Félag leikskólakennara segir að sú tillaga „að búa til Tupperware píramída hvatningu vegna ráðninga starfsfólks í leikskóla“ sé langt því frá líkleg til þess að ráðast á rót mönnunarvanda í leikskólum.
Þetta kemur fram í Facebook færslu frá félaginu, þar sem vísað er til fréttar Kjarnans frá því fyrr í dag, en þar sagði frá aðgerðum sem til stendur að ráðast í til að fjölga starfsmönnum á leikskólum í Reykjavíkurborg.
Borgarráð samþykkti í gær að veita alls 20 milljónum aukalega til skóla- og frístundasviðs til þess að bæta mönnun á leikskólum, en ein aðgerðanna sem skóla- og frístundasviðið lagði til var sú að hvetja starfsmenn leikskóla borgarinnar til að fá vini og ættingja til að ráða sig í vinnu á leikskóla, með 75 þúsund króna launaauka ef ráðningarsamband kæmist á.
Þetta hefur vakið nokkra athygli – og Félagi leikskólakennara líst ekki vel á áformin.
Í færslu félagsins segir að stærsta verkefni sveitarfélaga sé að fjölga leikskólakennurum og hafi lengi verið. „Leikskólastigið hefur þróast hratt sem skólastig. Ákvarðanir samfélagsins um að taka sífellt inn yngri og yngri börn án þess að hugsa málið fyllilega til enda hefur aukið á vandann, aukið mönnunarþörf og hægt á hlutfallslegri fjölgun leikskólakennara þrátt fyrir mikla fjölgun í leikskólakennaranámi undanfarin ár,“ segir í færslu félagsins.
Vöxtur leikskólastigsins of hraður
Í færslunni segir enn fremur að starfsfólki við uppeldi og menntun í leikskólum hafi fjölgað um 3.000 í 6.000 á árunum 1998 til 2019.
„Félag leikskólakennara þreytist ekki að benda á að of hraður vöxtur leikskólastigsins er helsta ástæða þess að ekki hefur tekist að fjölga leikskólakennurum hlutfallslega á þessu tímabili. Sveitarfélögin verða að fara að taka þau varnaðarorð alvarlega,“ segir í færslu félagsins.
Reykjavíkurborg er um þessar mundir með verkefni í gangi sem kallað er Brúum bilið, en það felst fyrst og fremst í uppbyggingu nýrra leikskóla. Markmiðið er að hægt verði að bjóða öllum börnum 12 mánaða og eldri leikskólavist í höfuðborginni. Í tillögum frá skóla- og frístundasviði borgarinnar sem voru til umræðu í borgarráði í gær sagði að gert væri ráð fyrir mikilli fjölgun leikskólaplássa næstu árin – og að það fæli í sér að fjölga þyrfti starfsmönnum á leikskólum um 250-300 næstu 3-4 árin.
Það væri því „mat mannauðsþjónustu og leikskólaskrifstofu skóla- og frístundasviðs og mannauðs- og starfsumhverfissviðs borgarinnar að gera þurfi meira en í meðalári til að styðja leikskóla í ráðningar- og mannauðsmálum.“
Sú tillaga að búa til Tupperware píramída hvatningu vegna ráðninga starfsfólks í leikskóla er langt því frá líkleg að...
Posted by Félag leikskólakennara on Friday, January 7, 2022