Mynd: Íslandsbanki

Tíu staðreyndir um skoðun íslensku þjóðarinnar á sölu ríkisstjórnar á Íslandsbanka

Þann 22. mars seldi íslenska ríkið 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka í lokuðu útboði til 207 fjárfesta á 52,65 milljarða króna. Kannanir hafa verið gerðar um skoðun þjóðarinnar á bankasölu og aðrar sem sýna hverjar pólitískar afleiðingar þeirrar óánægju sem ríkir með hana eru.

1. Þorri Íslend­inga fylgj­andi því að ríkið eigi banka

Starfs­hópur sem vann Hvít­bók um fram­tíð­ar­sýn fjár­mála­kerf­is­ins, sem birt var í des­em­ber 2018, lét gera ýmsar kann­anir fyrir sig við gerð henn­ar. Þar var meðal ann­ars spurt um hvort fólk væri jákvætt gagn­vart því að íslenska ríkið væri eig­andi við­skipta­banka. Alls svör­uðu 61,2 pró­sent því ját­andi, 13,5 pró­sent neit­andi en 25,2 pró­sent sögð­ust ekki hafa sér­staka skoðun á því. 

2. Hræðsla við spill­ingu, græðgi og slæm enda­lok

Í sömu könnun var fólk spurt hver væri helsta ástæða þess að það væri jákvætt gagn­vart því að ríkið sé eig­andi við­­skipta­­banka.  Algeng­­ustu svörin voru þau að ríkið væri betri eig­andi en einka­að­ili, að slíku eign­­ar­haldi fylgdi öryggi og traust, að arð­­ur­inn af fjár­­­mála­­starf­­semi myndi þá fara til þjóð­­ar­innar og að minni líkur væru á spill­ingu, græðgi og slæmum enda­lok­­um. Í könn­un­inni kom einnig fram að flestir Íslend­ingar ósk­uðu þess að banka­­­kerfi fram­­­tíðar yrði sann­­­gjarnt og rétt­látt, traust, með góða þjón­ustu, hag­­­kvæmt, heið­­­ar­­­legt, gagn­­­sætt og fyrir almenn­ing.

Svo sögð­ust ein­ungis 16 pró­­sent lands­­manna treysta banka­­kerf­inu, sem þó var á þeim tíma og er enn, að langstærstu leyti í eigu íslensku þjóð­­ar­inn­­ar. Og 57 pró­­sent sögð­ust alls ekki treysta því. Í könnun sem Gallup gerði í byrjun árs 2022 hafði hlut­fall þeirra sem treysti banka­kerf­inu vaxið upp í 23 pró­sent, en það var samt á nið­ur­leið á ný og það næst minnsta sem mæld­ist gagn­vart stofnun eða kerfi sem spurt var um. 

3. Næstum níu af hverjum tíu telja að illa hafi verið staðið að söl­unni

Í könnun sem Gallup birti í vik­unni kom fram að 87,2 pró­sent lands­manna telja að staðið hafi verið illa að útboði og sölu á hlut rík­is­ins í Íslands­banka í síð­asta mán­uði. Ein­ungis 6,4 pró­sent telja að það hafi vel tek­ist til. Aðspurðir sem eru 60 ára eða eldri voru lík­leg­astir til að þykja salan hafa heppn­ast vel, en ell­efu pró­sent þeirra var á þeirri skoð­un. Þegar horft er á menntun vour þeir sem eru með háskóla­próf ólík­leg­astir til að vera ánægðir með hvernig tókst til, en ein­ungis fjögur pró­sent þeirra eru á þeirri skoð­un. Kjós­endur allra ann­arra flokka en Sjálf­stæð­is­flokks voru nær alfarið á því að útboðið og salan hefði verið klúð­ur, eða 89 til 97 pró­sent þeirra. Hjá kjós­endum flokks Bjarna Bene­dikts­son­ar, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, var staðan önn­ur. Þar töldu 26 pró­sent að útboðið og salan á hlutnum í Íslands­banka hefði verið vel heppnuð en 62 pró­sent að illa hefði tek­ist til. 

4. Kjós­endur allra ann­ara flokka en Sjálf­stæð­is­flokks vilja rann­sókn­ar­nefnd

Gallup spurði einnig að því hvort rann­sókn­ar­nefnd Alþingis ætti að gera úttekt á söl­unni, líkt og þorri stjórn­ar­and­stöð­unnar hefur lagt til. Nið­ur­staðan þar var sú að 73,6 pró­sent lands­manna telur að það eigi að skipa rann­sókn­ar­nefnd en 26,4 pró­sent telur nægj­an­legt að Rík­is­end­ur­skoðun geri úttekt á söl­unni, líkt og fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra hefur þegar falið henni að gera. Aftur skera kjós­endur Sjálf­stæð­is­flokks­ins sig úr þegar kemur að þessu, en 74 pró­sent þeirra er á því að úttekt Rík­is­end­ur­skoð­unar nægi. Tæp­lega þriðj­ungur kjós­enda hinna stjórn­ar­flokk­anna er á þeirri skoðun en um tveir þriðju á því að skipa þurfi rann­sókn­ar­nefnd. Ekki þarf að koma á óvart að kjós­endur stjórn­ar­and­stöðu­flokka eru nær allir á því að rann­sókn­ar­nefnd sé nauð­syn­leg. 

