Hanna Katrín Friðriksson þingmaður Viðreisnar furðaði sig á viðbrögðum íslenskra stjórnvalda við fréttum af nýrri reglugerð Evrópusambandsins um mögulegar útflutningshömlur á bóluefnum á þingi í morgun.
Hún kallaði málið storm í vatnsglasi sem „íslensk stjórnvöld mönuðu upp vegna heimatilbúins misskilnings um að Evrópusambandið ætlaði að skilja okkur eftir.“
„Fréttir um að Evrópusambandið myndi ekki flytja bóluefni til Íslands – „fréttir“ í gæsalöppum – voru strax bornar til baka og engin hætta á ferðum. En eftir að misskilningurinn var leiðréttur komu íslensk stjórnvöld fram, grjóthörð, og töluðu um að það skyldi nú enginn svína á okkur, allra síst ljóta Evrópusambandið. Það broslega er kannski að þessi viðbrögð kom fram eftir staðfestingu frá forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandins – það stóð aldrei til að hindra bóluefnasendingar til Íslands.“
Hanna Katrín sagði vonandi að þessi nýja reglugerð Evrópusambandsins myndi skila árangri við að auka fjölda bóluefnaskammta sem Evrópusambandið fengi – vegna þess að Ísland myndi njóta góðs af því til jafns við ríki ESB.
Forsætisráðuneytið og utanríkisráðuneytið sendu frá sér tilkynningu á miðvikudagskvöld vegna fréttaflutnings um reglugerðina þar sem allur vafi var tekinn af um að reglugerðin hefði ekki áhrif á flutning bóluefna til Íslands. Þó kom einnig fram að útflutningshömlur af því tagi sem ESB boðaði til Íslands gengju í berhögg við EES-samninginn og þeim skilaboðum hefði verið komið „skýrt á framfæri“ við framkvæmdastjórn ESB.
Hanna Katrín sagði að þessi viðbrögð hefðu verið „svolítið eins og æfð almannavarnaæfing,“ engin hætta hefði verið á ferðum en „stórslys sett á svið“.
„Stjórnvöld flytja svo æfða ræðu um hættu sem aldrei var til staðar. Einhvernveginn læðist að manni, áhorfandanum, að sú ræða hafi verið ætluð einhverjum aftursætisbílstjórum sem verið var að vinna gagn frekar en íslenskri þjóð,“ sagði Hanna Katrín.
Umdeild reglugerð
Reglugerðin hefur verið umdeild innan Evrópusambandsins og meðal annars verið gagnrýnd harðlega af Jean-Claude Juncker, fyrrverandi forseta framkvæmdastjórnarinnar, sem hefur sagt þessa tilburði Evrópusambandsins, sem ljóslega beinast fyrst og fremst gegn Bretum, til þess fallna að skaða ímynd þess.
Fréttaskýrendur, til dæmis hjá evrópsku útgáfu Politico, hafa einnig bent á að þrátt fyrir að ESB sé með þessari nýju reglugerð að taka sér vald til þess að hafna útflutningi á bóluefni frá verksmiðjum innan sambandsins til ákveðinna ríkja, sé það ekki sjálfkrafa í neinni stöðu til þess að krefja framleiðendur um að afhenda ríkjum ESB þessi bóluefni.
Þetta játaði varaforseti framkvæmdastjórnarinnar, Valdis Dombrovskis, á blaðamannafundi á miðvikudaginn. „Þetta er útflutningsleyfakerfi, það segir ekki til um hvað fyrirtækin eiga að gera við skammtana sem eru undir,“ var haft eftir Dombrovskis.