„Er ekki bara best, er ekki bara heiðarlegast, að hætta þessum fyrirslætti og viðurkenna einfaldlega að þessi ríkisstjórn mun aldrei afglæpavæða neysluskammta?“ spurði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Spurningunni beindi hún að innviðaráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni.
Þórhildur Sunna vísaði í orð ráðherra í viðtali við Vísi um helgina þar sem hann sagði að bent hafi verið á að það þurfi að vera sterkari forvarnir og fleiri úrræði áður en afglæpavæðing neysluskammta verði innleidd.
Þórhildur segir ríkisstjórnina hafa enn eina ferðina „frestað því að afgreiða gríðarlega mikilvægt mannréttindamál, afglæpavæðingu vörslu neysluskammta vímuefna.“
Orð ráðherra komu spánskt fyrir sjónir
Frumvarp heilbrigðisráðherra um aflæpavæðingu neysluskammta var fellt niður af þingmálaskrá yfirstandandi þings í síðustu viku. Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans er ástæðan sögð sú að ráðherra ákvað að vinna að frekari útfærslu á frumvarpinu, meðal annars með skilgreiningu á hugtakinu neysluskammtur. Fram kemur hjá ráðuneytinu að settur hafi verið á fót starfshópur um verkefnið sem ráðherra skipaði þann 22. febrúar síðastliðinn og sé hann tekinn til starfa.
Þórhildur Sunna segir þau orð Sigurðar Inga að engin úrræði væru tilbúin hafa komið henni spánskt fyrir sjónir þar sem heilbrigðisráðherra sagði ástæðu þess að frumvarpið hefði verið tekið af þingmálaskrá allt aðra.
„Núna heyrum við afsakanir í allar áttir um hvers vegna enn og aftur eigi að viðhalda refsistefnu sem allir virðast þó sammála um að sé skaðleg og hafi mistekist. Enn og aftur skal einn viðkvæmasti hópur landsins bíða eftir réttarbót,“ sagði Þórhildur Sunna áður en hún spurði innviðaráðherra hvort væri ekki „bara heiðarlegast að hætta þessum fyrirslætti og viðurkenna einfaldlega að þessi ríkisstjórn mun aldrei afglæpavæða neysluskammta?“
„Nei, það er, held ég, óþarfi að vera með slíkar yfirlýsingar,“ svaraði Sigurður Ingi. Hann benti á að hann væri ekki sérfræðingur á þessu sviði en að hann kvaðst styðja Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hundrað prósent.
„Hvað stendur í vegi fyrir að við hættum að refsa veiku fólki?“
Þórhildur Sunna spurði Sigurð Inga einnig hvar „öll þessi meðferðarúrræði sem hæstvirtur innviðaráðherra talar um“ væru og af hverju væri ekki búið að ganga í það? Hún sagði úrræðin sem nú standa til boða vera að refsa ungu fólki. „Úrræðin sem við höfum núna er að koma þeim á sakaskrá. Úrræðin sem við höfum núna viðurkennir hæstvirtur ráðherra sjálfur að virka ekki, viðurkennir Framsóknarflokkurinn að virka ekki. Hvað stendur í vegi fyrir að við hættum að refsa veiku fólki?“ spurði hún.
Sigurður Ingi sagðist vera sammála því að ekki hafi gengið sérstaklega vel með þá stefnu sem er í þessum málum. Sagði hann Pírata hafa talað um að ekki væri vandað nóg til verla. „Kannski er það það sem við erum að gera núna, að vanda til verka. Ég hef heyrt þingflokk Pírata öll þessi ár kalla hér á vönduð vinnubrögð og að tryggja form og ferla þannig að kannski eigum við bara að gera það.“
Afglæpavæðing neysluskammta var einnig til umræðu undir liðnum fundarstjórn forseta. Þar sagði Þórhildur Sunna það óeðlilegt af Sigurði Inga að saka Pírata um óvönduð vinnubrögð við gerð frumvarps um afglæpavæðingu neysluskammta þar sem mikil umæða og vinna hafi farið í málið frá 2015 þegar það var fyrst sett á dagskrá Alþingis af Pírötum.
„Þau eru ófá málin sem hafa fengið að fara í gegn án þess að vera með nokkrum hætti undirbúin. Við erum upptekin við það í nefndum þingsins, á hverjum degi liggur við, að laga illa búin mál aftur og aftur. En þetta mál er búið að vera til umræðu síðan 2015, það liggja að baki mjög ítarlegar greiningar og vinna og það er ekki sanngjarnt gagnvart þinginu að segja að það hafi ekki undirbúið málið. Þetta er einfaldur fyrirsláttur“ sagði Þórhildur Sunna.