„Ég hélt ekki að ég ætti eftir að upplifa þann dag að stéttarfélag segði upp öllu starfsfólki sínu á einu bretti.“
Þetta segir Drífa Snædal forseti ASÍ í stöðuuppfærslu á Facebook í dag. Vísir greindi frá því í gærkvöldi að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefði lagt til á stjórnarfundi félagsins að öllu starfsfólki Eflingar yrði sagt upp störfum. Tillagan var lögð fram og samþykkt af átta manna meirihluta B-lista undir forystu Sólveigar Önnu.
Drífa segir í stöðuuppfærslunni að þetta hafi ekki gerst áður hér á landi og henni til efs að til sambærilegra aðgerða hafi verið gripið nokkurs staðar á Norðurlöndunum eða í öðrum löndum með frjálsa og skipulagða verkalýðshreyfingu.
„Hópuppsagnir að nauðsynjalausu eru ekkert annað en aðför að réttindum launafólks og ganga gegn því sem verkalýðshreyfingin stendur fyrir: Atvinnu- og afkomuöryggi.
Á vinnustaðnum ríkir nú upplausn og alveg ljóst að mikil reynsla og þekking hverfur úr húsi. Þekking á túlkun kjarasamninga, greiðslum úr sjúkrasjóðum, fræðslusjóðum, úthlutun orlofshúsa, ráðgjöf um starfsendurhæfingu, innheimtu vangoldinna launa og allt annað sem stéttarfélög vinna að dags daglega. Félagsfólk Eflingar sem treystir á aðstoð síns stéttarfélags situr uppi með laskað félag. Við myndum fordæma öll fyrirtæki sem stæðu fyrir slíkum gjörðum,“ skrifar hún.
Drífa hvetur að lokum þá stjórnarmenn sem samþykktu tillöguna að endurskoða ákvörðunina. Hún segir að ASÍ muni taka málið fyrir á sínum vettvangi.
Ég hélt ekki að ég ætti eftir að upplifa þann dag að stéttarfélag segði upp öllu starfsfólki sínu á einu bretti. Þetta...
Posted by Drífa Snædal on Tuesday, April 12, 2022
Mun ekki tjá sig á meðan samráð stendur yfir
Stjórn Eflingar samþykkti í gær tillögu um hópuppsögn vegna breytinga á ráðningarkjörum allra starfsmanna skrifstofu félagsins. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans er verið að taka á ósamræmi og úreltum venjum í starfskjörum og leggja grunn að jafnlaunavottun. Einnig verða gerðar breytingar á mönnun, verkaskiptingu og hæfniskröfum starfsmanna.
Öllum launuðum starfsmönnum félagsins verður sagt upp en þeir eru um 45 til 50 eftir því hvernig störfin eru skilgreind. Allir starfsmennirnir verða beðnir að vinna uppsagnarfrestinn og allir núverandi starfsmenn verða hvattir til að sækja um. Samkvæmt heimildum Kjarnans eru engar undantekningar á þessum fyrirmælum þannig að starfsmannahópinn verði ekki dreginn í dilka. Öll störfin verða jafnframt auglýst.
Fundað var með tveimur trúnaðarmönnum starfsfólks í gær strax eftir að stjórn samþykkti tillöguna og stendur nú yfir samráð við þá, samkvæmt heimildum Kjarnans. Sólveig Anna hefur ekki tjáð sig opinberlega um málið en samkvæmt upplýsingum Kjarnans ætlar hún ekki að tjá sig um málið á meðan samráðið stendur yfir en samkvæmt lögum á að ríkja trúnaður um slíkt samráð og því þarf að ljúka áður en hægt er að framkvæma uppsagnir.