Fjöldi sjálfsvíga jókst ekki í hátekjulöndum á vormánuðum í fyrra, þegar heimskreppa skall á vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og sóttvarnaraðgerða gegn henni. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem birt var nýlega í læknatímaritinu Lancet Psychiatry.
Rannsóknin fól í sér gerð spálíkans fyrir sjálfsvígstíðni í yfir 20 löndum eða landshlutum í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu frá apríl til júlíloka í fyrra. Niðurstöður líkansins voru svo bornar saman við sjálfsvígstölur á tímabilinu til að sjá hvort faraldurinn og kreppan sem honum fylgdi hafi leitt til fleiri sjálfsvíga.
Samkvæmt rannsókninni mátti ekki greina neina aukningu í fjölda sjálfsvíga í neinum af landssvæðunum sem voru athuguð. Þvert á móti virðist sem sjálfsvígum hafi fækkað í mörgum löndum, til að mynda mátti greina 6 prósenta fækkun í Suður-Kóreu.
Ekki má heldur greina neina aukningu sjálfsvíga hér á landi á sama tímabili, miðað við bráðabirgðartölur Landlæknis, sem gefnar voru út í nóvember í fyrra. Samkvæmt þeim var fjöldi sjálfsvíga á fyrri hluta síðasta árs lítillega undir meðaltali áranna 2015-2019.
Þessi þróun er ólík þeirri sem átti sér stað í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008, en þá fjölgaði sjálfsvígum töluvert í Evrópu og Bandaríkjunum. Aukningin virtist vera meiri í þeim löndum þar sem atvinnuleysi jókst hvað mest.
Keith Hawton, einn meðhöfunda rannsóknarinnar og formaður stofnunar um sjálfsvígsrannsóknir hjá Oxford-háskóla, nefnir nokkrar mögulegar ástæður fyrir því að sjálfsvígum hafi ekki fjölgað í byrjun þessarar kreppu í viðtali við The Guardian.
Að mati hans gæti verið að viðamikil efnahagsviðbrögð stjórnvalda í fyrra, sem og aukinn stuðningur við geðheilbrigðiskerfið gæti hafa komið í veg fyrir viðlíka aukningu í sjálfsvígum og þeim sem gerast oft á tímum efnahagsáfalls. Þó bætir hann við að langtímaafleiðingar efnahagsáfallsins séu ekki enn ljósar, mögulegt sé að sjálfsvígum fari að fjölga þegar líða tekur á kreppuna.