Engin formleg gögn eru til í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um samskipti starfsmanna ráðuneytisins við Morgunblaðið og Fréttablaðið vegna skýrslu sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti fyrr í mánuðinum. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans, sem lögð var fram í ljósi þess að blaðamaður Kjarnans fékk skýrsluna ekki afhenta þrátt fyrir að hafa óskað sérstaklega eftir henni.
Beiðni Kjarnans afhendingu skýrslunnar barst til ráðuneytisins degi fyrir kynningu efnis hennar og var hafnað, en umfjallanir voru þó um efni skýrslunnar bæði í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu degi síðar, sama dag og hún var tekin til kynningar.
Skýrslan fjallar um stöðu og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi og var hennar getið í dagskrá ríkisstjórnarfundar þriðjudaginn 11. maí. Kjarninn falaðist í kjölfarið eftir því að fá skýrsluna afhenta, en fékk neitun, sem áður segir.
Misskilningur og mistök
„Misskilningur olli því að Kjarninn fékk skýrsluna afhenta sólarhring seinna en aðrir miðlar. Þegar ljóst var að mistök höfðu verið gerð var ákveðið að senda skýrsluna út fyrir fundinn og [gera] aðgengilega á vef ráðuneytisins,“ segir í svari ráðuneytisins til Kjarnans, en þar er einnig rifjað upp að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra baðst afsökunar á því hvernig skýrslan fór í dreifingu, á blaðamannafundi sem hann hélt um efni hennar 12. maí.
„Áður en við byrjum fundinn þá vil ég geta þess hér að það voru mistök gerð við birtingu skýrslunnar sem mér þykir afskaplega leitt því að innihald og efnistök skýrslunnar eru með þeim hætti að hún á erindi við alla og því betur sem að hún er kynnt þeim mun betra fyrir allt og alla. Mér er hvoru tveggja ljúft og skylt að biðjast afsökunar á þessum leiðu mistökum og vona að við drögum lærdóm af þeim,“ sagði Kristján Þór.
Kjarninn óskaði eftir því að fá afhent öll samskipti starfsmanna ráðuneytisins við blaðamenn Morgunblaðsins og Fréttablaðsins frá ríkisstjórnarfundi á þriðjudagsmorgni fram til miðnættis þann sama dag. Þarna var átt við símtöl, tölvupóstsamskipti og eftir atvikum samskipti á öðrum mögulegum miðlum, eins og samskiptarásum samfélagsmiðla.
Svar ráðuneytisins er sem áður segir, að engin formleg gögn séu til í ráðuneytinu um samskipti við blaðamenn þessara miðla önnur en boð á blaðamannafund, sem sent var á flesta fjölmiðla. Það liggur því ekki ljóst fyrir í hverju þau „mistök“ sem ráðuneytið játar að hafi verið gerð við birtingu skýrslunnar felast nákvæmlega.