Af nýrri rannsókn á sýn ferðaþjónustunnar til nýtingar hálendisins „má vera ljóst að ferðaþjónustan er alls ekki einróma varðandi það hvernig best er að nýta miðhálendið,“ segja höfundar í samantekt á niðurstöðum. „Má ætla að sjónarmiðin stjórnist meðal annars af tíðarandanum og þeirri orðræðu sem er í gangi í þjóðfélaginu, sem og ólíkri náttúrusýn fólks almennt og hugmyndum um hvort eigi að nýta náttúruna af hófsemd eða af áfergju. Almennt má þó segja að ferðaþjónustan telji miðhálendið mikilvæga auðlind fyrir greinina og til að svo verði áfram verði að nýta það og byggja þar upp innviði af hófsemd, virðingu og skynsemi.“
Aðalhöfundur rannsóknarinnar er Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands og það er land- og ferðamálafræðistofa líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands sem gefur hana út. Rannsóknin var styrkt af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og verkefnastjórn 4. áfanga rammaáætlunar.
Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á sýn ferðaþjónustunnar á nýtingu miðhálendisins. Annars vegar var gerð netkönnun meðal allra ferðaskrifstofa og ferðasala dagsferða hér á landi sem eru með leyfi frá Ferðamálastofu og fengust svör frá 382 aðilum sem er um 40 prósent svarhlutfall. Hins vegar voru tekin viðtöl við 47 manns sem starfa hjá ferðaþjónustufyrirtækjum víðs vegar um landið. Af þeim sem tóku þátt í netkönnuninni störfuðu 59 prósent hjá fyrirtækjum sem skipulögðu ferðir á miðhálendinu og algengast var að þeir byðu upp á jeppaferðir.
Niðurstöðurnar sýndu að flestir ferðaþjónustuaðilar, jafnvel þeir sem bjóða ekki upp á ferðir á hálendinu, töldu miðhálendið hafa mikið aðdráttarafl fyrir viðskiptavini sína. Aðdráttaraflið var fyrst og fremst talið felast í náttúrulegu yfirbragði svæðisins, ósnortinni náttúru, víðernum, takmörkuðum mannvirkjum og fámenni. Jafnframt kom fram að margir töldu miðhálendið ekki eiga að vera fyrir hvaða ferðamenn sem er heldur sé það meira „spari“ (exclusive) áfangastaður fyrir þá sem gera miklar kröfur til umhverfisins og eru tilbúnir til að leggja á sig að ferðast um erfiða vegi og sætta sig við takmarkaða þjónustu. Meirihluti svarenda netkönnunarinnar taldi einnig að hálendið væri mikilvægt fyrir íslenska ferðaþjónustu og að gildi þess myndi aukast enn frekar á næstu árum. Könnunin leiddi jafnframt í ljós að suðurhluti miðhálendisins, sér í lagi Landmannalaugar og Þórsmörk, er mest nýttur af fyrirtækjunum en einnig eru Kerlingarfjöll, Langjökull, Askja og Vatnajökull mikið nýtt.
Almennt töldu svarendur að uppbygging innviða á miðhálendinu ætti að vera hófleg og í sátt við náttúruna. Viðmælendum fannst mikilvægast að fjölga salernum og merktum gönguleiðum, sérstaklega á fjölsóttum ferðamannastöðum. Rúmlega 60 prósentum þótti æskilegt að fjölga fjallaskálum. Um helmingur taldi núverandi fjölda gestastofa, veitingasölu og hótela á miðhálendinu viðeigandi. Um 20 prósent töldu að fjölga mætti hótelum á hálendinu. Aftur á móti taldi fjórðungur að hótel á miðhálendinu ættu að vera færri en nú er.
Í sérstökum hluta netkönnunarinnar voru svarendur beðnir um að tilgreina hvort eða hvaða einstök svæði innan hálendisins þyrftu á frekari innviðum að halda. Þátttakendur voru almennt þeirrar skoðunar að innviðir á miðhálendinu ættu að vera takmarkaðir og einfaldir. Fyrst og fremst var talið að bæta þyrfti innviði á vinsælum ferðamannastöðum og voru Hveravellir, Askja, Landmannalaugar, Þjórsárdalur, Sprengisandur og Lónsöræfi sérstaklega nefnd.
Vondir vegir skapa óbyggðarupplifun
Um helmingur svarenda taldi mikilvægt að vegir á hálendinu fengju betra viðhald. Um þriðjungur taldi að Kjalvegur og Sprengisandsleið ættu að vera í núverandi ástandi og tæpur helmingur taldi æskilegt að Fjallabaksleið og aðrir vegir á miðhálendinu væru áfram eins og þeir eru. Fáir vilja uppbyggða vegi eða bundið slitlag á hálendinu. Var það annars vegar vegna þess að „vondir vegir“ sköpuðu hluta af óbyggðaupplifuninni sem ferðamenn eru að sækjast eftir og hins vegar vegna þess að vondir vegir takmarka þann fjölda sem kemur inn á svæðið. Tæp 60 prósent töldu jafnframt mikilvægt að takmarka umferð ferðamanna um miðhálendið en skiptar skoðanir voru með hvaða hætti það ætti að gera.
Um helmingur svarenda taldi að núverandi virkjanir á hálendinu hefðu haft bæði jákvæð og neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna. Jákvæðu áhrifin væru bætt aðgengi að svæðum vegna nýrra eða bættra vega sem gerðu ferðalög að þeim auðveldari en áður. Neikvæðu áhrifin væru hins vegar þau að mannvirkin dragi úr aðdráttarafli svæða og geti því haft neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna.
Almennt töldu viðmælendur að frekari virkjanir hér á landi ætti heldur að reisa á láglendi en á hálendinu.
Vilja vera með í ráðum
Niðurstöður netkönnunarinnar leiddu í ljós að mörgum ferðaþjónustuaðilum, eða um 80 prósent, fyrst og fremst þeim sem nýta miðhálendið í starfsemi sinni, fannst mikilvægt að vera hafðir með í ráðum um skipulag og stjórnun svæðisins til framtíðar. Skiptar skoðanir séu meðal ferðaþjónustunnar um tillögur stjórnvalda um stofnun miðhálendisþjóðgarðs þar eð um 45 prósent svarenda netkönnunar voru andvígir tillögunni en um 40 prósent studdu hana. Þeir sem nýta miðhálendið í starfsemi sinni voru neikvæðari í garð tillögunnar en þeir sem nýta það ekki. Ýmis atriði mótuðu afstöðu þátttakenda til miðhálendisþjóðgarðs, sérstaklega hvernig uppbyggingu innviða yrði háttað, hvort aðgangur að miðhálendinu yrði að einhverju leyti takmarkaður og hver færi með skipulagsvaldið.
Einnig kom skýrt fram að svarendur þekktu misvel til tillögunnar og voru uppi ýmsar hugmyndir um hvaða áhrif þjóðgarðurinn myndi hafa á íslenska ferðaþjónustu, hugmyndir sem oft stönguðust á. Til að mynda töldu sumir að stofnun þjóðgarðsins myndi leiða til þess að aðgangur að hálendinu yrði heftur en aðrir töldu aftur á móti að hann myndi batna. „Ljóst er því að skýra má betur fyrir ferðaþjónustunni hvaða afleiðingar stofnun miðhálendisþjóðgarðs myndi raunverulega hafa á það hvernig greinin getur nýtt svæðið fyrir starfsemi sína,“ segir í samantekt rannsakenda.