Varnarmálaráðherra Bretlands bauð Íslandi að gerast aðili að samhæfðum viðbragðssveitum Breta, Joint Expeditionary Force (JEF), með bréfi til Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra 15. september í fyrra. Utanríkisráðherra tilkynnti síðan Bretum að Ísland hefði þegið boðið með svarbréfi til breska varnarmálaráðherrans þann 11. janúar.
Þetta kemur fram í svari frá utanríkisráðuneytinu við fyrirspurn Kjarnans um aðild Íslands að JEF, sem tilkynnt var um í síðustu viku. Ísland er fyrsta ríkið sem bætist inn í þennan tíu ríkja samstarfsvettvang sem Bretar leiða frá því árið 201, er Svíþjóð og Finnland skrifuðu undir samkomulag um að gerast aðilar að sameiginlegu viðbragðssveitunum.
Kjarninn spurði ráðuneytið hvenær pólitísk ákvörðun hefði verið tekin um að gerast aðilar að þessum samstarfsvettvangi og hvenær boð um inngöngu hefði borist.
Til stendur að borgaralegur sérfræðingur frá Íslandi starfi á vettvangi JEF þegar fram í sækir, en í svari ráðuneytisins við spurningu um hvað slíkur sérfræðingur muni fást við segir að starfslýsing hafi ekki enn verið mótuð.
Í svarinu kemur einnig fram að varnarmálafulltrúi við sendiráð Íslands í London muni sinna samstarfinu fyrir Íslands hönd samhliða öðrum verkefnum, fyrst um sinn.
Auk Bretlands, sem leiðir sameiginlegu viðbragðssveitirnar, eru Danmörk, Eistland, Noregur, Finnland, Lettland, Litháen, Holland og Svíþjóð aðilar að Joint Expeditionary Force, ásamt Íslandi.
Fyrsta formlega verkefni JEF var í mars
Joint Expeditionary Force er, eins og Kjarninn fjallaði um á sunnudaginn, hugsað sem vettvangur fyrir samvinnu Breta og vinaþjóða í hernaði og öðrum verkefnum. Í tilkynningu bresku ríkisstjórnarinnar um aðild Íslands sagði að með JEF sé sérstök áhersla lögð á norðurslóðir, Norður-Atlantshaf og Eystrasaltið, þar sem sameiginlegu viðbragðssveitirnar geti stutt við „fælingarstellingar“ einstaka ríkja og Atlantshafsbandalagsins.
Hugsunin er sú að samstarfsríkin geti, ef þau vilji leggja Bretum lið í einhverjum verkefnum, komið hratt að málum með sínar eigin sveitir. JEF getur bæði gripið til aðgerða með eða óháð Atlantshafsbandalaginu. Dæmi sem stundum hefur verið tekið um hvernig JEF geti starfað er það hvernig ríki sem síðar urðu hluti af þessu samstarfi studdu við aðgerðir Breta er ebólufaraldur braust út í Vestur-Afríku árið 2014.
Fyrsta formlega verkefni sameiginlegu viðbragssveitanna var hins vegar í mars á þessu ári, en þá fóru þrjú skip úr breska flotanum inn í Eystrasaltið þar sem slógust í eftirlitsferð með skipum úr flotum Eista, Letta og Litháa og æfðu samvinnu.
Við þetta tilefni var haft eftir Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands, í tilkynningu ráðuneytis hans að aðgerðin í Eystrasaltinu væri skýrt dæmi um getu sameiginlegu viðbragðssveitanna. Verið væri að tryggja að bresk skip og mannskapurinn um borð væri reiðubúinn undir að takast á við krefjandi aðstæður við hlið bandamanna frá Eistlandi, Lettlandi og Litháen.