Skógareyðing minnkaði milli áranna 2020 og 2021. Það eru vissulega góðar fréttir en eyðingarmátturinn er enn það mikill að 6,3 prósent samdráttur milli ára er aðeins dropi í hafið eigi loftslagsmarkmið sem 145 ríki hafa skuldbundið sig til að ná með öllum ráðum, að standast. Samkomulagið gengur út á að skógareyðing verði úr sögunni árið 2030. Það er að segja: Að skóglendi verði meira það ár en árið á undan. Og að það fari svo að stækka en ekki minnka líkt og það hefur gert síðustu ár og áratugi.
Í nýrri matsgerð vísindamanna á stöðu skóga heimsins segir að nokkur ríki standi framar öðrum þegar komi að því að draga úr skógareyðingu en hún var þó alls staðar mikil. Aðeins 3 prósent samdráttur var milli áranna 2020 og 2021 er kom að eyðingu frumskóga heimsins – skóga hitabeltisins – svo dæmi sé tekið. Frumskógar eru sérstaklega mikilvægir er kemur að heilbrigði vistkerfa jarðar, bæði fyrir líffræðilega fjölbreytni sem og bindingu kolefnis.
Ef trjágróður sem var felldur er metinn til losunar kolefnis jafnast það á við losun allra ríkja Evrópusambandsins – og Japans að auki.
Ef fram heldur sem horfir mun ekki nást að takmarka hlýnun loftslags við 1,5 gráður, segja vísindamennirnir. Þeir minna á að á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow á síðasta ári hafi 145 ríki skuldbundið sig til að hætta skógareyðingu fyrir lok þessa áratugar.
En miðað við árangurinn sem hefur hingað til náðst þá er ljóst að yfirlýsingin var „innantóm“ segja vísindamennirnir í skýrslu sinni um stöðu skóganna.
Þeir benda enda á að lengin aðgerðaráætlun hafi fylgt heitum þjóðanna 145 og að aðeins 1 prósent þess fjármagns sem talið er þurfa til verksins hafi verið ráðstafað til verkefna gegn skógareyðingu. Þá segja vísindamennirnir að það sem helst skorti sé pólitískur vilji.
Mesta skógareyðingin átti sér stað í Brasilíu. Eyðing skóga hefur reyndar aukist þar síðan að Jair Bolsonaro varð forseti. Í nokkur ár á undan hafði smám saman verið dregið úr henni.
Mest skógareyðing undanfarin ár hefur átt sér stað í Brasilíu, Bólivíu, Paragvæ og Austur-Kongó. Og í þessum löndum jókst hún milli áranna 2020-2021.
Aðeins eitt land hefur í fimm ár samfleytt náð að minnka eyðingu skóga: Indónesía. Árangur nágrannaríkisins Malasíu er enn áhugaverðari en þar tóku yfirvöld fast á málum og drógu úr skógareyðingu um fjórðung á aðeins einu ári. Vegna árangurs þessara tveggja ríkja eru hitabeltissvæði Asíu þau einu í heiminum sem gætu náð markmiðum um að hætta skógareyðingu árið 2030.
Vert er einnig að nefna árangur Gana og Fílabeinsstrandarinnar. Þar hafa skógar lengi verið ruddir til að rækta kakó sem Vesturlandabúa þyrstir svo mjög í. Í fyrra var gripið til aðgerða sem urðu til þess að 47 prósent minni skógareyðing var árið 2021 en árið 2020. Í Gabon hefur barátta gegn ólöglegu skógarhöggi einnig skilað góðum árangri.