Ekki verður fallið frá því skilyrði, sem er til staðar í lögum í dag, að sá aðili sem dómstólasýslan tilnefnir í dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara komi ekki úr röðum dómara. Þetta má lesa í nýju stjórnarfrumvarpi frá Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra um ýmsar breytingar á lögum um meðferð einkamála, meðferð sakamála og dómstóla.
Í drögum að frumvarpinu, sem lögð voru fram í samráðsgátt stjórnvalda á Þorláksmessu, var lagt til að dómstólasýslan fengi frelsi til þess að tilnefna fulltrúa í dómnefndina úr röðum dómara. Það var gagnrýnt, bæði af hálfu Lögmannafélags Íslands og Hauks Loga Karlssonar, nýdoktors í lögfræði við HÍ. Tekið var tillit til þeirra athugasemda varðandi þetta atriði við endanlega framlagningu frumvarpsins.
Kjarninn sagði frá athugasemdum Hauks Loga við frumvarpið í janúarmánuði, en hann andmælti því að rétt væri að afnema þær takmarkanir sem í dag eru lagðar á dómstólasýsluna við tilnefningu í dómnefndina. Þvert á móti, sagði hann, er áskilnaður um vissan fjölbreytileika nefndarmanna í dómnefndinni „nauðsynlegur til þess að tryggja þá valddreifingu, sem löggjafinn hafði í huga þegar kemur að samsetningu nefndarinnar“.
Auk dómstólasýslunnar tilnefna Landsréttur, Hæstiréttur, Alþingi og Lögmannafélagið fulltrúa í dómnefndina. Haukur Logi benti á að dómnefndin færi með veigamikið vald í stjórnskipuninni og í reynd stóran hluta valds til skipunar á dómurum.
„Það er því eðlilegt að löggjafinn hafi komið því þannig fyrir að ein fámenn starfsstétt geti ekki án lýðræðislegs umboðs komið sér í þá stöðu að hafa úrslitavald um hverjir veljist til þess að fara með dómsvald yfir allri þjóðinni,“ sagði í umsögn Hauks Loga um frumvarpsdrögin.
Ekki útilokað að varadómaralisti komi til skoðunar síðar meir
Hvað dómaraskipanir varðar var í drögum að frumvarpinu einnig lagt upp með að falla frá þeirri reglu að dómarar sem settir eru við Landsrétt og Hæstarétt, hvort heldur í einstök mál eða í tiltekið tímabil, skyldu koma úr röðum fyrrverandi dómara ef kostur væri á. Áfram er stefnt að þessum breytingum, í framlögðu frumvarpi dómsmálaráðherra.
Í umsögn Hauks Loga um frumvarpsdrögin sagði að rétt væri að þetta fyrirkomulag hefði ekki reynst hentugt – erfitt hefði verið að fá fyrrverandi dómara til setu sem varadómarar, en bent var á að rök stæðu enn til þess að binda hendur þeirra sem skipa dómara til skamms tíma með einhverjum hætti. Þau rök hafi verið að hætta væri á að geðþótti gæti ráðið því hverjir væru settir dómarar til skamms tíma og að „þetta vald væri notað til þess að lyfta þóknanlegum framtíðar umsækjendum um dómaraembætti yfir aðra með því að veita þeim dómarareynslu.“
Haukur Logi viðraði þann möguleika að í stað þess að veita dómnefnd fullt frelsi til þess að skipa lögfræðinga í dómaraembætti til skemmri tíma væri hægt að útbúa lista sem valið yrði af.
„Hægt væri að útbúa listann þannig að þeim umsækjendum um embætti dómara, sem teljast af dómnefnd hæfir til að taka sæti en hljóta ekki embætti, væri boðið að taka sæti á þessum lista. Jafnframt mætti bjóða dómurum sem látið hafa af störfum að vera á listanum og mögulega mætti auglýsa reglulega eftir fólki á listann, sem yrði þá hæfismetið líkt og dómaraefni af dómnefndinni. Listann ætti að birta opinberlega og skrá ætti hagsmunatengsl og lögfræðileg sérsvið þeirra sem á honum eru. Loks ætti að birta tölfræði í ársskýrslu dómstólasýslunnar um hverjir eru kallaðir til að taka sæti á hverju ári. Gagnsæi og formfesta um störf og val varadómara ætti að koma í veg fyrir þá gagnrýni sem varð tilefni þeirrar reglu sem frumvarpsdrögin leggja til að verði breytt til fyrra horfs,“ skrifaði Haukur Logi í umsögn sinni.
Í greinargerð með því frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi er fjallað um þessar athugasemdir og segir að í ljósi þessara sjónarmiða sé rétt að árétta að þegar nauðsynlegt sé að setja dómara til starfa, hvort heldur sem er í tiltekið tímabil eða í einstakt mál, þjóni það öðru jöfnu þörfum viðkomandi dómstóls best að til þess veljist aðili sem hafi reynslu af dómsstörfum sem geri honum kleift að ganga umsvifalaust til verks og án sérstaks undirbúningstímabils eða starfsþjálfunar.
„Með því er þó ekki fullyrt að setning annarra hæfra lögfræðinga geti ekki þjónað sama markmiði og ekki heldur að sérstakur listi á borð við þann sem að framan er lýst geti gagnast við setningu dómara. Í ljósi þess hversu miklum vandkvæðum það hefur reynst bundið að fá fyrrverandi dómara til að taka að sér setningu, eins og lög mæla nú fyrir um, og mikilvægis þess að sú regla verði færð úr núverandi horfi þegar í stað, er sú leið að halda sérstakan lista ekki lögð til hér, enda krefst hún ítarlegri útfærslu og lagabreytinga en ráðgerðar hafa verið með þessu frumvarpi. Það útilokar þó ekki að hún hljóti nánari athugun síðar meir,“ segir í greinargerð með frumvarpi dómsmálaráðherra.