Fjölmiðlafyrirtækið 365 miðlar ehf. hefur ekki skilað Jafnréttisstofu jafnréttisáætlun, eins og lög kveða á um. Óbirt jafnlaunaúttekt sem PwC gerði fyrir fyrirtækið uppúr áramótum 2014 sýndi 4,9 prósent mun á grunnlaunum karla og kvenna.
Jafnlaunaúttekt sem gerð var fyrir RÚV árið 2012, á grundvelli jafnréttisáætlunar ríkisfjölmiðilsins, hefur heldur ekki verið birt sem skapað hefur óánægju meðal kvenkyns starfsmanna RÚV. Kjarninn fjallaði um málið á dögunum.
Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (nr. 10/2008) er kveðið um að öllum stofnunum og fyrirtækjum sé skylt að setja sér einhverskonar jafnréttisáætlun, starfi þar fleiri en 25 starfsmenn. Markmið þessara laga er „að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins“. Jafnréttisstofa heldur utan um þessar áætlanir og hefur eftirlit með því að samþykktum áætlunum sé fylgt. Þar er Kristín Ástgeirsdóttir í framkvæmdastýra.
„Við höfum verið að gera rosalegt átak undanfarin tvö til þrjú ár í að kalla inn áætlanir en höfum einfaldlega of litlar heimildir til að fylgja þessu [lögunum] eftir,“ segir Kristín í samtali við Kjarnann. Síðast var kallað eftir jafnréttisáætlun frá 365 árið 2010 og þá hófst vinna við gerð áætlunar, sem síðan lauk aldrei. Síðan hafa orðið mannabreytingar innan 365. Svanur Valgeirsson, sem starfað hefur sem mannauðsstjóri hjá 365 síðan síðla árs 2013, kannaðist ekki við að skila þyrfti jafnréttisáætlun þegar hann var inntur eftir svörum.
Kristín segir Jafnréttisstofu reyna að fylgjast með því hvernig gangi að útbúa þessar áætlanir. „Við höfum gert þetta í slumpum, tekið fyrir einstaka geira og nú er að koma að fjölmiðlunum.“
Árvakur hf., útgáfufélag Morgunblaðsins, skilaði jafnréttisáætlun árið 2011 en RÚV samþykkti jafnréttisáætlun sína í desember 2003, byggða á þágildandi jafnréttislögum frá árinu 2000.
Hlutfall kvenna áhyggjuefni
Í umsögn rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum (RIKK) við Háskóla Íslands um frumvarp til laga um fjölmiðla, sem urðu svo að fjölmiðlalögum 2011 segir meðal annars að niðurstöður rannsókna á stöðu kvenna og karla í fjölmiðlum hafi sýnt að verulega hallar á hlut kvenna, hvort sem um er að ræða konur sem starfsmenn á fjölmiðlum eða konur sem viðmælendur eða umfjöllunarefni.
Kristín hefur sérstakar áhyggjur af því að mikið virðist vanta við hlutfall kvenkyns viðmælenda hjá íslenskum fjölmiðlum. Þar virðist hlutfallið vera fast í 30 og 70 prósent, samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið.
„Það má segja að fjölmiðlar gegni mjög veigamiklu lýðræðishlutverki og eiga auðvitað að vera til fyrirmyndar,“ segir Kristín. „Það er náttúrlega líklegt að jafnari skipting kynjanna meðal blaðamanna og fréttamanna hafi áhrif á fréttirnar.
Verulega hallar á hlut kvenna í fjölmiðlum, hvort sem litið er á fjölda starfsmanna eða viðmælenda í fjölmiðlum.
Úttektin gölluð og ókláruð
Svanur Valgeirsson, mannauðsstjóri hjá 365, staðfesti í samtali við Kjarnann að í upphafi árs í fyrra hafi jafnlaunaúttekt verið gerð innan fyrirtækisins og að í þeirri úttekt hafi kynbundinn munur á grunnlaunum starfsmanna fyrirtækisins verið 4,9 prósent.
Vegna innbyggðra galla í könnuninni hafi niðurstöðurnar ekki verið birtar. „Við gerðum þetta ekki nógu vel,“ segir Svanur. „Ég vildi helst ekki birta eitthvað sem ég hefði þurft að eyða meiri tíma í að útskýra heldur en að gera þetta upp á nýtt.“
Gallarnir sem voru á úttektinni voru þeir að innan fyrirtækisins hafi margir sömu starfsheiti og að í þeim forsendum sem settar voru vantaði menntun sem breytu. Þess vegna hafi könnunin verið gölluð. Einnig hafi verið gerðar miklar á breytingar innan fyrirtækisins eftir að úttektin var gerð og áður en niðurstöðurnar voru birtar. Þar ber samruni Tals við 365 hæst, svo að mati Svans var úttektinni ekki lokið.
„Þegar þetta kemur í ljós þá var forstjórinn hættur, framkvæmdastjórar hættir og það voru gerðar breytingar á ritstjórn þegar Mikael [Torfason] aðalritstjóri fór og Kristín [Þorsteinsdóttir] kom í staðinn,“ útskýrir Svanur. „Svo þetta [4,9 prósent launamunur] er alls ekki slæm niðurstaða, miðað við fyrirtæki almennt.“
Óleiðréttur launamunur á almennum vinnumarkaði var 19,9 prósent árið 2013, en með óleiðréttum launamun er átt við þann mun á launum karla og kvenna sem ekki er hægt að skýra með þeim breytum sem almennt eru tal breytum eins og menntun, starfshlutfall, yfirvinnu og starfsreynslu.
Þá voru 75 prósent kvenna með heildarlaun undir meðaltali árið 2014, en aðeins helmingur karla. Heilt yfir var meðaltal heildarlauna var 555 þúsund krónur á mánuði. Meðallaun kvenna voru 486 þúsund en karlar höfðu 619 þúsund krónur að meðaltali í heildarlaun.