Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir við Kjarnann að hann sjái ekki fyrir sér að ríkið komi til með að auka neitt við það fjármagn sem renni til rekstrar almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu samfara því að nýtt kerfi hágæða almenningssamgangna, Borgarlína, verður tekið í notkun.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var ekki jafn afdráttarlaus í samtali við Kjarnann um þetta efni eftir blaðamannafund ríkisstjórnarinnar í gær, en segir þó að ábyrgðin á almenningssamgöngukerfinu og ákvarðanataka um hvernig kerfið eigi að vera verði að fara saman.
Sveitarfélögin ýta á eftir samtali um málið
Kallað hefur verið eftir því af hálfu Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Strætó bs. að ríkið styðji við yfirlýst markmið sín um breyttar ferðavenjur með mjög auknum framlögum til almenningssamgangna, til dæmis í sumar í umsögnum við drög að Grænbók um samgöngumál, sem fjallað var um í Kjarnanum.
Í umsögn SSH sagði framkvæmdastjórinn Páll Björgvin Guðmundsson að samtökin hefðu verið að reka á eftir því við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, sem Sigurður Ingi stýrði þá og stýrir enn, að vinna hæfist við að festa í sessi skuldbindingar ríkis og sveitarfélaga vegna þeirra rekstrarþátta sem falla undir samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, þar með talið almenningssamgangna.
Þessari vinnu átti að vera lokið fyrir lok árs 2020, en samtalið hefur ekki enn farið af stað nú þegar hyllir undir árslok 2021.
Milljarður á ári til 2033 og sér það ekki breytast
Sigurður Ingi var nokkuð afdráttarlaus í samtali við Kjarnann í gær um að það kæmi ekki til greina að hans hálfu að ríkið færi að leggja fram meira fé en það gerir nú þegar inn í rekstur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, jafnvel eftir að Borgarlínan fer að aka um göturnar og nýtt leiðanet Strætó tekur gildi.
Þessi bætta þjónusta með tíðari ferðum og fleiri vögnum á götunum mun að sjálfsögðu kosta meira og hefur talan tveir milljarðar á ári í aukinn grunnrekstrarkostnað hefur verið nefnd í því samhengi.
„Við höfum alla tíð sagt: Við erum tilbúin að taka þátt í þessum stofnkostnaði, en reksturinn er hjá sveitarfélögunum. Það eru engin áform uppi um breytingar í þá veru. Við erum í dag að greiða milljarð inn í almenningssamgöngukerfið og áætlum að gera það áfram til ársins 2033 samkvæmt samþykkri samgönguáætlun.
Þannig að þú sérð ekki fyrir þér að það breytist?
„Nei, ég sé það ekki fyrir mér. Einhversstaðar verða að vera hreinar línur á milli þess hvað þessi gerir og hinn gerir, en ekki fjölga gráu svæðunum. Sveitarfélögin eru venjulega að kalla eftir því að þeim sé fækkað,“ sagði Sigurður Ingi.
Ábyrgð og ákvarðanir þurfi að fara saman
Bjarni Benediktsson segir að í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðinu sé fjallað um að „þetta samtal muni eiga sér stað“ á milli ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.
„En það getur náttúrlega ekki verið þannig að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sem eru að reka kerfið taki ákvörðun um umfangið og þar með talið þá hallareksturinn og snúi sér svo við og segi: „Ríkið hlýtur að létta þessari byrði af okkur.“
„Þetta er áskorunin í þessu, að það fari saman ábyrgðin á kerfinu og ákvarðanataka um það hvernig kerfið eigi að vera. En höfuðborgarsáttmálinn ber það mjög vel með sér að við viljum nútímavæða samgöngurnar og ég held að við eigum mikið undir því að það takist vel til og það geti aukið mjög lífsgæðin hérna á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Bjarni.