Hvít-Rússi neitaði að fara heim, bandarískir skylmingamenn settu upp bleikar grímur, Taívani ítrekaði þjóðerni sitt, bandarískur kúluvarpari myndaði tákn með höndunum á verðlaunapalli og kínverskir hjólreiðamenn báru barmnælur með andliti Maós Zedong.
Alþjóða ólympíunefndin hefur haft í nógu að snúast á leikunum í Tókýó við að rannsaka atvik sem mögulega gætu brotið í bága við bann við pólitískum og trúarlegum áróðri. Nokkuð var slakað á þessari reglu áður en leikarnir hófust. Keppendur mega t.d. tjá skoðanir sínar á blaðamannafundum í tengslum við leikana en áróður má ekki viðhafa á verðlaunapalli.
Nokkur atvik af pólitískum toga, þótt ólík séu, hafa komið upp á Ólympíuleikunum í Tókýó og hér verður farið í stuttu máli yfir fimm þeirra.
Hvítrússneski spretthlauparinn
Krystsina Tsimanouskaja átti að keppa í 200 metra hlaupi í Tókýó. En þegar á leikana var komið tilkynnti þjálfarinn henni með stuttum fyrirvara að hún ætti einnig að keppa í boðhlaupi sem hún hafði ekki æft fyrir. Þessu mótmælti Tsimanouskaja og birti m.a. færslu um það sem hún sagði „vanrækslu“ þjálfarans á Instagram. Færslan olli reiði í hvítrússnesku ólympíunefndinni sem ákvað að senda hana þegar í stað heim – daginn áður en hún átti að keppa í 200 metra hlaupinu.
Tsimanouskaju var hótað og að auki ráðlagði fjölskyldan í Hvít-Rússlandi henni frá því að snúa til baka. Það væri einfaldlega ekki óhætt enda fjölmörg dæmi um að íþróttafólki hafi verið refsað fyrir mótmæli, það jafnvel fangelsað. Hún neitaði því að fara um borð í flugvélina og bað um aðstoð alþjóða ólympíunefndarinnar sem kom henni í öruggt skjól. Daginn eftir fór hún í pólska sendiráðið í Tókýó og bað um vernd. Hana fékk hún og um miðja síðustu viku var hún komin til Póllands þar sem hún hefur fengið dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Alþjóðlega ólympíunefndin hefur í kjölfarið rekið tvo hvítrússneska þjálfara úr ólympíuþorpinu í Tókýó fyrir að reyna að þvinga Tsimanouskaju til að snúa til Hvíta-Rússlands. Málið allt er svo enn í rannsókn hjá nefndinni.
Taívanski badmintonleikarinn
Eftir að Taívan hafði betur gegn Kína í tvíliðaleik karla í badminton á leikunum í Tókýó skrifaði gullverðlaunahafinn Wang Chi-Lin á Facebook: „Ég er Taívani.“ Það kann að hljóma nokkuð sjálfsögð yfirlýsing en er hins vegar hápólitísk. Taívanir keppa undir nafninu Kínverska Tapei að kröfu kínverskra stjórnvalda sem segja Taívan hluta af „sameinuðu Kína“.
Taívan hefur aldrei staðið sig jafnvel á ólympíuleikum og nú. Taívönsku íþróttamennirnir hafa þegar unnið til tíu verðlauna. Þessi góði árangur hefur enn og aftur vakið upp deilur um þá stefnu alþjóðlegra stofnanna á borð við ólympíunefndina að flokka Taívan sem kínverskt svæði. Í frétt Reuters segir að aðeins fimmtán ríki viðurkenni Taívan sem sjálfstætt ríki.
Wang hefur fengið yfir milljón „læk“ á færsluna og í athugasemdum við hana má sjá yfirlýsingar á borð við „Taívan er Taívan“ og „Team Taivan“.
Bandarísku skylmingamennirnir
Þegar bandaríska karlaliðið í skylmingum mætti til keppni á ólympíuleikvanginum í lok júlí báru þrír af fjórum keppendum þess bleikar andlitsgrímur. Sjá fjórði var með svarta.
