Færri telja Sjálfstæðisflokkinn bestan til þess fallinn að leiða innflytjendamál á Íslandi en í fyrra og fyrir þremur árum. Þetta kemur fram í könnun MMR á því hvaða stjórnmálaflokka fólk telur best til þess fallna að leiða ákveðna málaflokka.
Flestir treysta flokknum þó enn fyrir málaflokknum, en 25,6 prósent svarenda töldu Sjálfstæðisflokknum best treystandi fyrir innflytjendamálum. Þegar MMR spurði sömu spurningar í janúar í fyrra sögðu 32 prósent að flokknum væri best treystandi. Í janúar 2012 töldu 41,4 prósent Sjálfstæðisflokkinn bestan til að leiða innflytjendamál.
20,3 prósent svarenda treystu Samfylkingunni best fyrir innflytjendamálum, 14,9 prósent Bjartri framtíð, 13,8 prósent Framsóknarflokknum og 13,5 prósent Pírötum. 11,9 prósent svarenda töldu Vinstri græn best til þess fallin að leiða innflytjendamál.
Treysta Pírötum fyrir rannsókn á tildrögum bankahruns
Fjórðungur þeirra sem svöruðu sögðust telja Pírata best til þess fallna að leiða rannsókn á tildrögum bankahrunsins. Næstflestir treysta Sjálfstæðismönnum og Vinstri grænum fyrir því, 19,1 og 19 prósent. Þá treysta 14,3 prósent Bjartri framtíð fyrir verkefninu og 13,9 prósent Samfylkingunni. Fæstir treysta Framsóknarflokknum helst fyrir rannsókn á tildrögum bankahrunsins, eða 8,8 prósent.
Þá segjast flestir telja Samfylkingunni best treystandi til að leiða samninga um aðild að Evrópusambandinu, eða 39 prósent. 24,2 prósent treysta Sjálfstæðisflokknum best fyrir Evrópusambandsmálum, og 12,4 prósent Framsóknarflokknum. 11,5 prósent telja Bjarta framtíð besta til að leiða samninga um aðild að ESB, 7,4 prósent VG og 5,6 prósent treysta Pírötum best fyrir verkefninu.
Þá segist fjórðungur treysta Sjálfstæðisflokknum best fyrir endurskoðun á stjórnarskránni en 19,5 prósent Pírötum. 17,5 prósent treysta Samfylkingunni og 15,7 prósent Bjartri framtíð. 12,4 prósent treysta Vinstri grænum best fyrir endurskoðun stjórnarskrárinnar en fæstir treysta Framsókn fyrir henni, eða 9,4 prósent.
MMR spurði 933 einstaklinga í könnuninni 9. til 14. janúar, en hafa verður í huga að vikmörk í könnun þar sem um það bil 1000 manns eru spurðir geta verið allt að 3,1 prósent.