Símon Örn Reynisson blaðamaður á DV hefur sagt upp störfum hjá blaðinu, en hann er sonur Reynis Traustasonar fráfarandi ritstjóra DV. Þá hefur Jón Ingi Stefánsson, hönnunarstjóri DV, sömuleiðis látið af störfum hjá blaðinu, en hann tilkynnti um uppsögn sína um nýliðna helgi. Þá herma heimildir Kjarnans að ónefndur yfirmaður á DV hyggist sömuleiðis segja starfi sínu lausu á næstunni, en sá hefur ráðið sig til starfa hjá samkeppnisaðila á fjölmiðlamarkaði.
Þannig virðist ekkert lát vera á fólksflóttanum frá DV, en frá því að ný stjórn komst til valda hjá blaðinu hafa fimm fastráðnir starfsmenn DV látið af störfum.
Áskrifendum DV fækkar sömuleiðis stöðugt, en frá því að átökin um stjórn blaðsins hófust hafa ríflega átta hundruð manns sagt upp áskrift sinni að blaðinu, samkvæmt heimildum Kjarnans. Miðað við lauslega útreikninga Kjarnans þýðir það um 2,5 milljóna króna tekjutap fyrir DV á mánuði.
Eins og kunnugt er var eitt fyrsta verk nýrrar stjórnar DV að leysa Reyni Traustason undan starfskyldum sínum sem ritstjóri, og ráða dagskrárgerðarmanninn Hallgrím Thorsteinsson í stöðuna.