Spá því að útflutningsverðmæti sjávarútvegs og fiskeldis nánast tvöfaldist til 2030

Árið 2019 var útflutningsverðmæti sjávarútvegs, fiskeldis og öðrum tengdum greinum 332 milljarðar króna. Virði þessara greina gæti aukist í 615 milljarða króna innan áratugar, eða um 85 prósent.

Sveinn Agnarsson, ritstjóri skýrslunnar, og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við kynningu á henni í dag.
Sveinn Agnarsson, ritstjóri skýrslunnar, og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við kynningu á henni í dag.
Auglýsing

Virði framleiðslu sjávarútvegs, fiskeldis og tengdra greina gæti aukist um 85 prósent frá því sem hún var árið 2019 og fram til ársins 2030, ef ýmsar forsendur ganga eftir. 

Útflutningsverðmæti greinanna var 332 milljarðar króna í byrjun þessa tímabils sem spáð er að það gæti orðið 440 milljarðar króna árið 2025 og 615 milljarðar króna árið 2030. 

Þetta kemur fram í ítarlegri skýrslu sem unnin var að beiðni Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og birt var opinberlega fyrr í dag .

Ritstjóri hennar var Sveinn Agnarsson, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Í skýrslunni er að finna ítarlega umfjöllun um núverandi stöðu sjávarútvegs og fiskeldis og áskoranir og tækifæri til framtíð.

Spáin um aukin útflutningsverðmæti byggir meðal annars á því að verðmæti hráefnis aukist um 24 prósent á tíu ára tímabili, en gerir ekki ráð fyrir miklum breytingum í aflasamsetningu eða aukningu í afla. Þessi aukning myndi skila því að verðmæti hráefnis í sjávarútvegi færi úr 145 milljörðum króna í 180 milljarða króna á ellefu ára tímabili. 

Þá gerir spáin ráð fyrir að verðmæti vinnslu geti aukist um 48 prósent og fari í 170 milljarða króna næsta tæpa áratuginn. Það myndi þýða að verðmæti vinnslu myndi aukast um 55 milljarða króna á tímabilinu sem spáin nær yfir.  

Auglýsing
Mesta aukningin í útflutningsverðmætum á hins vegar að verða í fiskeldi. Útflutningsverðmæti þeirrar greinar hefur aukist mikið á síðustu árum samhliða því að framleiðsla hennar áttfaldaðist á áratug. Árið 2019 var verðmæti fiskeldisafurða 25 milljarðar króna en í spá skýrsluhöfunda er gert ráð fyrir að það aukist um 100 milljarða króna á næsta tæpa áratug, og verði 125 milljarðar króna. Gangi sú spá eftir mun umfang fiskeldis mælt í útflutningsverðmætum fimmfaldast á áratug.

Þá er búist við að líftækni, betri búnaður og þekking, nýting hliðarafurða og vöxtur í tekjum af þörungum og örþörungum fari úr því að vera metið á 47 milljarða króna árið 2019 í að vera metið á 140 milljarða króna árið 2030.

Segja auðlindagjaldið til marks um styrk greinarinnar

Skýrslan er umfangsmikil, alls 270 blaðsíður, og í henni er rakin jafnt, saga, umfang og möguleikar sjávarútvegs, fiskeldis og tengdra greina. 

Þar er íslenskur sjávarútvegur meðal annars borin saman við ýmis lönd OECD og á það bent að á meðal samanburðarland sé Ísland það eina þar sem ekki sé hreinn stuðningur við sjávarútveg. Þess í stað greiði atvinnuvegurinn veiðigjald fyrir aðgengi að auðlindinni. 

Í skýrslunni er sagt að veiðigjald veiki samkeppnisstöðu íslensku sjávarútvegsfyrirtækjanna en að það endurspegli jafnframt styrk greinarinnar, sem byggi meðal annars á því fiskveiðistjórnunarkerfi sem Ísland styðst við. Munurinn á arðgreiðslum sem hlutfall af hagnaði var þó mjög lítill hjá sjávarútvegsfyrirtækjum og öðrum fyrirtækjum á árunum 2014-2018. 

