Umhverfisstofnun hefur lagt fram tillögu að endurskoðun friðlýsingar náttúruvættisins Hverfjalls í Skútustaðahreppi. Tillagan er unnin af samstarfshópi sem í eiga sæti fulltrúar landeigenda Voga, Umhverfisstofnunar, Skútustaðahrepps og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
Eldri friðlýsingarskilmálar eru frá árinu 2011 og samkvæmt þeim átti að endurmeta hana að tíu árum liðnum. Að þeim tímapunkti er nú komið.
„Helsta breytingin sem verður ef tillagan verður samþykkt er að mörk svæðisins breytast, það er að svæðið minnkar örlítið. Þetta er gert a beiðni landeigenda,” segir Arna Hjörleifsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, í svari við fyrirspurn Kjarnans um endurskoðun friðlýsingarinnar.
Í eldri friðlýsingarskilmálum, sem enn eru í gildi, var hið friðaða svæði 3,127 ferkílómetrar að stærð. Verði hin nýja tillaga samþykkt minnkar friðaða svæðið um tæplega 0,4 ferkílómetra.
Arna segir að í ljósi þess að verið var að endurskoða mörk svæðisins var auglýsing um friðlýsingu uppfærð, röð greina breytt og bætt inn áherslum um að svæðið væri ferðamannastaður. Þá voru einnig sett inn ákvæði um heimild til að gera umsjónarsamning. Ekki er lagt til að gerðar verði aðrar efnislegar breytingar.
Hverfjall er stór, hringlaga öskugígur, um 1000 metrar í þvermál, sem rís 90-150 metra yfir flatlendið umhverfis. Gígurinn myndaðist fyrir um 2500 árum í þeytigosi í grunnu stöðuvatni og er sérstakur að því leyti að gígskálin er álíka djúp og gígurinn er hár. Hlíðar gígsins eru brattar og þétt settar af vatnsrásum. Hann er í röð fegurstu og reglubundnustu öskugígamyndana sem gefur að líta á Íslandi og talinn í röð þeirra stærstu sinnar tegundar á jörðinni. Hverfjall er syðsti hluti a.m.k. 1800 metra langrar gossprungu. Norðan þess eru því minni gígar úr sama gosi, auk túffstabba sem myndaðist við gjóskuflóð frá Hverfjalli. Í túffstöbbunum er að finna steingerðar jurtaleifar.
Markmiðið með friðlýsingu Hverfjalls (Hverfells) er að vernda sérstæðar jarðmyndanir svæðisins og að tryggja að svæðið nýtist til útivistar og fræðslu, enda útivistar- og fræðslugildi hátt. Með friðlýsingunni er verndargildi svæðisins tryggt og jafnframt tryggt að svæðið nýtist til útivistar og ferðaþjónustu til framtíðar og sé í stakk búið til að taka á móti þeim fjölda gesta sem heimsækja svæðið, segir í frétt á vef Umhverfisstofnunar um tillögu að endurskoðaðri friðlýsingu.
Frestur til að skila athugasemdum við tillöguna er til og með 25. ágúst.