Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar segir að það sé rangt sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir núverandi formaður flokksins sagði við mbl.is fyrr í dag, að hann hefði hafnað því að taka 2. sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.
„Þvert á móti féllst ég á þá beiðni formannsins,“ segir Benedikt, en útskýrir síðan, í færslu á Facebook, að hann hafi talið það „eðlilegt og nauðsynlegt að áður yrði gert út um þau leiðindamál sem hófust á ákvörðun uppstillingarnefndar flokksins að bjóða mér neðsta sæti listans.“
Benedikt óskaði þannig eftir því að fá afsökunarbeiðni frá þeim sem hefðu komið fram við hann með „óviðurkvæmilegum hætti“ í þessu máli.
„Ég tók fram að þetta væri einungis til þess að ljúka þessum málum af minni hálfu og leggja grunn að góðu samstarfi. Ég myndi ekki gera þær afsakanir opinberar. Þorgerður svaraði eftir umhugsun að slík persónuleg afsökunarbeiðni væri ekki í boði. Því fór sem fór,“ segir Benedikt í færslu sinni á Facebook.
Hann segist hafa átt ýmis samtöl við formann flokksins, en þau hafi verið sammála um að hafa öll samskipti þeirra á milli trúnaðarmál. „Ástæða þess að ég tala nú um þessi mál er að Þorgerður kýs að ræða þau opinberlega,“ skrifar Benedikt.
Í viðtali við mbl.is í dag sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir að Benedikt hefði ekki þegið sætið, eftir að hafa verið boðið það. Ekki sagði þar að hann hefði þáð boðið, en gert kröfu um afsökunarbeiðni, eins og hann sjálfur segir frá.
„Áður en uppstillingarnefndin skilaði inn lista var rætt við Benedikt og honum boðið annað sæti í öðru Reykjavíkurkjördæminu sem hann þáði ekki,“ sagði Þorgerður Katrín við mbl.is.
Formaður Viðreisnar segir á mbl.is að ég hafi hafnað 2. sæti á lista flokksins. Þetta er rangt. Þvert á móti féllst ég á...
Posted by Benedikt Jóhannesson on Thursday, May 27, 2021