Ekki liggja fyrir upplýsingar um hve stór hluti raforkusölu er nýttur til vinnslu rafmynta hér á landi.
Þetta eru svör sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið gáfu Andrési Inga Jónssyni, þingmanni Pírata, við fyrirspurn hans um málið. Svörin byggðu á upplýsingum bæði Orkustofnunar og orkufyrirtækjanna Landsvirkjunar, Orku náttúrunnar og HS orku. Fram kemur að á fimm ára tímabili hafi fyrirtækin selt gagnaverum 3.915 GWst (gígavattstundir) af raforku, langmest árið 2019 eða 1.010 GWst.
Kjarninn beindi fyrirspurn til Orkustofnunar um sama mál og fékk sömu svör: „Þær tölur sem Orkustofnun hefur, ná yfir notkun gagnavera almennt. Stofnunin er ekki með nánari sundurliðun á orkunýtingu gagnaveranna og þar af leiðandi ekki með gögn yfir hversu mikil orka fer til vinnslu á rafmynt.“
Um helmingur starfseminnar tengist rafmynt
Starfsemi gagnavera snýst um geymslu og vinnslu gagna í öflugum tölvum og áætla Samtök iðnaðarins að um helmingur af starfsemi þeirra nú tengist vinnslu rafmynta. Í frétt Kjarnans í byrjun desember síðastliðnum kom fram að hlutfallið af starfsemi sem tengist greftri eftir rafmyntum hafi farið minnkandi á undanförnum árum en það var um 80-90 prósent þegar mest lét. Samtök iðnaðarins gáfu þær upplýsingar að ekkert þeirra fjögurra gagnavera sem starfrækt eru á Íslandi væri eingöngu í rafmyntum.
„Það er áhugavert að sjá að á þessu árabili hefur sala á skerðanlegri orku minnkað jafnt og þétt, en sala til gagnavera aukist um nánast það sama,“ segir Andrés Ingi í samtali við Kjarnann en fyrirspurn hans snéri einnig að því hversu mikil raforka hefur verið seld sem skerðanleg orka undanfarin fimm ár.
„Þetta virðist hafa komið aftan að fólki þegar fjarhitaveitur gripu í tómt núna í vetur – það var ekki lengur hægt að veðja á að nóg orka væri aflögu í kerfinu,“ heldur Andrés Ingi áfram. „Það hefur verið gríðarlegur vöxtur í raforkunotkun gagnavera, sem eru farin að nota svipað og öll heimili í landinu – um 5 prósent af þeirri orku sem er framleidd á Íslandi. Þess vegna kemur á óvart að það liggi ekki fyrir upplýsingar um það hvernig sú orka er notuð, sérstaklega að ekki sé vitað hversu mikið sé notað til að grafa eftir rafmyntum.“
Raforkunotkun gagnavera dróst nokkuð saman árið 2020 er heimsfaraldur kórónuveirunnar stóð sem hæst. Hún jókst svo aftur í fyrra, nam 970 GWst eða 16 prósentum meira en ári á undan.
Orkustofnun áætlar að árið 2023 verður notkun gagnavera sem fá rafmagn beint frá flutningskerfinu 1.250 GWst. Er þá miðað við gildandi samninga og ekki gert ráð fyrir aukningu.
Landsvirkjun hefur hafnað öllum nýjum beiðnum um raforkukaup vegna rafmynta, bæði til núverandi viðskiptavina og nýrra aðila sem hafa lýst áhuga á að hefja slíka starfsemi á Íslandi. Gagnaver á Íslandi hyggjast „fasa út“ rafmyntir og færa sig meira yfir í hefðbundna viðskiptavini, samkvæmt upplýsingum Landsvirkjunar.
Núverandi samningar um þessa starfsemi renna út á næstu 1-2 árum. Í frétt Kjarnans í desember kom fram að Landsvirkjun hefði ekki ákveðið hvort að samningarnir verði endurnýjaðir að hluta eða heild.
Stórnotendur (álver, kísilver, gagnaver o.fl.) kaupa 78 prósent af allri raforku sem framleidd er í landinu samkvæmt svari ráðuneytisins.