Forystufólk í Evrópusambandinu mun sennilega gefa grænt ljós á tillögu framkvæmdastjórnar sambandsins um að hrinda af stað stuðningsaðgerðum fyrir tekjulág heimili og fyrirtæki til þess að sporna gegn áhrifum mikilla orkuverðshækkana. Aðgerðirnar verða fjármagnaðar með svokölluðum hvalrekaskatti á orkufyrirtækin sem grætt hafa mest í álfunni. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg sem birtist í gær.
Skattlagning á hagnað orkufyrirtækja
Samkvæmt fréttinni munu þjóðarleiðtogar aðildarríkja sambandsins ræða hvernig eigi að styðja við atvinnulífið og tekjulág heimili í yfirstandandi orkuverðskrísu á tveggja daga fundi í vikunni. Orkuverð á meginlandi Evrópu hefur hækkað mikið á undanförnum mánuðum, en þær má meðal annars rekja til minni innflutningi á gasi til húshitunar frá Rússlandi.
Á fundinum, sem hefst á morgun, verður farið yfir tillögur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að koma á fót sameiginlegt styrkjakerfi sem gæti nýst fyrir heimilin aðildarríkjum sambandsins á krísutímum.
Í drögum að sameiginlegri yfirlýsingu sambandsins, sem Bloomberg komst yfir, segir að góð leið til að fjármagna þessa styrki væri svokallaður hvalrekaskattur á orkufyrirtæki. Slíkur skattur væri lagður á hagnað fyrirtækjanna, en búist við er að hann hafi aukist um 200 milljarða evra í aðildarríkjunum – sem jafngildir um 28 billjónum króna – í vetur vegna verðhækkana á orkunni sem þau seldu.
Nú þegar ákveðið í Ítalíu
Ríkisstjórn Ítalíu hefur nú þegar ákveðið að skattleggja orkufyrirtækin þar í landi til að fjármagna aðgerðaráætlun fyrir tekjulág heimili, samkvæmt frétt Bloomberg frá því fyrir helgi. Þar munu fyrirtæki í geiranum sem juku hagnað sinn um meira en fimm milljónir evra – sem jafngildir um 715 milljónum íslenskra króna – þurfa að greiða 10 prósenta eingreiðsluskatt á hagnaðinn sinn.
Með slíkri skattlagningu segir Mario Draghi, forsætisráðherra landsins, að ríkisstjórnin geti stutt við þá sem hafa þurft að gjalda fyrir orkuverðshækkanirnar án þess að stórauka fjárlagahallann sinn og skuldasöfnun hins opinbera.
Engar stuðningsaðgerðir hér á landi
Fjármála- og efnahagsráðuneytið birti í gær niðurstöður úr minnisblaði sínu um áhrif hækkandi orkuverðs á íslensk heimili. Samkvæmt því hefur verðhækkunin haft minni áhrif á fjárhag heimila hér á landi heldur en í öðrum Evrópulöndum, þar sem kynding væri almennt ekki háð olíu og gasi.
Einnig sagði ráðuneytið að fjárhagur íslenskra heimila og innlend eftirspurn væri sterk og bætti við að almennar millifærslur eða skattafslættir myndu ekki endilega skila sér til heimila, þar sem slíkar aðgerðir myndu enn auka verðbólgu og hækka vaxtakostnað.
Þó stóð einnig í minnisblaðinu að mikilvægt sé að fylgjast með áhrifum á tekjulág heimili, sérstaklega þau sem ættu ekki húsnæði. Skuldsett heimili sem væru nýkominn inn á húsnæðismarkað gætu einnig lent í vanda ef ráðist væri í „ómarkvissar aðgerðir sem leiða til hærri vaxta.“ Ef talin væri þörf á því að bregðast við áhrifum á þessa hópa þyrftu þær aðgerðir að vera afmarkaðar.