Með þessu vildu þremenningarnir sýna stuðning við þrjár konur sem ásakað hafa liðsfélaga þeirra, Alen Hadzic, um kynferðisbrot. Upp um málið komst rétt eftir að hann var valinn í liðið en hin meintu brot áttu sér stað á árunum 2013-2015. Að minnsta kosti tvær kvennanna stunduðu skylmingar.
Hadzic neitar sök. Óháð rannsóknarnefnd, U.s. Center for SafeSport, komst að þeirri niðurstöðu að vísa ætti Hadzic úr keppni en hann áfrýjaði þeirri niðurstöðu og hafði betur.
Jackie Dubrovich, sem keppti í kvennaliði Bandaríkjanna í skylmingum á Ólympíuleikunum í Tókýó, fagnaði mótmælaaðgerð þremenninganna og gagnrýndi harðlega kerfi og fólk sem hlífi gerendum svo þeir þurfi ekki að taka ábyrgð á gerðum sínum. „Kvenkyns íþróttamenn nutu ekki verndar og öryggi okkar var ekki talið mikilvægt.“
Þrátt fyrir að bandaríska ólympíunefndin hafi ákveðið að leyfa Hadzic að keppa greip hún til alls konar kúnsta til að halda honum frá öðrum keppendum. Hann flaug t.d. ekki í sama liði og þeir til Tókýó og fékk ekki að dvelja í ólympíuþorpinu líkt og hinir. Í fréttaskýringu New York Times um málið segir að þessar aðgerðir ólympíunefndarinnar varpi ljósi á „vandræðagang“ hennar við að takast á við ásakanir um kynferðisbrot innan íþrótta eftir að læknir fimleikalandsliðanna til fjölda ára, Lawrence Nassar, var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að brjóta á hópi fimleikastúlkna og kvenna.
Bandaríski kúluvarparinn
Þegar bandaríski kúluvarparinn Raven Saunders steig á verðlaunapall í Tókýó til að taka við silfurverðlaunum í greininni myndaði hún X með höndunum yfir höfði sér. Saunders er svört og samkynhneigð og hefur auk þess glímt við geðræna vanheilsu. Hún sagði merkjasendinguna tákna „gatnamótin þar sem allt kúgað fólk kemur saman“.
Uppákoman vakti mikla athygli og alþjóðlega ólympíunefndin hóf að skoða hvort að hún bryti í bága við bann við pólitískum áróðri á verðlaunapöllunum. Niðurstaðan kom nokkrum dögum seinna: Atvikið mun engar afleiðingar hafa fyrir Saunders.
Sjálf segist hún hafa viljað sýna ólíkum samfélögum sem hún tilheyrir samstöðu og að hún vilji nota árangur sinn og þá athygli sem honum fylgi til að vekja athygli á málstaðnum. „Við vitum að það er margt fólk sem lítur upp til okkar og það vill sjá hvort að við höfum eitthvað að segja og hvort að við tölum máli þeirra.“
Kínversku hjólreiðakonurnar
Lið Kína í einni af hjólreiðakeppnum Ólympíuleikanna í Tókýó bar brjóstnælur með Maó Zedong, fyrrverandi leiðtoga Kína og stofnanda kínverska kommúnistaflokksins, er það tók við gullverðlaunum sínum. Konurnar tvær, Bao Shanju and Zhong Tianshi, rétt mörðu þýska liðið í spretthjólreiðum innanhúss. Er þær komu á verðlaunapallinn mátti sjá skuggamynd af Maó formanni nælda í treyjur þeirra.
Alþjóðlega ólympíunefndin sagðist þegar í stað ætla að skoða hvort að uppátækið bryti í bága við bann við pólitískum áróðri á verðlaunapalli leikanna. Óskað var eftir svörum frá kínversku ólympíunefndinni. „en þeir hafa líka sagt að þetta muni aldrei gerast aftur,“ hefur Reuters-fréttastofan eftir talsmanni alþjóðlegu nefndarinnar.
Í frétt Guardian í gær kom fram að ákveðið hefði verið að sleppa hjólreiðakonunum með áminningu.