Elon Musk er ólíkindatól og heldur stöðugt áfram að koma á óvart. Hann er nú að mati Forbes þriðji ríkasti maður heims en býr hvorki í höll né penthouse-íbúð heldur í 37 fermetra leiguhúsnæði.
Smáhýsið er reyndar í eigu fyrirtækis sem Musk á sjálfur, SpaceX. Þangað flutti hann nýverið og sagði: „Þetta er bara alveg ágætt.“
Í fyrra hét Musk, sem er forstjóri Tesla, því að selja næstum allar eigur sínar, þar á meðal sex stór íbúðarhús sem hann átti í Kaliforníu. Hann segist aðeins eiga eitt hús í dag en þar býr hann þó ekki.
Smáhýsið sem hann leigir af SpaceX er í Boca Chica í Texas, í nágrenni SpaceX-verksmiðjunnar þar sem geimflaugar fyrirtækisins eru framleiddar. Þetta er einingahús, hannað og framleitt af nýsköpunarfyrirtækinu Boxabl. Það er skipulagt eins og stúdíó-íbúð í opnu rými.
Musk er vellauðugur og í fyrra, þegar hann var orðinn ríkasti maður heims, var hann gagnrýndur harðlega fyrir auðsöfnunina. Hans svar við þeirri gagnrýni var að selja allar fasteignirnar sem hann hefur nú staðið við að mestu.
Húsið sem hann á enn er þó engin smásmíði heldur um 1.500 fermetra aldargamalt sveitasetur mitt á milli San Francisco og Silicon Valley. Hann segist vera tilbúinn að selja það, en aðeins ef stór fjölskylda kaupi og búi þar.