Ríkisendurskoðun hefur ákveðið að framlengja frest umsagnaraðila til að skila umsögn um drög að skýrslu sinni um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Stofnunin sendi fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Bankasýslu ríkisins og stjórn hennar drög að skýrslunni um bankasöluna í síðustu viku og kom þá fram að umsagnafrestur þeirra væri til 19. október. Í stuttri tilkynningu á vef Ríkisendurskoðunar í dag segir að fresturinn hafi verið framlengdur til 25. Október að beiðni Bankasýslunnar.
Er Ríkisendurskoðun tilkynnti um miðja síðustu viku um að skýrsludrögin væru komin til umsagnaraðila var ítrekað var áréttað að trúnaður ríkir um umsagnardrögin og að þau teljist vinnuskjal í skilningi laga. „Um skýrsludrögin verður því ekki fjallað efnislega í umsagnarferlinu, hvorki af hálfu Ríkisendurskoðunar né umsagnaraðila.“
Þegar búið er að fara yfir umsagnir fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Bankasýslu ríkisins og stjórnar hennar mun Ríkisendurskoðun afhenda stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skýrsluna. Í kjölfarið verður skýrslan svo gerð opinber.
Auk þess rannsakar Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands ýmsa þætti sölunnar, sérstaklega viðskipti sem áttu sér stað í aðdraganda sölunnar og atferli hluta þeirra söluráðgjafa sem ráðnir voru til að selja hluti í bankanum.
Átti að koma í júní
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ákvað þann 7. apríl 2022 að fela Ríkisendurskoðun að rannsaka umgjörð og fyrirkomulag sölunnar. Stofnunin átti að leggja mat á hvort salan samrýmdist lögum og góðum stjórnsýsluháttum.
Upphaflega átti að skila skýrslunni í júnímánuði. Það hefur hins vegar ítrekað dregist og rúmt hálft ár verður frá því að óskað var eftir gerð hennar þar til hún mun birtast almenningi.
Mikil og almenn gagnrýni
Ástæða þess að Ríkisendurskoðun var falið að skoða þetta mál er mikil gagnrýni sem kom fram í kjölfar síðasta hluta sölumeðferðar á hlutum í Íslandsbanka, þegar 22,5 prósent hlutur ríkisins í bankanum var seldur til 207 fjárfesta í lokuðu útboði á verði sem var undir markaðsverði.
Hópurinn sem fékk að kaupa innihélt meðal annars starfsmenn og eigendur söluráðgjafa, litla fjárfesta sem rökstuddur grunur er um að uppfylli ekki skilyrði þess að teljast fagfjárfestar, erlenda skammtímasjóði sem höfðu sýnt það áður í verki að þeir hafi engan áhuga á að vera langtímafjárfestar í Íslandsbanka, fólk í virkri lögreglurannsókn, aðila sem áttu stóra hluti í bönkum fyrir hrun og föður fjármála- og efnahagsráðherra.
Könnun sem Gallup gerði skömmu eftir að salan var um garð gengin sýndi að 87,2 prósent landsmanna töldu að staðið hafi verið illa að útboði og sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka, næstum sjö af hverjum tíu töldu að lög hefðu verið brotin og næstum níu af hverjum tíu töldu að óeðlilegir viðskiptahættir hefðu verið viðhafðir.
Kjarninn greindi frá því í byrjun október að ekki hafi verið tekin ákvörðun um áframhaldandi sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka. Yfirlýsing formanna stjórnarflokkanna þriggja frá 19. apríl, þar sem segir að ekki verði ráðist í sölu á frekari hlutum í Íslandsbanka að sinni, stendur því enn.