Háhælaðir skór hafa verið helsta umræðuefni kvikmyndahátíðarinnar í Cannes í ár, eftir að konu á flatbotna skóm var meinaður aðgangur á frumsýningu. Tískusérfræðingar, feminístar og félagsfræðingar hafa tjáð sig um málið um allan heim. Háhælaðir skór eru greinilega umdeilt fyrirbæri – þeir hafa djúpa, flókna og menningarfræðilega merkingu sem vert er að gefa gaum.
Engar „selfies“
Thierry Fremaux, framkvæmdarstjóri hátíðarinnar í Cannes hefur heldur betur verið á milli tannanna á fólki þessa vikuna. Það má jafnvel segja að hann sé einskonar „stjarna“ hátíðarinnar í ár. Hann hefur dregið til sín kastljósið fyrir furðulegar uppákomur og skoðanir sem þykja í meira lagi bæði úreltar og snobbaðar.
Fyrst voru það sjálfsmyndir á rauða dreglinum. Fremaux beindi þeim tilmælum til leikara fyrir hátíðina að „selfie-myndatökur“ væru bannaðar vegna þess að þær drægu niður virðingu hátíðarinnar. Auk þess væru þær, eins hann orðaði sjálfur: „Smekklausar, hallærislegar og viðurstyggilegar ljósmyndir.“
Mörgum fannst þetta furðulegt útspil og tjáðu sig um það og tístuðu á Twitter og öðrum samfélagsmiðlum. Fáir hafa svo í raun virt þessa reglu framkvæmdarstjórans en þetta var þó aðeins byrjunin á umdeildri reglugerðarsmíði hans - hvað varðar rauða dregilinn.
Thierry Fremaux, hinn umdeildi framkvæmdastjóri kvikmyndahátíðarinnar í Cannes. Mynd: EPA
Skóhneysklið í Cannes
Næst voru það flatbotna skór. Síðustu helgi var danski kvikmyndaframleiðandinn, Valeria Richter, á leið á frumsýningu kvikmyndarinnar Carol, en var meinaður aðgangur á þeim forsendum að hún væri á flatbotna skóm sem þætti alls ekki viðeigandi. Ekki aðeins einu sinni var hún rekin burt – heldur alls fjórum sinnum! Hún gaf þær skýringar að hún gæti einfaldlega ekki gengið í háhæluðum skóm vegna þess að hún hefði misst hluta af öðrum fæti sínum. Öryggisverðir gáfu þó lítið fyrir það – hér gengi engin kona inn á rauða dregilinn - nema þá á háhæluðum skóm.
Allt varð bókstaflega vitlaust út af þessu atviki. Margir tjáðu sig um málið og tóku upp skóinn fyrir þessa ólánsömu konu, meðal annars breska leikkonan Emily Blunt, sem sagði að þetta væri dæmigert mál fyrir misréttindi gagnvart konum. Hún hvatti í kjölfarið allar kynsystur sínar til þess að henda háhæluðu skónum sínum og mæta hér eftir á strigaskóm á frumsýningar í Cannes.
Breska leikkonan Emily Blunt á blaðamannafundi á Cannes. Mynd: EPA
Framkvæmdarstjórinn brást við þessu öllu saman, baðst afsökunar og sagði að þetta væri nú allt saman einn misskilningur: „Jú, öryggisverðirnir gengu nú kannski full langt – en auðvitað mega allir vera í þeim skóm sem þeir vilja.“
En eftir höfðinu dansa limirnir og rannsókn málsins hefur leitt í ljós að þessar tilskipanir komu auðvitað beint frá framkvæmdarstjóranum sjálfum. Fleiri konum hefur sömuleiðis verið vísað frá fyrir að vera í flatbotna skóm og þeim tjáð að þetta sé virt kvikmyndahátíð, en ekki eitthvað lélegt strandarpartý.
Háhælaðir skór; Lyfta þeir konum upp eða draga þær niður?
Háhælaðir skór eru merkilegt fyrirbæri. Frábær hönnun sem er hlaðin þversagnakenndri og margslunginni merkingu. Það er fátt sem þykir kvenlegra en einmitt háhælaðir skór; formið og útlitið þykir kynferðislegt og sterkt. Þeir þykja stækka konur, gera þær valdsmannlegri og meiri. Á sama tíma þykja pinnaskórnir binda þær í báða skó niður og hefta. Þeir þykja gjarnan óþægilegir og draga konur í þjáningarfulla þrautargöngu. Tákn um kúgun og undirgefni. Enda voru háhælaðir skór eitur í beinum feminista á sjötta og sjöunda áratugnum. Konur þyrftu að pína sig í þessa óþægilegu skó til þess að standa jafnfætis köllum.
Í kjölfar umræðunnar í sambandi við „skóhneysklið“ í Cannes, hafa margar konur tjáð sig um háhælaða skó. Margar konur hafa komið þeim til varnar og talað um tign og glæsileika þeirra og að þær séu síst af öllu neyddar til þess að klæðast þeim. Á meðan aðrar konur segja skóna vera skýra og óréttláta samfélagslega kröfu um kvenlegt útlit; það sé ekki hægt að fara í atvinnuviðtal eða á opinbera viðburði án þess að klæðast háhæluðum skóm.
„Ég eyðilagði fætunar á mér út af háhæluðum skóm,“ segir leikkonan Sarah Jessica Parker sem þurfti að ganga í þeim 18 tíma á dag í nokkur ár þegar upptökur á Sex and the City sjónvarpsþáttunum stóðu yfir. Hún ásamt stöllum sínum í þáttunum segjast sjá eftir því að hafa stöðugt verið að dásama þessa djöfulsins skó.
Leikkonan Sarah Jessica Parker ber háhæluðum skóm ekki fagra söguna. Mynd: EPA
Í glamúrheimi kvikmyndann er enn verið að tala um það þegar leikkonan Emma Thomson kom stormandi inn á síðustu Golden Globe hátíð, berfætt og sötrandi á Martini-kokteil. Má svona? – spurði fólk. Þetta þótti byltingarkennt athæfi sem vakti marga til umhugsunar um skófatnað kvenna. Uppákoman í Cannes hefur leitt til þess að margar konur hafa nú hvatt frægar leikkonur, eins og Cate Blanchett og Julian Moore, til þess að sniðganga nú háhælaða skó.
Byltingin sé hafin!