Erindi vegna „ámælisverðrar hegðunar“ Kolbeins Óttarssonar Proppé þingmanns Vinstri grænna barst fagráði gegn kynbundnu ofbeldi og einelti innan hreyfingarinnar í lok marsmánaðar, samkvæmt svörum flokksins við fyrirspurn Kjarnans.
Þetta er fyrsta málið sem kemur inn á borð fagráðsins, sem tók til starfa árið 2019. Áður hafði verið starfrækt trúnaðarráð hjá flokknum og til þess bárust í heildina tvö mál, samkvæmt svörum frá flokknum. Hvorugt þeirra varðaði Kolbein.
„Við meðferð málsins var farið eftir verklagsreglum sem tilgreindar eru í aðgerðaáætlun VG gegn einelti og kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi. Í verklagsreglum er gert ráð fyrir að ef grunur sé um refsivert athæfi sé máli vísað til lögreglu, sem ekki átti við í þessu máli,“ segir í svari flokksins, sem barst frá framkvæmdastjóranum Björgu Evu Erlendsdóttur.
Kolbeinn tilkynnti í gærkvöldi að hann ætlaði að draga framboð sitt í forvali flokksins í Reykjavík til baka vegna málsins, en hann hafði sóst eftir að vera í öðru sæti á lista í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu.
Yfirlýsing Kolbeins um þetta fór inn á Facebook örskömmu áður en fyrsti opni kynningarfundur frambjóðenda í Reykjavík fór fram í gegnum Zoom.
Málið var komið í ferli fyrir forvalið í Suðurkjördæmi
Áður en Kolbeinn boðaði framboð í Reykjavík hafði hann sóst eftir að leiða lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi en náði ekki þeim árangri sem hann sóttist eftir þar, heldur endaði í fjórða sæti í forvalinu á eftir þremur konum.
Það forval fór fram helgina 10.-12. apríl, eða um tveimur vikum eftir að erindi barst til fagráðsins, en ráðið á að kalla saman innan sjö daga frá því að erindi er móttekið og fundar fyrst með þeim sem sendi erindið inn, en síðan flokksfélaganum sjálfum sem erindið til fagráðsins laut að.
Ekki liggur fyrir hvort Kolbeinn var búinn að heyra frá fagráðinu áður en það forval fór fram, en þingmaðurinn sagði þó í yfirlýsingu sinni í gær að hann hefði vitað af erindinu barst fagráðinu hans vegna áður en hann tók ákvörðun um að bjóða sig fram í forvali flokksins í Reykjavík. Það framboð tilkynnti hann um 24. apríl.
„Ég ákvað engu að síður að gefa kost á mér í forvali Vinstri grænna í Reykjavík,“ skrifaði Kolbeinn og bætti við að umræða undanfarinna daga, þar sem hundruð kvenna hafa vakið máls á kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem viðgengst í samfélaginu, hefði haft áhrif á ákvörðun hans um að hætta við framboð.
„Ég er hluti af valdakerfinu og ég er hluti af feminískum flokki sem á alltaf að standa með konum. Ég held að ég geti ekki staðið bæði með mér og konunum sem líður illa mín vegna á meðan ég er í framboði fyrir VG. Og Vinstrihreyfingin – grænt framboð, eða nokkur þar innan borðs, á ekki að þurfa að svara fyrir mína hegðun,“ skrifaði Kolbeinn.
Hvernig starfar þetta fagráð?
Fagráðið gegn kynbundnu og einelti innan VG hefur það hlutverk að taka við umkvörtunum um ótilhlýðilega háttsemi félaga í VG. Því er ætlað að setja kvartanir í formlegan farveg og veita viðeigandi stuðning við úrvinnslu mála í samráði við þann sem tilkynnir málið inn. Fagráðið hefur heimild til að leita sér fræðslu og faglegrar ráðgjafar við úrvinnslu mála á hvaða stigi sem er og skal VG fjármagna hana. Fagráðið er bundið trúnaði gagnvart málsaðilum.
Stjórn flokksins skipar þrjá félagsmenn í fagráð til tveggja ára á fyrsta stjórnarfundi eftir landsfund eða flokksráðsfund. Tekið fram í aðgerðaáætlun flokksins gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi að stjórnarmenn VG og starfsfólk VG skulu ekki sitja í fagráði. Núverandi fagráð gegn kynbundnu ofbeldi og einelti innan VG skipa þau Guðrún Ágústsdóttir, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir og Bjarki Þór Grönfeldt.
Verklag fagráðsins er með þeim hætti að það skal kallað saman innan sjö daga frá því að erindi er móttekið. Ef grunur leikur á að um refsivert athæfi sé að ræða þá leiðbeinir fagráðið málshefjanda um kæru til lögreglu og ef málið fer í þann farveg, á fagráðið að halda að sér höndum þar til skýrslutökum er lokið.
Ákveði málshefjandi hins vegar að kæra ekki til lögreglu en óskar eftir umfjöllun fagráðs skal það gert án tafar. Þá er fagráðið kallað saman með málshefjanda og síðan fundar það með meintum geranda. Fagráð tekur síðan ákvörðun um farveg erindis að teknu tilliti til málshefjanda.
Athugasemd ritstjórnar: Í fyrri útgáfu fréttarinnar sagði að ekkert mál hefði borist til trúnaðarráðs VG, sem starfaði áður en fagráð gegn kynbundnu ofbeldi og einelti tók til starfa árið 2019. Hið rétta er að slík mál voru tvö talsins.