Novator, fjárfestingafélag sem er leitt af Björgólfi Thor Björgólfssyni, hafði lánað fyrrverandi eiganda útgáfufélags DV og tengdra miðla yfir einn milljarð króna um síðustu áramót. Lánveitingarnar hófust haustið 2017 þegar félagið, Dalsdalur ehf., keypti fjölmiðlanna.
Lánin, sem eru vaxtalaus og ekki með tilgreindan gjalddaga, eru ólíkleg til að innheimtast í ljósi þess að útgáfufélagið, sem ber nafnið Frjáls fjölmiðlun, var rennt inn í Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins, í fyrra vegna þess að reksturinn stóð ekki undir sér og félagið var á fallandi fæti.
Sá sem kom fram fyrir hönd Dalsdals opinberlega, og er skráður eigandi þess félags, er lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson. Hann vildi aldrei upplýsa um hvaðan fjármagn til að kaupa og reka fjölmiðlanna í miklum taprekstri hefði komið.
Á endanum var það Samkeppniseftirlitið sem opinberaði hver hefði fjármagnað kaupin og tapreksturinn. Það reyndist vera Novator. Björgólfur Thor, sem er einn ríkasti maður heims, hefur aldrei upplýst af hverju hann ákvað að setja einn milljarð króna í þetta verkefni. Kjarninn sendi fyrirspurnir á þáverandi talsmanns hans á árunum 2018 og 2019 og spurði um orðróm þess efnis að Björgólfur Thor fjármagnaði DV og tengda miðla, en þeim orðrómi var ítrekað neitað.
Fjölmiðlanefnd kallaði líka eftir upplýsingum um það til að meta raunveruleg yfirráð yfir einu stærsta fjölmiðlafyrirtæki á Íslandi en þær fyrirspurnir voru einfaldlega hunsaðar.
Hluti af gömlum erjum
Kjarninn fjallaði ítarlega um málið í fréttaskýringu í maí í fyrra. Þar var meðal annars greint frá því að haustið 2017 hafi verið mikil dramatík á íslenskum fjölmiðlamarkaði.
Mest var hún í kringum Pressusamstæðu Björns Inga Hrafnssonar, sem hafði árin á undan farið mikinn og sankað að sér allskyns fjölmiðlum oft með skuldsettum yfirtökum.
Í apríl 2017 var tilkynnt um að hlutafé Pressunnar yrði aukið um 300 milljónir króna og að samhliða myndi Björn Ingi stíga til hliðar. Sá aðili sem ætlaði að koma með mest fé inn í reksturinn var Fjárfestingafélagið Dalurinn, félag í eigu Róberts Wessman, Árna Harðarsonar og þriggja annarra manna, sem höfðu áður lánað Birni Inga. Með þeim var hópur annarra fjárfesta og svo virtist sem Pressusamstæðunni væri borgið.
Þessi hópur hefur eldað grátt silfur saman við Björgólf Thor Björgólfsson árum saman, eða frá því að Róbert og Árni störfuðu hjá Actavis þegar Björgólfur Thor átti það félag að mestu.
Í byrjun september 2017 var tilkynnt að Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður hefði ásamt hópi fjárfesta keypt flesta lykilmiðla Pressusamstæðunnar með hlutafjáraukningu. Um var að ræða DV, DV.is, Pressuna, Eyjuna, Bleikt, ÍNN og tengda vefi. Eftir í gamla eignarhaldsfélaginu voru skildir héraðsfréttamiðlar. Forsvarsmenn Dalsins sögðu að þeir hefðu ekki vitað um þennan gjörning fyrr en hann var afstaðinn. Verið væri að selja undan þeim eignir sem þeir ættu með réttu.
til að nudda salti í sárin nefndi Sigurður G. yfirtökufélagið, sem hirti eignirnar af Dalnum, Dalsdal ehf.
Rúmum tveimur árum síðar var ævintýrið úti og fjölmiðlunum var rennt inn í Torg. Þá hafði útgáfufélag DV og tengdra miðla tapað mörg hundruð milljónum króna.
Engar eiginlegar eignir eftir
Eina eign Dalsdals er útgáfufélagið Frjáls fjölmiðlun, sem hefur selt allar eignir sínar til Torgs. Því eru engar eiginlegar eignir eftir inni í Dalsdal til að greiða skuldir félagsins við Novator, sem stóðu í rúmlega einum milljarði króna í lok árs í fyrra.
Í frétt Stundarinnar um málið sem birt var fyrr í dag er haft eftir Sigurði G. að unnið sé að því að gera Dalsdal upp. Hann muni ekki hvað kaupverðið á DV og tengdum miðlum hafi verið en að söluverðið til Torgs hafi verið ágætt.
Alls lánaði Novator Dalsdal 80 milljónir króna á árinu 2020 þrátt fyrir að búið væri að selja fjölmiðla félagsins til Torgs.