Bjarni Benediktsson er sá ráðherra sem tók ákvörðun um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Mynd: Skjáskot/Alþingi

5. Átta af hverjum tíu sjálf­stæð­is­mönnum telja að lög hafi ekki verið brotin

Í könnun Gallup var líka spurt hvort fólk telji að lög hefðu verið brotin við sölu á hlut rík­is­ins í Íslands­banka. Mik­ill meiri­hluti lands­manna, 68,3 pró­sent, telja að sölu­ferlið hafi falið í sér lög­brot, en 31,7 pró­sent að svo sé ekki. Athygli vekur að 77 pró­sent kjós­enda Vinstri grænna telja að lög hafi verið brotin og 67 pró­sent kjós­enda Fram­sókn­ar­flokks­ins. Þegar kemur að kjós­endum þriðja stjórn­ar­flokks­ins snýst staðan að venju við, en 77 pró­sent kjós­enda Sjálf­stæð­is­flokks­ins eru sann­færðir um að engin lög hafi verið brot­in. 

6. Næstum níu af hverjum tíu telja að óeðli­legir við­skipta­hættir hafi verið við­hafðir

Aðspurð hvort óeðli­legir við­skipta­hættir hafi verið við­hafðir við söl­una sögðu 88,4 pró­sent svar­enda svo vera. Ein­ungis 11,6 pró­sent töldu við­skipta­hætt­ina hafa verið eðli­lega.

Nær allir kjós­endur ann­arra flokka en Sjálf­stæð­is­flokks­ins (89 til 99 pró­sent) telja söl­una hafa verið fram­kvæmda með óeðli­legum við­skipta­hátt­um, en 41 pró­sent stuðn­ings­manna flokks fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra telja að eðli­legum háttum hafi verið beitt. 

7. Alls 83 pró­sent óánægð með söl­una á Íslands­banka

Áður hafði Pró­sent gerð könnun um söl­una á Íslands­banka fyrir Frétta­blað­ið, en nið­ur­stöður hennar voru birtar 20. apr­íl. Þar kom fram að rúm­lega átta af hverjum tíu lands­­mönn­um, alls 83 pró­­sent aðspurðra, segj­­ast óánægð með fyr­ir­komu­lag á sölu. Ein­ungis sjö pró­sent voru ánægð og þar af þrjú pró­sent mjög ánægð. Athygli vakti að nán­­ast allir hópar sam­­fé­lags­ins virð­­ast jafn óánægðir með söl­una á hlut rík­­is­ins í Íslands­­­banka. Í Frétta­­blað­inu sagði að það sé nán­­ast eng­inn mark­tækur munur er á afstöðu fólks er kemur að kyni, aldri, búsetu, tekjum eða mennt­un. 

Þeir sem kjósa Sjálf­­stæð­is­­flokk­inn voru þó mark­tækt ánægð­­ari með söl­una en kjós­­endur ann­­arra flokka, sam­kvæmt könnun Pró­sents. Alls sögð­ust 30 pró­­sent þeirra að þeir væru ánægðir með hana en 44 pró­­sent sögð­ust óánægð­­ir. Til sam­an­­burðar mæld­ist óánægja með söl­una að minnsta 78 pró­­sent á meðal kjós­­enda allra ann­­arra flokka í land­inu. Hjá hinum stjórn­­­ar­­flokk­un­um, Vinstri grænum og Fram­­sókn, var vart mæl­an­­leg ánægja með söl­una á hlut rík­­is­ins í Íslands­­­banka. Ein­ungis eitt pró­­sent kjós­­enda Vinstri grænna, flokks Katrínar Jak­obs­dóttur for­­sæt­is­ráð­herra, sögð­ust ánægð með söl­una og fimm pró­­sent kjós­­enda Fram­­sókn­­ar, flokks Sig­­urðar Inga Jóhanns­­sonar inn­­við­a­ráð­herra.

