Skráðum meðlimum í trú- og lífsskoðunarfélaginu Zúism hefur fækkað um 62 frá því í byrjun desember síðastliðins. Þeir eru samt sem áður enn 579 talsins. Félagið er í ellefta sæti yfir fjöld meðlima í slíkum félögum hérlendis.
Trú- og lífsskoðunarfélög hér á landi fá sóknargjöld greidd fyrir hvern skráðan einstakling, 16 ára og eldri. Á árinu 2022 greiðir ríkissjóður 1.107 krónur á mánuði á hvern einstakling í hverju félagi fyrir sig. Miðað við þá tölu má ætla að Zúism á Íslandi fá um 641 þúsund krónur greiddar í hverjum mánuði.
Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra, sem hefur eftirlit með starfsemi trú- og lífsskoðunarfélaga, hefur reyndar haldið eftir sóknargjöldum Zuism frá því í byrjun árs 2019. Það rökstyður embættið með því að verulegur vafi ríki um hvort raunveruleg starfsemi fari fram á vegum Zusim og hvort félagið uppfylli skilyrði laga.
Þessi staða er merkileg í ljósi þess að yfirvöld telja trúfélagið Zuism vera svikamyllu.
Borgaraleg óhlýðni breyttist í stjórnsýslumartröð
Saga Zuism á Íslandi er stórmerkileg, þótt hún eigi lítið sem ekkert skylt við trú. Vorið 2015 voru skráðir meðlimir í félaginu fjórir og sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra birti auglýsingu þar sem hann skoraði á þá að gefa sig fram. Ef enginn myndi gera það yrði félagið lagt niður.
enda fjöldi meðlima var langt frá því að uppfylla viðmið í reglugerð dómsmálaráðuneytisins um skráningu opinberra trú- og lífsskoðunarfélaga.
Hugmyndin sem hópurinn gekk með í maganum var að hvetja fólk til að skrá sig sem Zúista gegn vilyrði fyrir því að fá sóknargjöld sín, þá 10.800 krónur á mann á ári, endurgreidd. Um borgaralega óhlýðni var að ræða, þar sem sniðugur hópur ætlaði að spila á kerfið til að sýna fáránleika þess og sýna í verki hversu mikil tímaskekkja núverandi trúfélagskerfi væri. Enginn átti að græða neitt og öllum fjármunum sem myndu koma í kassann yrði skilað til greiðenda, að frádregnum umsýslukostnaði.
Í nóvember þetta sama ár, 2015, hafði hópurinn auglýst fyrirætlanir sínar og á tveimur vikum gengu um þrjú þúsund manns í félagið. Í byrjun desember voru Zúistar orðnir eitt stærsta trúfélag landsins.
Gjörningurinn virtist hafa gengið upp. Hann vakti raunar heimsathygli og fjallað var um hann í tugum fjölmiðla víða um heim.
En hann vakti athygli fleiri. Á meðal þeirra voru upphaflegu stofnendur trúfélagsins Zuism.
Kickstarter-bræður taka yfir trúfélag
Um var að ræða tvo bræður, þá Einar og Ágúst Arnar Ágústssyni. Þeir höfðu vakið athygli fyrir að safna háum fjárhæðum á hópfjármögnunarsíðunni Kickstarter á árinu 2015. Það gerðu þeir meðal annars til að koma framleiðslu á svokallaðri TOB-snúru á koppinn, til að framleiða sérstaka sólarrafhlöðu sem fest var á ólar á bakpoka og síðar til að fjármagna framleiðslu á ferðavindtúrbínum, einhverskonar vindmyllum til einkanota. Kastljós greindi frá því í október 2015 að bræðurnir væru til rannsóknar vegna meintra fjársvika vegna þeirrar safnana.
Einar var síðar, nánar tiltekið á árinu 2017, dæmdur til þungrar fangelsisvistar, alls þriggja ára og níu mánaða, fyrir fjársvik vegna annars máls. Kjarninn greindi ítarlega frá því máli í fréttaskýringu í mars 2017. Sá dómur var staðfestur í Landsrétti síðla árs 2018.
Eftir hina miklu athygli sem gjörningur öldungaráðs Zúista vakti, og þegar fyrir lá að tugir milljóna króna myndu streyma árlega inn í trúfélagið vegna þess hversu margir skráðu sig í það, gerðu bræðurnir kröfu um yfirráð yfir félaginu. Það gerðu þeir í krafti þess að þeir voru enn í forsvari rekstrarfélags á bak við það en Ágúst Arnar hafði verið einn af stofnendum þess árið 2013.
Í stuttu máli þá tókst þessi yfirtaka. Og öldungaráðið sendi frá sér tilkynningu í kjölfarið þar sem það hvatti fólk til að segja sig úr Zuism.
85 milljónir á tveimur árum
Árið 2020 voru bræðurnir ákærðir af héraðssaksóknara fyrir fjársvik og peningaþvætti. Embættið taldi að brotin hefðu staðið yfir frá árinu 2015, en þó „einkum frá október 2017, og fram á fyrri hluta árs 2019“. Á því tímabili hafi þeir „styrkt og hagnýtt sér þá röngu hugmynd starfsmanna íslenskra stjórnvalda að trúfélagið Zuism uppfyllti skilyrði fyrir skráningu trúfélags[...]og þar með rétt til fjárframlaga úr ríkissjóði.“
Bræðurnir eru sagðir hafa notað peninga sem greiddir voru sem sóknargjöld til félagsins í eigin persónulega neyslu, meðal annars í ferðalög, áfengiskaup og hlutabréfaviðskipti.
Frá október 2017 og fram til janúar 2019 greiddi ríkissjóður alls 36 sinnum inn á bankareikning félagsins í Arion banka vegna sóknargjalda áranna 2016 til 2018. Alls var um að ræða 84,7 milljónir króna. Í ákæru segir að með athæfi sínu hafi bræðurnir ollið „íslenska ríkinu verulegri fjártjónshættu og fjártjóni í reynd.“
Í stuttu máli þá telur héraðssaksóknari að bræðurnir hafi blekkt ríkið til að fá ofangreinda fjármuni, með því að þykjast reka trúarlega starfsemi, þegar engin eiginleg trúariðkun fór fram í félaginu.
Peningunum var því ekki ráðstafað til rekstur trúfélagsins, eða til endurgreiðslu á sóknargjöldum, heldur meðan annars ráðstafað til bræðranna.
Í maí síðastliðnum voru bræðurnir sýknaði í héraðsdómi Reykjavíkur. Þeirri niðurstöðu áfrýjaði ríkissaksóknari til Landsréttar.