Yfirvöld í El Salvador í Mið-Ameríku hyggjast viðurkenna rafmyntina Bitcoin formlega sem gjaldmiðil í landinu, til hliðar við Bandaríkjadal, sem hefur frá árinu 2001 verið helsti lögeyririnn í El Salvador.
Þingmenn í landinu samþykktu frumvarp þessa efnis á þriðjudagskvöld með auknum meirihluta, 62 atkvæðum af alls 84. Nayib Bukele, forseti landsins, segir að þetta sé söguleg stund, en hann lagði frumvarpið fyrir þingið í síðustu viku.
The #BitcoinLaw has been approved by a supermajority in the Salvadoran Congress.
— Nayib Bukele 🇸🇻 (@nayibbukele) June 9, 2021
62 out of 84 votes!
History! #Btc🇸🇻
Fréttaveitan AFP fjallar um málið og segir í umfjölluninni að þrátt fyrir frumvarpið sé enn allt á huldu um það hvernig nákvæmlega Salvadorar hyggjast innleiða rafmyntina Bitcoin sem lögeyri. Lögin taka þó gildi eftir um þrjá mánuði og þá verður öllum fyrirtækjum skylt að taka á móti rafmyntinni, nema fyrirtækin séu hreinlega ófær um að verða sér úti um þá tækni sem til þarf.
Um fjórir af hverjum tíu íbúum í El Salvador búa við fátækt og margir Salvadorar hafa flust búferlaflutningum, ekki síst til Bandaríkjanna, í von um efnahagsleg tækifæri sem heimalandið hefur ekki haft upp á að bjóða um lengri tíma.
Forsetinn Bukele segir að nýju lögin muni gera íbúum El Salvador hægara um vik við að fá peninga senda frá ættingjum og vinum á erlendri grundu, en um 22 prósent af vergri landsframleiðslu El Salvador á uppruna sinn í peningasendingum erlendis frá. Um sjötíu prósent landsmanna eru ekki með bankareikninga.
Einn Bitcoin jafngildir í dag yfir 34 þúsund Bandaríkjadölum, eftir að virðið hafði farið yfir 63 þúsund dali þegar það var hæst um miðjan apríl.
Þessar miklu sveiflur á genginu hafa valdið því að myntin hefur verið vinsæl hjá áhættufjárfestum sem sjá möguleika á skjótfengnum gróða, en einnig vakið upp spurningar um hversu fýsilegt sé að nýta Bitcoin til þess að stunda viðskipti með vörur og þjónustu dag frá degi.
Bukele forseti er þó sannfærður um ágæti rafmyntarinnar og segir að hagnýting hennar til framtíðar muni koma í veg fyrir að miklir fjármunir sitji eftir hjá þeim milliðum sem í dag senda peninga til íbúa El Salvador.
Stjórnmálamenn sem eru honum sammála segja sumir hverjir að löggjöfin muni koma El Salvador á kortið og að landið verði áhugaverðari valkostur fyrir erlenda fjárfesta.
Gætu verið að skjóta sig í fótinn
Í frétt Reuters segir að áætlanir Salvadora um að gera Bitcoin að lögeyri hafi vakið upp ýmsar spurningar á meðal sérfræðinga, sem telji meðal annars að þessi ákvörðun gæti flækt og seinkað áformum ríkisstjórnar Bukele um að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fyrirgreiðslu. AGS var sagður fylgjast náið með framvindunni, í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar.
Reuters hafði eftir einum sérfræðingi í fjármálageiranum að mögulega væri Bukele að skjóta sig í fótinn, þar sem með því að veita Bitcoin lögmæti yrði hugsanlega erfiðara að innheimta skatta. Bitcoin væri jú rétt eins og aðrar rafmyntir einföld leið til þess að forðast afskipti hins opinbera, þar sem kerfið væri ekki miðstýrt. Því væri peningaþvætti og skattasniðganga lítið mál, fyrir þá sem hefðu áhuga á að standa í slíku.