Brim er sú útgerð sem heldur beint á mestum afla. Guðmundur Kristjánsson er forstjóri og helsti eigandi Brims. Mynd: Skjáskot/RÚVs

Vert er að taka fram að mörg stór sjávarútvegsfyrirtæki eru fjölskyldufyrirtæki eða í eigu fámennra hópa einstaklinga. Þessi fyrirtæki hafa mörg hver fjárfest í öðrum geirum án þess að hagnaður af nýtingu fiskveiðiauðlindar sé greiddur út sem arður fyrst. Þau hafa auk þess fjárfest í nýjum eignum, eins og endurnýjun á fiskveiðiflotanum, og greitt niður skuldir á síðastliðnum árum.

Fjárfesting í skipum og bátum hjá íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum nam til dæmis 108 milljörðum króna á árunum 2008-2019 og fjárfestingar þeirra í fiskvinnslu um 95 milljörðum króna. Til samanburðar nam heildarfjárfesting í fiskeldi, sem er að hluta úr ranni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, 25 milljörðum króna á tímabilinu. 

Afkoman batni ekki nema að frekari samþjöppun sé leyfð

Í skýrslunni er vitnað  í aðra úttekt þar sem bent er á að ekki megi gera ráð fyri að afkoma í sjávarútvegi batni nema að frekari samþjöppun sé leyfð og að hlutfall af kvóta sem hver og einn megi halda á verði leyft að verða meira en 12 prósent. „Þessar breytingar gætu aukið hagnað í sjávarútvegi um 9 prósent og aukið ábata samfélagsins um 4-7 prósent, auk þess sem losna myndi um fjármagn sem er bundið í atvinnugreininni sem gæti nýst annars staðar í hagkerfinu með arðbærari hætti. Hins vegar gætu breytingarnar jafnframt leitt til mun meiri samþjöppunar í íslenskum sjávarútvegi og jafnvel til þess að tiltölulega fá fyrirtæki yrðu allsráðandi í greininni og gengið þvert gegn byggðarmarkmiðum stjórnar fiskveiða. Óvíst sé því að pólitískur vilji væri til að ráðast í slíkar breytingar.“

Kjarninn greindi nýverið frá því í fréttaskýringu að þrjár blokkir innan íslensks sjávarútvegs: sú sem hverfist í kringum Samherja, sú sem hverfist í kringum Brim og sú sem hverfist í kringum útgerð Kaupfélags Skagfirðinga, haldi samtals á 45,6 prósent af öllum úthlutuðum kvóta. Samanlagt markaðsvirði hans er um 544,8 milljarðar króna miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflahlutdeildir hérlendis. 

Duldar og vanmetnar eignir

Skýrsluhöfundar greina frá því að eiginfjárhlutfall sjávarútvegsfyrirtækja hafi verið 43,2 prósent árið 2018, en til samanburðar hafi það verið 43,2 prósent hjá öðrum fyrirtækjum i viðskiptahagkerfinu. 

Þar er þó ekki tekið tillit til þess að bókfært eigið fé getur oft á tíðum verið verulega vanmetið þar sem duldar eignir geta verið til staðar. Það á við í sjávarútvegi umfram aðrar atvinnugreinar þar sem aflaheimildir eru færðar á mun lægra virði en markaðsvirði þeirra segir til um. 

Auglýsing
Dæmi um þetta má finna í bókhaldi Síldarvinnslunnar, sem nú er á leið á markað. Miðað við síðasta birta lista Fiskistofu um þær aflaheimildir sem hvert fyrirtæki heldur á þá er Síldarvinnslan, ásamt dótturfélögum, í þriðja sæti yfir þær útgerðir sem ráða yfir mestum kvóta með 7,7 prósent hans. 

Í október 2020 var greint frá því að útgerðarfélagið Bergur-Huginn, að öllu leyti í eigu Síldarvinnslunnar, hefði keypt útgerðarfélagið Berg ehf. í Vestmannaeyjum. Þegar kaupin voru opinberuð var ekki sagt frá því hvert kaupverðið var. Í ársreikningi Síldarvinnslunnar fyrir síðasta ár er kaupverðið hins vegar tilgreint. Það var tæpir 4,9 milljarðar króna.

Miðað við það sem var greitt fyrir aflaheimildir Bergs ætti virði þess kvóta sem Síldarvinnslan heldur á að vera um 92 milljarðar króna. Aflaheimildir Síldarvinnslunnar eru hins vegar bókfærðar á um 30 milljarða króna. 

Heildarvirði aflaheimilda er 1.195 milljarðar króna miðað við það sem Bergur-Huginn greiddi fyrir útgerðarfélagið Berg í fyrra.

