Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur segir að sú ákvörðun sem hann kunngjörði laust fyrir miðnætti í gær, að hann ætlaði að draga framboð sitt í borginni til baka, hafi verið í gerjun um nokkurn tíma.
Aðspurður segir hann í samtali við Kjarnann að þessi ákvörðun um að sækjast ekki eftir endurkjöri byggi ekki á því að hann eða aðrir hafi verið að láta framkvæma einhverjar skoðanakannanir þar sem afstaða til hans sjálfs í samanburði við aðra frambjóðendur hafi verið mæld á meðal borgarbúa.
„Nei, ég hef ekki verið að gera kannanir, en ég veit hins vegar að Sjálfstæðisflokkurinn stendur sterkt. Ég bara finn það. Ég trúi svolítið á, og held að það sé í lagi að segja frá því, svona „gut-“innsæi,“ segir Eyþór og á þá við að hann hafi alltaf haft „tilfinningu fyrir fylgi“.
„Þegar ég var í Árborg spáði ég eiginlega upp á prósent hvað við fengjum, 40 og 50 prósent og sagði frá því fyrir kosningar og fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar spáði ég að við fengjum rúmlega 30 prósent, það stóðst og við fengum 31. Ég held að við gætum fengið 35 til 36 prósent í vor ef rétt er á málum haldið, það er mín tilfinning. Ég held, eða ég held ekkert, ég veit það að við erum að skila góðu búi. Við vorum stærsti flokkurinn síðast og verðum það áfram,“ segir Eyþór.
Ekki bardagafælinn
Eyþór segir að hann hafi aldrei kviðið því að fara í prófkjörsslag, fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar hafi hann jú att kappi við fjóra aðra frambjóðendur.
„Þannig að ég er ekki bardagafælinn. Þetta er fyrst og fremst spurning um það að lífið er stutt, ég á fjögur börn og maður þarf að hugsa um það og líka hitt. Það er ekki hægt að skipta sér upp, þetta kallar á algjöran fókus, bæði prófkjör, kosningabarátta og svo auðvitað næsta kjörtímabil.
Maður fer ekki í þetta af hálfum huga, maður verður að fara alveg af heilum hug og rúmlega,“ segir Eyþór við Kjarnann.
Maður komi í manns stað
Eyþór greindi sem áður segir frá ákvörðun sinni um að hætta við framboð á Facebook í gærkvöldi og í athugasemdakerfinu við færsluna lýsa sumir stuðningsmenn hans því yfir að þeir harmi brotthvarf hans og þakka honum fyrir störfin í borginni.
Sumir gera reyndar meira en það og lýsa því yfir að þeim hugnist ekki að Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi, sem er nú orðin ein í framboði um leiðtogasæti flokksins, fari fyrir Sjálfstæðismönnum í borginni til kosninga í vor.
Nokkur áherslumunur hefur verið innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins á kjörtímabilinu, kannski einkum og sér í lagi hvað varðar afstöðu til samgöngumála. Einn karl í athugasemdakerfinu við færslu Eyþórs uppnefnir Hildi og kallar hana „Borgarlínudóttir“.
Spurður út í þetta segir Eyþór að það sé nú þannig að fólk hafi mismunandi skoðanir, en hann segist ekki óttast að brotthvarf hans úr pólitíkinni skaði Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík.
„Það kemur maður í manns stað,“ segir Eyþór og bætir því við að enginn sé ómissandi í pólitík.