Birkir Leósson endurskoðandi hefur ákveðið að kæra Þórólf Matthíasson hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands til siðanefndar HÍ, í kjölfar ritdeilu þeirra á milli sem átt hefur sér stað á síðum Fréttablaðsins. Þetta má lesa í grein Birkis í Fréttablaðinu í dag.
Í grein sinni ritar Birkir að hann hafi ákveðið að kæra Þórólf til siðanefndarinnar þar sem það sé „ólíðandi að prófessor á háum launum af skattfé saki aðra opinberlega að tilefnislausu um fjársvik, önnur lögbrot, vanhæfni, geri mönnum upp skoðanir, hafi rangt eftir mönnum, haldi ítrekað fram ósannindum o.s.frv.“ og segir Birkir að með slíkri framgöngu skaði Þórólfur orðspor háskólans.
Þórólfur gagnrýnir ársreikning Vísis hf.
Ritdeila þeirra Þórólfs og Birkis hefur snúist um gagnrýni prófessorsins á reikningsskil og endurskoðun ársreiknings sjávarútvegsfélagsins Vísis, sem Birkir hefur haft aðkomu að í sínum störfum. Skeyti hafa gengið þeirra á milli á síðum blaðsins undanfarnar tvær vikur, eða frá því að Þórólfur hóf upp raust sína með grein þann 15. júlí. Þeirri grein svaraði Birkir þann 21. júlí.
Í grein sem birtist í Fréttablaðinu núna á þriðjudag svaraði Þórólfur Birki á ný og gagnrýndi starfshætti endurskoðenda Vísis og annarra sjávarútvegsfélaga nokkuð harðlega. Hann sagði meðal annars að þeir örfáu einstaklingar sem bæru ábyrgð á endurskoðun reikninga íslenskra útgerðarfyrirtækja hefðu „skapað þá venju að hunsa skýr fyrirmæli í 5. gr. ársreikningslaganna og hanga eins og hundar á roði á þröngri túlkun á ákvæðum 26. greinar bókhaldslaganna“.
Þórólfur vill meina að þetta fyrirkomulag leiði til þess að óefnisleg réttindi, þar með talið aflaheimildir, séu ekki metin með gagnsæjum hætti í ársreikningum útgerða. Í grein hans á þriðjudaginn sagði að miðað við að „varanlegur kvóti sé seldur á 4.000 krónur þorskígildið er verðmæti kvóta sem Vísir ráðstafar milli 50 og 60 milljarðar króna, en ekki um 14 milljarðar króna eins og bókfært er í ársreikningi“ og segir prófessorinn að þar sé „dálagleg dulin „eign““ á ferðinni.
„Ég skal ekki ganga svo langt að fullyrða að um lögbrot sé að ræða, en get ekki séð betur en að gengið sé með skýrum hætti gegn inntaki og grunnhugsun ársreikningslaganna. Það getur ekki talist gott veganesti í endurskoðun!“ skrifaði Þórólfur meðal annars í grein sinni.
Skorar á Þórólf um að leita til yfirvalda og fá niðurstöðu
Í grein Birkis í dag skorar hann á Þórólf um „að senda erindi til ársreikningaskrár varðandi innihald einstakra ársreikninga sem hann telur ekki gerða á réttum forsendum og til endurskoðendaráðs hafi hann athugasemdir við vinnubrögð endurskoðenda,“ vilji hann fá niðurstöðu í málið.
„Það eru réttir aðilar til að taka á því ef um slíka ágalla er að ræða sem prófessorinn heldur fram. Geri prófessorinn það ekki verður að líta á orð hans um ársreikninga sjávarútvegsfélaga og endurskoðendur þeirra sem þá markleysu sem þau eru.“