Ráðherra baðst afsökunar

Skýrslan var kynnt og birt klukkan 14 í dag. Kjarninn sendi upplýsingafulltrúa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins fyrirspurn í gær þar sem blaðamaður óskaði eftir því að fá skýrsluna afhenda fyrir fundinn.

Í svari ráðuneytisins kom fram að skýrslan lægi ekki fyrir á þeim tímapunkti en yrði aðgengileg eftir kynningarfundinn. Óskaði blaðamaður eftir því í framhaldinu að fá skýrsluna gegn loforði um að segja ekkert frá henni fyrr en að fundi loknum. „Mér heyrist ekki því miður,“ var svarið frá ráðuneytinu.

Umfjöllun um skýrsluna birtist aftur á móti í morgun á forsíðu Morgunblaðsins og í viðskiptakálfi Fréttablaðsins. Kristján Þór baðst afsökunar á því að hún hefði lekið út með þeim hætti í upphafi kynningarfundarins í dag.

Ritstjóri skýrslunnar, Sveinn Agnarsson, hélt erindi á opn­um fundi Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi í Sjó­minja­safn­inu í morg­un. Þar sagði hann, samkvæmt endursögn mbl.is, að umræða um að gera um­fangs­mikl­ar breyt­ing­ar á fisk­veiðistjórn­un­ar­kerf­inu sem byggi al­farið á af­komu sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja get­i bein­lín­is verið hættu­leg fyr­ir grein­ina. Hann sagði enn fremur það vera á ábyrgð fyr­ir­tækja í grein­inni að koma fram með þeim hætti að fyrr­nefnd umræða skap­ist ekki.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þórður Snær Júlíusson
Áframhaldandi tilfærsla á peningum úr ríkissjóði til þeirra sem hafa það best
Kjarninn 25. júní 2021
Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Viðbrögð borgaryfirvalda voru til skoðunar hjá ráðuneytinu
Mennta- og menningarmálaráðuneytið var með viðbrögð borgaryfirvalda varðandi plássleysi í sérdeildum grunnskóla borgarinnar til skoðunar. Reykjavíkurborg hefur nú mál einhverfra nemenda til úrlausnar og hefur þegar leyst mörg þeirra, samkvæmt ráðuneytinu.
Kjarninn 25. júní 2021
Mesta aukning atvinnuleysis á Norðurlöndunum
Atvinnuleysi hefur aukist um þrefalt meira hér á landi en á hinum Norðurlöndunum á síðustu tveimur ársfjórðungum, miðað við sama tímabil árið á undan, samkvæmt tölum úr vinnumarkaðskönnun landanna.
Kjarninn 24. júní 2021
Sektað vegna grímuskyldu í Ásmundarsal
Eigendur Ásmundarsalar hafa sent frá sér tilkynningu vegna máls sem kom upp á Þorláksmessu í fyrra er varðar brot á grímuskyldu. Lögreglan neitaði að greina frá niðurstöðunni fyrr í dag.
Kjarninn 24. júní 2021
Eva Dögg Davíðsdóttir
Hringrásarhagkerfið – hvar stöndum við?
Kjarninn 24. júní 2021
Saga Japans
Saga Japans
Saga Japans – 39. þáttur: Veiðiferð sjógunsins I
Kjarninn 24. júní 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var á meðal gesta í samkvæminu í Ásmundarsal.
Lögreglan neitar að upplýsa um niðurstöðuna í Ásmundarsalar-málinu
Lögreglan hóf sjálf hið svokallaða Ásmundarsalar-mál með því að greina frá því að ráðherra, sem síðar var opinberað að væri Bjarni Benediktsson, hefði verið í ólögmætu samkvæmi á Þorláksmessu. Nú neitar lögreglan að upplýsa um niðurstöðuna í málinu.
Kjarninn 24. júní 2021
Drangaskörð eru stórkostleg náttúrusmíð.
Skipuleggja frístundabyggð við ysta haf
Kríuvarp, sóleyjar og jökull. Eitt sérstæðasta náttúrufyrirbrigði Vestfjarða og þótt víðar væri leitað. Þúsund ára menningarsaga. Á landnámsjörðinni Dröngum er fyrirhugað að reisa frístundabyggð. Drangar eru sömuleiðis í friðlýsingarferli að ósk eigenda.
Kjarninn 24. júní 2021
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar