákvæður,“ sagði Þórólfur.
Þarf að vera viðbúinn því ólíklega
Spurður hvort vonbrigði eða eitthvað svekkelsi fylgi því að smit hafi lekið inn í landið og út í samfélagið með þeim hætti sem það gerði segir sóttvarnalæknirinn af svo sé ekki. Hann hafi alltaf talið einhverjar líkur á því.
„Þetta er það sem maður býst við, þó að líkurnar séu litlar og búið sé að gera ýmislegt til að halda líkunum niðri þá eru þær til staðar. Og ólíklegir hlutir geta gerst líka, maður þarf að vera viðbúinn því.“