8. Traust á leið­toga stjórn­ar­innar hrunið og 71 pró­sent van­treysta Bjarna

Hvernig til tókst með söl­una á Íslands­banka hefur haft umtals­verðar póli­tískar afleið­ing­ar. Í könnun sem Mask­ína gerði um traust til ráð­herra kom í ljós að traust á helstu ráða­menn þjóð­ar­innar hefur hríð­fallið á skömmum tíma. Frá því í des­em­ber 2021 og fram í apríl 2022 hefur Katrín Jak­obs­dóttir for­sæt­is­ráð­herra tapað fjórð­ungi þess trausts sem hún mæld­ist með fyrir nokkrum mán­uðum og fjöldi þeirra sem van­treysta henni hefur næstum tvö­fald­ast.

Sigurður Ingi og Katrín þegar þau mynduðu fyrst saman ríkisstjórn árið 2017. Traust á þau bæði hefur hrunið á síðustu vikum.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Traust á Sig­­urð Inga Jóhanns­son inn­við­a­ráð­herra hefur hrunið um næstum 40 pró­­sent og fjöldi þeirra sem van­­treysta honum hefur rúm­­lega tvö­­fald­­ast. Verst hefur þó Bjarni Bene­dikts­son farið út úr aðstæð­un­um, en í könnun Mask­ínu kom fram að 71 pró­sent lands­manna van­treysta hon­um. Van­traustið á for­mann Sjálf­stæð­is­flokks­ins hefur auk­ist um 27 pró­sentu­stig frá því í des­em­ber og hann hefur aldrei verið óvin­sælli frá því að hann hóf stjórn­mála­þátt­töku. 

9. Rík­is­stjórnin kol­fallin og allir vel undir kjör­fylgi

Afleið­ing­arnar birt­ast líka í fylgi stjórn­ar­flokk­anna á lands­vísu. Í könnun Pró­sents sem birt var í vik­unni kom fram að rík­is­stjórnin væri kol­fall­in, að þing­manna­fjöldi hennar myndi skreppa saman um tólf ef kosið yrði í dag og að sam­an­lagt fylgi flokk­anna þriggja sem að henni standa myndi ekki ná 40 pró­sent. 

Mestu fylgi tapar Sjálf­­stæð­is­­flokk­­ur­inn, flokkur Bjarna Bene­dikts­­sonar fjár­­­mála- og efna­hags­ráð­herra. Hann mælist með 17,9 pró­­sent fylgi sem myndi skila tólf þing­­mönn­­um. Flokk­­ur­inn fékk 24,4 pró­­sent atkvæða í kosn­­ing­unum 2021 og tapar því 6,5 pró­­sent­u­­stig­­um. Það er í fyrsta sinn sem Sjálf­­stæð­is­­flokk­­ur­inn mælist með undir 18 pró­­sent fylgi í stórri fylgiskönn­un.

Hinir stjórn­­­ar­­flokk­­arnir tveir tapa líka miklu fylgi. Fram­­sókn­­ar­­flokk­­ur­inn hefur tapað 4,9 pró­­sent­u­­stigum frá kosn­­ing­unum í fyrra­haust og mælist með 12,4 pró­­sent fylgi. Vinstri græn, flokkur Katrínar Jak­obs­dóttur for­­sæt­is­ráð­herra, mælist með 9,6 pró­­sent fylgi sem er þremur pró­­sent­u­­stigum minna en þau fengu upp úr kjör­köss­unum í sept­­em­ber 2021. 

10. Áhrif banka­söl­unnar sýni­leg í bar­átt­unni um borg­ina

Þótt það hafi verið rík­is­stjórnin sem seldi hlut­inn í Íslands­banka þá teygja áhrif óánægj­unnar vegna söl­unnar sig líka yfir í sveit­ar­stjórn­ar­mál­in, en þar verður kosið eftir sléttar tvær vik­ur. Í nýj­ustu kosn­inga­spá Kjarn­ans kemur fram að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn í Reykja­vík sé að tapa fylgi hratt, en fylgi hans mælist nú 21,9 pró­sent. Það er 8,9 pró­sentu­stigum minna en flokk­ur­inn fékk í kosn­ing­unum 2018. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn mælist með 12,6 pró­sent fylgi í höf­uð­borg­inni, sem er mikil bæt­ing frá því sem hann fékk í borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­unum 2018 og svipað og flokk­ur­inn fékk í Reykja­vík­ur­kjör­dæm­unum í þing­kosn­ing­unum í fyrra­haust. Vinstri græn mæl­ast með ein­ungis 6,2 pró­sent fylgi, sem er betra en 2018 en langt frá því fylgi sem flokk­ur­inn fékk í Reykja­vík í síð­ustu kosn­ingum til Alþing­is. Sam­an­lagt fylgi stjórn­ar­flokk­anna í höf­uð­borg­inni mælist nú 40,7 pró­sent, sem er nán­ast sama sam­eig­in­lega fylgi og þeir njóta á lands­vís­u. 

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar