Hin takmarkaða þjóð sem skilur ekki stóru stráka leikina

Auglýsing

Í Morg­un­blað­inu í fyrra­dag birti Andrés Magn­ús­son, rit­stjórn­ar­full­trúi blaðs­ins sem hefur starfað fyrir Sjálf­stæð­is­flokk­inn í mörgum af síð­ustu kosn­inga­bar­áttum hans, svo­kallað Bak­svið þar sem hann fjallar um póli­tísk áhrif sölu á 22,5 pró­sent rík­is­ins í Íslands­banka. Þar sagði meðal ann­ars að „innan Vinstri grænna og Fram­sóknar hafa sumir rætt um það, að reyn­ist nið­ur­staða rík­is­end­ur­skoð­anda fjár­mála­ráð­herra óhag­stæð, sé núver­andi sam­starfi sjálf­hætt. Hefur í því sam­hengi verið rætt um að við geti tekið minni­hluta­stjórn Vinstri grænna og Fram­sóknar með hlut­leysi Sam­fylk­ingar og Pírata og þing­kosn­ingum flýtt fram á vor.“

Það eru merki­leg tíð­indi þegar Morg­un­blaðið er farið að ýja að stjórn­ar­slitum rík­is­stjórnar sem Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn situr í. Sú minni­hluta­stjórn og tíma­setn­ing kosn­inga sem Morg­un­blaðið nefnir virð­ist þó ósk­hyggja til þess ætluð að kaupa Sjálf­stæð­is­flokknum tíma til að ná vopnum sínum að nýju. Slíkt hefur áður gef­ist vel og hefur bjargað póli­tísku lífi for­manns flokks­ins þegar hann kemur sér í full­kom­lega sjálf­sköpuð vand­ræði.

En nú virð­ist hins vegar sem að Bjarni Bene­dikts­son sé mögu­lega búinn með sín níu póli­tísku líf. Hann er á verri stað en nokkru sinni áður póli­tískt, eftir rúm­lega 13 ára setu sem for­mað­ur. 

„Ég er ekki að fara neitt,“ sagði Bjarni við blaða­menn sem hann neit­aði að öðru leyti að ræða við eftir rík­is­stjórn­ar­fund á þriðju­dag. Svo steig inn í bíl sinn og ók burt með hraði, sam­kvæmt frá­sögn mbl.is.

Allar kann­anir benda þó til þess að þjóðin sé honum ósam­mála. Banka­sölu­klúðrið var of mik­ið. Bjarni gæti verið á útleið.

Að lifa af með því að ganga á inn­eign ann­arra

Í könnun sem MMR gerði í des­em­ber í fyrra, í kjöl­far þess að rík­is­stjórn Katrínar Jak­obs­dóttur end­ur­nýj­aði heit sín, var spurt um traust til ráð­herra henn­ar. 

Bjarni Bene­dikts­son kom næst verst út allra. Alls 37 pró­sent sögð­ust treysta hon­um, sem var mun lægra hlut­fall en hinir for­menn stjórn­ar­flokk­anna mæld­ust með, og alls 44 pró­sent sögð­ust bera lítið traust til hans.

Auglýsing
Þetta kom ekk­ert mikið á óvart. Bjarni er, og hefur alltaf ver­ið, afar umdeildur stjórn­mála­mað­ur. Flokki hans hefur sögu­lega gengið illa í kosn­ingum undir hans for­mennsku og fengið flestar af sínum verstu nið­ur­stöðum á þeim tíma. Bjarni er hins vegar klókur stjórn­mála­maður og hefur með útsjón­ar­semi getað gengið á póli­tíska inn­eign ann­arra stjórn­málafor­ingja, myndað með þeim rík­is­stjórnir og ráðið því sem hann vill ráða í krafti rúm­lega fimmt­ungs fylg­is. Eftir hann liggur slóð aftapp­aðra for­ingja. Bene­dikt Jóhann­es­son og Óttar Proppé duttu út úr póli­tík eftir að hafa myndað rík­is­stjórn með Bjarna og Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son er enn í sinni póli­tísku eyði­merk­ur­göngu fjarri áhrifum sem flestir kjós­endur virð­ast hafa misst áhug­ann á.

Hinir for­ingj­arnir í rík­is­stjórn­inni, for­sæt­is­ráð­herr­ann Katrín Jak­obs­dóttir og sig­ur­veg­ari síð­ustu kosn­inga, Sig­urður Ingi Jóhanns­son, mæld­ust á frá­bærum stað í könn­un­inni í des­em­ber 2021 og með mikla póli­tíska inn­eign. Alls sögð­ust 60 pró­sent treysta Katrínu og 53 pró­sent Sig­urði Inga, en 18 pró­sent sögð­ust van­treysta þeim. 

Á baki þessa trausts báru þau Bjarna og Sjálf­stæð­is­flokk­inn í enn eina rík­is­stjórn­ina.

Úr vari far­ald­urs og inn í alvöru póli­tík

Um síð­ustu ára­mót rann MMR inn í Mask­ínu. Hið sam­ein­aða fyr­ir­tæki birti í byrjun viku nið­ur­stöður könn­unar þar sem spurt var um traust til ráð­herra. 

Staða leið­toga stjórn­ar­flokk­anna hafði breyst mikið á þeim örfáu mán­uðum frá því að síð­asta könnun var gerð. 

Katrín hefur tapað fjórð­ungi þess trausts sem hún mæld­ist með í des­em­ber og fjöldi þeirra sem van­treysta henni hefur næstum tvö­fald­ast. Traust á Sig­urð Inga hefur hrunið um næstum 40 pró­sent og fjöldi þeirra sem van­treysta honum hefur rúm­lega tvö­fald­ast. 

Hvað veldur þessu?

Á það má benda að kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn kippti allri hefð­bund­inni póli­tík úr sam­bandi og veitti óvenju­lega sam­settri rík­is­stjórn, sem mynduð var um völd og stóla, skjól frá eigin stefnu­leysi. Hún varð við­bragðs­stjórn, ekki stefnu­stjórn.

Hið hug­mynda­fræði­lega póli­tíska til­gangs­leysi rík­is­stjórn­ar­sam­starfs­ins hefur hins vegar staðið nakið fyrir framan okkur eftir að far­ald­ur­inn hætti að lita líf flestra. Ekk­ert stefnu­mál sem neinu skiptir hefur verið lagt fram, og hvað þá sam­þykkt, það sem af er þessu kjör­tíma­bili. Rík­is­stjórnin bara er. Mesta vinnan hefur farið í að fjölga ráðu­neyt­um, og verja hneyksl­is­mál.

Bjarni óvin­sælli en nokkru sinni áður 

Það er því ekki óvin­sæl stefna sem er að fella stjórn­ina, heldur hegðun og fram­kvæmd ákvarð­ana. Þar má nefna rasísk ummæli Sig­urðar Inga um fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­taka Íslands sem hann hefur neitað að ræða við fjöl­miðla og þingið um sem neinu nem­ur. Hann átti að vera í óund­ir­búnum fyr­ir­spurna­tíma í dag en boð­aði for­föll á síð­ustu stundu. Það fer því að verða mán­uður síðan að Sig­urður Ingi sagði það sem hann sagði. Hann hefur enn ekki mætt fyrir þingið til að ræða ummælin og afleið­ingar þeirra.

Auglýsing
En stóra ástæðan fyrir því að Katrín og Sig­urður Ingi hafa tapað trausti almenn­ings er auð­vitað fúskið í kringum sölu á 22,5 pró­sent hlut rík­is­ins í Íslands­banka þann 22. mars. Sölu sem nýleg könnun Pró­sents sýndi að 83 pró­sent lands­manna væru óánægð með. 

Sam­kvæmt lögum ber einn maður ábyrgð á þeirri sölu umfram aðra. Hann heitir Bjarni Bene­dikts­son. Áður­nefnd könnun Mask­ínu sýndi að 71 pró­sent lands­manna van­treystir hon­um. Sjö af hverjum tíu. Ein­ungis 18,3 pró­sent lands­manna treysta hon­um. Færri en tveir af hverjum tíu.

Til að setja þessar tölu í sam­hengi má nefna að það eru tíu pró­sentu­stigum fleiri en sögð­ust ekki treysta Bjarna eftir birt­ingu Panama­skjal­anna og tíu pró­sentu­stigum færri en sögð­ust van­treysta Sig­mundi Davíð Gunn­laugs­syni á þeim tíma. Hann sagði af sér sem for­sæt­is­ráð­herra í kjöl­far­ið. Annað sam­hengi sem má setja þessa stöðu í er að van­traust á Bjarna hefur auk­ist um 27 pró­sentu­stig frá því í des­em­ber, eða um rúm­lega 60 pró­sent. 

„Þið eruð öll fífl, nema ég“

Við­brögð Bjarna við fyr­ir­liggj­andi stöðu, þegar hann skil­aði sér loks aftur heim úr löngu páska­fríi, voru kunn­ug­leg. Hann var víg­móð­ur. Reið­ur. Eig­in­lega sár­móðg­að­ur. Þessi aðferð hafði virkað fyrir hann þegar for­tíð hans í við­skipta­líf­inu varð að frétta­efni, þegar Panama­skjölin opin­ber­uðu að hann ætti aflands­fé­lag, þegar faðir hans skrif­aði upp á upp­reist æru fyrir dæmdan barn­a­níð­ing og þegar hann var grip­inn í partíi í Ásmund­ar­sal á Þor­láks­messu á sama tíma og rík­is­stjórnin hafði bannað almenn­ingi að hitt­ast sem neinu nemur yfir hátíð­irn­ar. Þessa taktík mætti draga saman í eina setn­ingu: „Þið eruð öll fífl, nema ég!“ Að hann sé ekki vanda­mál­ið, heldur allir hin­ir. 

Stjórn­ar­and­staðan býður upp á mesta rugl sem hann hefur heyrt. Þing­nefndir sem gerðu ekki athuga­semdir við tak­mark­aðar upp­lýs­ingar getu­laus­ar. Fjöl­miðlar léleg­ir. Kann­anir eru „heimsku­leg­ar“. Almenn­ingur skilur ekki að heild­ar­mynd trompar auka­at­riði eins og að pabbi hans hafi fengið að kaupa, að sölu­ráð­gjafar hafi sjálfir keypt ofan í að hafa fengið mörg hund­ruð millj­óna króna þóknun úr rík­is­sjóði fyrir að hringja í vini og vanda­menn, að fullt af kaup­endum hafi selt hluti dag­anna eftir að þeir voru afhent­ir, að vafa­at­riði sé um að allir kaup­endur geti talist fag­fjár­festar og að það sé ekk­ert hægt að koma í veg fyrir að fólk sem setti banka á haus­inn 2008, sé í virkri lög­reglu­rann­sókn eða hafi fengið tugi millj­arða afskrif­aða eign­ist banka. Kap­ít­al­ism­inn virki ein­fald­lega ekk­ert þannig. 

Að þurfa að þjón­usta heim­ótt­ar­lega sveitalúða

Þetta er við­mótið sem má sjá hjá Banka­sýsl­unni líka. Í minn­is­blaði hennar til fjár­laga­nefndar, sem birt var á þriðju­dag seg­ir: helstu mis­tökin voru að átta sig ekki á því hvað íslensk þjóð er tak­mörk­uð. Að hafa ekki sýnt því nægi­lega mikla nær­gætni að þessir heim­ótt­ar­legu sveitalúðar hérna á Íslandi skilji ekki hvernig stóru strák­arnir í fjár­mála­kerf­inu leika sér. Þetta við­mót end­ur­spegl­ast svo í sam­tölum við marga sem vinna við að færa pen­inga og fara í blauta hádeg­is­verði á Snaps eða Kastr­up, að því er virð­ist á stundum með for­stjóra Banka­sýsl­unnar. Hroki. Yfir­læti. Dramb­sem­i. 

Í kjöl­farið eru svo alltaf gerðir út póli­tískir skíta­dreifarar, á launum hjá almenn­ingi, til að ráð­ast á fólk sem gagn­rýnir eða veitir aðhald og ásaka þá um að hengja sig í auka­at­riði með því að hengja sig sjálfir í auka­at­riði. Nú reyna þessir gaslampar að nota hug­tök eins og gas­lýs­ingu og snúa þeim upp á aðra án þess að geta lesið sér til gagns um merk­ingu hug­taks­ins né að átta sig á að hegðun þeirra er orða­bóka­skil­grein­ingin á því. 

Sá munur er á nú að tudda­skapur og frekja þeirra bítur ekki leng­ur. Sífellt færri láta lokka sig inn í smjör­klíp­urnar sem dælt er út af þeim á sam­fé­lags­miðl­u­m. 

Fókus reið­innar er skýr: Hér var rík­is­banki seldur með hætti sem fólk sættir sig ekki við.

Þjóð með áfall ofið í erfða­efnið

Af hverju fer það í mæn­una á íslenskri þjóð þegar rík­is­eign er seld með fúski og þeirri áferð að útval­ið, en illa þokk­að, fólk með sviðna for­tíð og nútíð hafi verið valið til að þiggja almanna­gæði umfram aðra?

Svarið við því er nokkuð ein­falt. Hér voru bankar einka­væddir ofan í menn fyrir tveimur ára­tugum sem bjuggu til fjár­mála­lega vít­is­vél á rúmum fimm árum, frömdu svo skeyt­ing­ar­laus voða­verk með henni sem leiddu til ömur­legra afleið­inga fyrir fullt af venju­legu fólki. 

Afleið­ing­arnar urðu meðal ann­ars þær að gjald­mið­ill Íslend­inga veikt­ist um tugi pró­senta, verð­bólga fór í 18,6 pró­sent, stýri­vextir í 18 pró­sent, atvinnu­leysi fór í tveggja stafa tölu, rík­is­sjóður fór úr því að vera nær skuld­laus í að vera nær gjald­þrota, skuldir heim­ila marg­föld­uð­ust, margir misstu heim­ili sín og sparn­að, neyð­ar­lög tóku gildi, fjár­magns­höft voru sett á, Ísland þurfti að leita til Alþjóða­gjald­eyr­is­sjóðs­ins eftir aðstoð og allt traust milli almenn­ings og stofn­ana sam­fé­lags­ins hvarf. Mót­mæli urðu dag­legt brauð, eldar voru kveiktir og póli­tískur óstöð­ug­leiki varð að normi.

Þetta áfall gleym­ist ekki. Þetta er enn í erfða­efni margra. Traustið sem hvarf er enda mesta þjóð­ar­mein íslensku þjóð­ar­inn­ar. Það litar allt í okkar sam­fé­lagi. Allt er tor­tryggt. Stóra póli­tíska verk­efni síð­ustu ára átti að vera að byggja upp það traust. 

Stundum hefur það gengið ágæt­lega, lítil skref eru tekin fram á við. En svo ger­ist eitt­hvað sem orsakar að stór skref eru stigin aft­urá­bak. 

Banka­salan er slíkt eitt­hvað.

Mistókst herfi­lega að ná mik­il­væg­asta mark­mið­inu

Í ljósi sög­unnar átti öllum að vera ljóst hvað illa fram­kvæmd banka­sala myndi leiða af sér. Í fyrsta lagi er mik­ill meiri­hluti þjóð­ar­innar ein­fald­lega mót­fall­inn því að rík­is­bankar séu seldir. En ef það yrði gert var gerð skýr krafa um að gagn­sæi, jafn­ræði og heið­ar­leiki ríkti um það ferli. Auk þess ætti öllum með sæmi­lega sjón og heyrn að vera það sýni­legt að það skiptir þjóð­ina meira máli að traustir lang­tíma­eig­endur komi að bönk­unum en hvað fæst fyrir þá. Í Hvít­bók sem þessi rík­is­stjórn lét starfs­hóp, sem leiddur var af stjórn­ar­for­manni Banka­sýsl­unn­ar, vinna sagði: „Heil­brigt eign­ar­hald er mik­il­væg for­­­senda þess að banka­­­kerfi hald­ist traust um langa fram­­­tíð. Í því felst að eig­endur banka séu traust­ir, hafi umfangs­­­mikla reynslu og þekk­ingu á starf­­­semi banka og fjár­­­hags­­­lega burði til að standa á bak við bank­ann þegar á móti blæs. Mik­il­vægt er að eig­endur hafi lang­­­tíma­­­sjón­­­ar­mið að leið­­­ar­­­ljósi.“ 

Auglýsing
En svo er það í höndum manna að fram­kvæma og þeim mistókst herfi­lega að ná stærsta og lang­mik­il­væg­asta mark­mið­inu: að almenn­ingur treysti því að hags­munir hans hefðu verið hafðir að leið­ar­ljósi. 

Eina leiðin til að eyða tor­tryggni eru vönduð vinnu­brögð og gagn­gerar rann­sóknir

Stjórn­mála­menn sem hafa ekki skiln­ing á þess­ari stöðu, og búa ekki yfir næmni gagn­vart þjóð sem telur þetta skipta gríð­ar­lega miklu máli, eiga vart erindi í póli­tík. 

Margir snjallir póli­tíkusar hafa sýnt af sér slíkan skiln­ing og næmni. Í mars 2017 var til að mynda birt skýrsla rann­­sókn­­ar­­nefndar Alþingis um aðkomu Hauck & Auf­häuser að kaup­unum á 45,8 pró­­sent hlut í Bún­­að­­ar­­bank­­anum í jan­úar 2003. Þá fór fram óund­ir­bú­inn fyr­ir­spurna­tími á Alþingi þar sem skel­eggur stjórn­ar­and­stöðu­þing­maður spurði þáver­andi fjár­mála­ráð­herra út í það hvort nið­ur­staða þeirrar rann­sóknar – sem var slá­andi og sýndi að almenn­ing­ur, fjöl­miðlar og þing­heimur hafi verið blekktur af ósvífnum hópi manna sem lang­aði að kom­ast yfir banka – sýndi ekki að rík ástæða væri til að ráð­ast í ítar­lega rann­sókn á allri einka­væð­ingu bank­anna árið 2003. 

Í ræðu sinni sagði þing­mað­ur­inn meðal ann­ars: „Ís­lenskt sam­fé­lag hefur orðið gegn­sýrð­ara af grun­semdum og tor­tryggni á síð­ustu árum þegar kemur að við­skipta­líf­inu og þessi tíð­indi sýna að eina leiðin til að eyða þeirri tor­tryggni sé að sýna vönduð vinnu­brögð, ráð­ast í gagn­gera rann­sókn á sölu­ferl­inu öllu eins og Alþingi sam­þykkti árið 2012 þannig að hægt sé að horfa fram á veg­inn, draga lær­dóm af ferl­inu áður en ráð­ist verður í aðra einka­væð­ingu á hlut rík­is­ins í bönk­un­um. Ráð­herra hefur boðað sölu á hlut rík­is­ins í bönk­unum en hann hefur líka sagt að mik­il­vægt sé að taka sér þann tíma sem þarf. Er ekki ástæða til að ljúka rann­sókn á þessu ferli þannig að við fáum allt fram um þetta mál sem hefur hvílt eins og mara á þjóð­inn­i?“

For­sæt­is­ráð­herra situr uppi með afleið­ing­arnar

Þessi þing­mað­ur, Katrín Jak­obs­dótt­ir, varð for­sæt­is­ráð­herra þjóð­ar­innar nokkrum mán­uðum síð­ar. Í dag sér hún engan til­gang, að minnsta kosti enn sem komið er, í því að skipa neinar rann­sókn­ar­nefnd­ir. Í dag lýsir hún yfir fullum stuðn­ingi við þann sem ber ábyrgð á banka­sölu sem 83 pró­sent þjóðar treystir ekki. Í dag er hennar póli­tíska hlut­verk fyrst og fremst að verja verk Bjarna Bene­dikts­son­ar.

Fyrir vikið er póli­tísk inn­eign Katrínar að verða upp­ur­inn. Traust til hennar hefur snar­minnk­að. Flokkur hennar er í frjálsu falli í skoð­ana­könn­unum á lands­vísu, rík­is­stjórn­ar­flokk­arnir næðu ekki 40 pró­sent fylgi ef kosið yrði í dag og stjórnin því kol­fallin í huga almenn­ings. Í kjör­dæmi for­sæt­is­ráð­herr­ans, þar sem hún fékk 15,9 pró­sent atkvæða í haust, mælist fylgi Vinstri grænna fyrir kom­andi borg­ar­stjórn­ar­kosn­ingar um sex pró­sent.

Til við­bótar liggur fyrir rúm­lega átta af hverjum tíu lands­mönnum eru óánægðir með banka­söl­una. Til við­bótar liggur fyrir að yfir 70 pró­sent lands­manna van­treysta fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra. Til við­bótar liggur fyrir að flokkur hans hefur vart mælst með minna fylgi, jafn á lands­vísu og í Reykja­vík.

Allt ofan­greint eru skýr skila­boð um að tími þeirrar til­raunar sem þessi sér­kenni­lega rík­is­stjórn er sé lið­inn, að minnsta kosti í óbreyttu formi. Það þarf ein­hver að axla ábyrgð á því sem hefur gerst. Sá ein­hver er Bjarni Bene­dikts­son. Ann­ars þarf öll stjórnin að axla hana sam­an.

Það er hægt að horfast í augu við þessa stöðu strax eða hanga á roð­inu og von­ast til að það fenni yfir. 

Póli­tíska veð­ur­spáin bendir hins vegar ekki til þess að mikil úrkoma sé í kort­un­um.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Mette Frederiksen, Ursula van der Leyen forseti framkvæmdastjórnar ESB, Olaf Scholz kanslari Þýskalands, Mark Rutte forsætisráðherra Hollands og Alexander De Croo forsætisráðherra Belgíu hittust í Esbjerg.
Tíu þúsund risastórar vindmyllur
Á næstu árum og áratugum verða reistar 10 þúsund vindmyllur, til raforkuframleiðslu, í Norðursjónum. Samkomulag um þessa risaframkvæmd, sem fjórar þjóðir standa að, var undirritað í Danmörku sl. miðvikudag.
Kjarninn 22. maí 2022
Jódís Skúladóttir þingmaður VG.
Segir náin tengsl á milli hatursglæpa, vændis, kvenhaturs og útlendingahaturs
Þingmaður Vinstri grænna segir að hinsegin fólk sem fellur undir hatt fleiri minnihlutahópa sé útsettara fyrir ofbeldi en annað hinsegin fólk og því sé aldrei hægt að gefa afslátt í málaflokkum sem viðkoma þessum hópum.
Kjarninn 21. maí 2022
Hanna Katrín Friðriksson þingmaður Viðreisnar.
„Hvernig stendur á þessari vitleysu?“
Þingflokksformaður Viðreisnar telur að líta þurfi á heilbrigðiskerfið í heild sinni og spyr hvort það sé „í alvöru til of mikils ætlast að stjórnvöld ráði við það verkefni án þess að það bitni á heilsu og líðan fólks“.
Kjarninn 21. maí 2022
Framsóknarflokkurinn í Mosfellsbæ er í lykilstöðu um myndun meirihluta bæjarstjórnar.
Viðræðum Framsóknarflokksins og Vina Mosfellsbæjar slitið
Framsóknarflokkurinn í Mosfellsbæ tilkynnti Vinum Mosfellsbæjar skömmu fyrir áætlaðan fund þeirra í morgun að ákveðið hefði verið að slíta viðræðum. Líklegast er að Framsókn horfi til þess að mynda meirihluta með Samfylkingunni og Viðreisn.
Kjarninn 21. maí 2022
Gísli Pálsson
„Svartur undir stýri“: Tungutak á tímum kynþáttafordóma
Kjarninn 21. maí 2022
Horft frá toppi Úlfarsfells yfir Blikastaði
Blikastaðir eru „fallegasta byggingarland við innanverðan Faxaflóa“
„Notaleg“ laxveiði, æðardúnn í eina sæng á ári og næstu nágrannar huldufólk í hóli og kerling í bæjarfjallinu. Blikastaðir, ein fyrsta jörðin sem Viðeyjarklaustur eignaðist á 13. öld, á sér merka sögu.
Kjarninn 21. maí 2022
Selur í sínu náttúrulega umhverfi.
Ætla að gelda selina í garðinum með lyfjum
Borgaryfirvöld fundu enga lausn á óviðunandi aðstöðu selanna í Húsdýragarðinum aðra en að stækka laugina. Þeir yngstu gætu átt 3-4 áratugi eftir ólifaða. 20-30 kópum sem fæðst hafa í garðinum hefur verið lógað frá opnun hans.
Kjarninn 21. maí 2022
Í ávarpi sínu fór Katrín yfir þann lærdóm sem hægt er að draga af kórónuveirufaraldrinum, meðal annars að samheldni samfélagsins hafi reynst okkar mestu verðmæti.
Ekki einungis hægt að vísa ábyrgð á launafólk
Katrín Jakobsdóttir segir atvinnulíf og stjórnvöld bera mikla ábyrgð á bráttunni við verðbólguna og að ekki sé hægt að vísa ábyrgðinni eingöngu á launafólk í komandi kjarasamningum.
Kjarninn 20. maí 2022
Meira úr sama flokkiLeiðari