Heildarmagn umbúðaúrgangs hér á landi nam rúmum 53,7 þúsund tonnum árið 2019, sem samsvarar um 151 kílói af umbúðum á hvern einstakling á árinu. Alls voru 25,4 þúsund tonn af umbúðaúrgangi send til úrvinnslu og því nam endurvinnsluhlutfall 47,3 prósentum árið 2019. Hlutafllið lækkar á milli ára en það var 51 prósent árið 2018. Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofu Íslands.
Á vef Hagstofunnar segir að að með umbúðaúrgangi sé átt við hvers konar pappírs- og pappaumbúðir, sem og plast-, viðar-, gler- og málmumbúðir sem ber úrvinnslugjald sem hægt er að endurheimta ef umbúðum er skilað til endurvinnslu. „Efni telst endurunnið þegar það er móttekið af viðurkenndum endurvinnsluaðila. Tilfallandi umbúðarúrgangur er áætlaður út frá meðal innflutningi umbúða síðustu þriggja ára,“ segir í grein Hagstofunnar.
Mjög lítið endurunnið hér innanlands
Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru 528 tonn endurunnin eða endurnýtt hér á landi en afgangurinn, tæp 25 þúsund tonn, fluttur til endurvinnslu erlendis. Endurvinnsla innanlands dregst töluvert saman á milli ára en 855 tonn voru endurunnin eða endurnýtt innanlands árið 2018.
Mest fellur til af pappírs- og pappaumbúðum hér á landi, alls rétt rúmlega 21 þúsund tonn. Það eru rúmlega 39 prósent af heildarþunga umbúðaúrgangs sem fellur til hérlendis. Endurvinnsluhlutfall slíkra umbúða var 83 prósent árið 2019 sem er tiltölulega hátt í samanburði við hina flokkana.
Til samanburðar skilaði einungis um fjórðungur plastumbúða sér til endurvinnslu eða um 4.406 tonn af þeim 17.492 tonnum sem til féllu af plastúrgangi á árinu 2019. Endurvinnsluhlutfall plastumbúða minnkar á milli ára en það var rúm 29 prósent árið 2018.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar fór öll endurvinnsla fram erlendis á þeim pappírs- og pappaumbúðum sem til féllu hérlendis. Um 172 tonn af plastumbúðum voru endurunnin hér innanlands en 4234 tonn voru endurunnin erlendis.
En hvað verður um það sem skilar sér í endurvinnslu?
Samkvæmt upplýsingum á vef Sorpu eru örlög umbúða sem rata í endurvinnslu ólík. Plast sem kemur til Sorpu er pressað og baggað áður en það er flutt til Svíþjóðar þar sem það er flokkað eftir tegundum. „Plasttegundirnar PET, LDPE, HDPE og PP (oftast merkt með númerunum 1, 2, 4 og 5 í endurvinnsluþríhyrningi) fara til endurvinnslu. Einnig samsett filma úr PP/PE. Plast af öðrum tegundum, s.s. PVC, PS og EPS og umbúðir sem eru lamineraðar, svartar eða samsettar úr fleiri en einni tegund plasts eru aðeins hæfar til orkuvinnslu þegar þær koma í bland við aðrar plasttegundir. Þær nýtast þá til varma- og rafmagnsframleiðslu í Svíþjóð,“ segir á vef Sorpu.
Fyrsta skref fyrir pappírs- og pappaumbúðir er það sama og plastsins, það er pressað og baggað til þess að draga úr rúmmáli. Síðan er pappinn fluttur til Svíþjóðar þar sem hann er flokkaður enn frekar. Úr endurunnum sléttum pappa er til dæmis hægt að framleiða karton sem notað er í nýjar umbúðir en úr endurunnum bylgjupappa er framleiddur nýr bylgjupappi.
Glerið er aftur á móti malað og það má nota sem fyllingarefni við framkvæmdir og nýtist þá með svipuðum hætti á möl. „Þannig má draga úr námugreftri og áhrifum slíkra framkvæmda á umhverfið, auk þess sem dregið er úr kostnaði,“ segir á vef Sorpu.