Það verður enn einhver bið á því að fólk og önnur dýr á meginlandi Evrópu geti varpað öndinni léttar eftir sögulegar hitabylgjur sumarsins. Þrátt fyrir að rúmlega vika sé liðin af ágúst er áfram spáð miklum hita í norðan- og vestanverðri álfunni þessa vikuna. Spáð er 38 stigum í hluta Frakklands og á Spáni frá miðvikudegi til laugardags.
Bretar sleppa ekki heldur undan hitabylgjunni. Þar er spáð allt að 35 stigum þegar líður á vikuna og jafnvel talið að nokkuð langdregið heitt og þurrt tímabil sé framundan. Hitamet var slegið í Bretlandi í síðasta mánuði en þá fór hitinn upp í 40,3 gráður. Hann verður lægri í þeirri bylgju sem nú ríður yfir en hún mun standa lengur yfir ef veðurspár verða að veruleika.
Þurrkarnir á Bretlandseyjum hafa verið það miklir nú þegar að farið er að skammta vatn og á sumum svæðum bannað að nota garðslöngur. Þá er fólk hvatt til að kveikja ekki á grillum því hætta á gróðureldum er mikil. „Það er útlit fyrir langdregin þurrkatíma framundan og augljóslega eru það slæmar fréttir fyrir suðurhluta Englands þar sem rigning hefði verið kærkomin,“ hefur Sky fréttastofan eftir veðurfræðingi. Sá segir að sem betur fer ætli hitinn í vikunni ekki að verða jafn yfirþyrmandi og í júlí en engu að síður mun fólk finna fyrir hitabylgjunni, hita yfir 30 stigum í fleiri daga samfellt.
Ekkert vatn í pípunum
Bretland er langt í frá eina landið þar sem langvinnir þurrkar hafa geisað. Í Frakklandi hafa stjórnvöld skipað sérstakt neyðarteymi til að bregðast við skorti á drykkjarvatni í yfir 100 sveitarfélögum í landinu. Tankbílar flytja nú vatn til þeirra svæða sem verst hafa orðið úti, „því það er ekki dropi eftir í vatnslögnunum,“ segir Christophe Béchu, ráðherra umhverfismála. „Þetta er fordæmalaust ástand og vondu fréttirnar eru þær að við sjáum ekkert sem bendir til þess að því sé að ljúka.“
Franski forsætisráðherrann Elisabeth Borne hefur varað landa sína við því að við blasi mestu þurrkar frá upphafi mælinga.
Hitabylgja hefur hangið yfir Frakklandi síðan í júní. Tré og runnar hafa fellt lauf þar sem þau fá ekki nægan vökva til að þrífast. Allt að því haustlegt er því víða um að litast.
Í nokkra daga blés kaldara lofti yfir sum svæði en nú er enn og aftur að hitna í veðri.
Ekkert lát eru heldur á hitunum á Ítalíu og þar hefur sextán borgum verið skipað á „rauðan lista“ þar sem hiti hefur farið og mun fara yfir 40 gráður.
Sumarið hefur verið svo þurrt og heitt að óttast er bæði um vínekrur og hrísgrjónaakra í Po-dalnum en grjónin þar eru sérlega hentug til að gera risottó. Óttast er að hrísgrjónauppskeran verði ekki upp á marga fiska í ár og jafnvel næstu ár þar sem jarðvegurinn er orðinn saltur og plöntur hafa drepist. Fleiri landbúnaðarafurðir eru sannarlega í hættu líka og telur landbúnaðarráðherrann að mikill uppskerubrestur kunni að verða enda þurrkarnir þeir verstu í landinu í sjö áratugi.
Hollendingar búa einnig við vatnsskort og hefur innviðaráðherra landsins hvatt fólk til að stytta sturtuferðir sínar og til að bíða með að þvo bíla sína og vökva garða. Engin rigning er í kortunum og því má búast við frekari erfiðleikum við vatnsmiðlun í Hollandi.
Hollendingar eru meðal stærstu útflytjenda landbúnaðarvara í heiminum en nú hefur bændum verið bannað að vökva engjar sínar með yfirborðsvatni. Í forgangi er að afla vatns sem hreinsa má til drykkju.
Vatnsborð Rínarfljóts í Þýskalandi hefur lækkað svo mikið að skip geta ekki lengur siglt fullfermd um það. Þetta hefur leitt til hækkaðs vöruverðs. Skipin geta mörg hver aðeins siglt með um 25 prósent af hefðbundnum farmi.
Vatn í Dóná í Rúmeníu hefur minnkað svo mikið að sandeyjar hafa myndast í farvegi hennar.
Í síðustu viku hvatti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins aðildarríkin til að nýta fráveituvatn í borgum til að vökva akra.