Joe Biden Bandaríkjaforseti mun á næstu dögum kynna áætlanir um miklar skattahækkanir á ríkustu hópana í bandarísku samfélagi til þess að standa straum af kostnaði við félagslegar aðgerðir af ýmsu tagi.
Tillögur Bidens, sem New York Times sagði fyrst frá á fimmtudag, fela í sér að fjármagnstekjuskattur þeirra sem þéna yfir 1 milljón dala, jafnvirði 126 milljóna króna, hækki upp í 39,6 prósent.
Í dag tekur alríkið 20 prósent skatt af fjármagnstekjum þessa hóps og því væri um hartnær tvöföldun að ræða, ef tillögur Bidens færu í þessari mynd í gegnum Bandaríkjaþing.
Til viðbótar bætist svo líka 3,8 prósenta sérstakur skattur á hagnað af fjárfestingum og því gæti fjármagnstekjuskattur alríkisstjórnarinnar í ákveðnum tilfellum farið upp í 43,4 prósent.
Sum ríki Bandaríkjanna leggja að auki á sína eigin fjármagnstekjuskatta, misháa. Að þeim meðtöldum gæti fjármagnstekjuskattur þeirra tekjuhæstu í Kaliforníuríki farið upp í 56,7 prósent, samkvæmt frétt Bloomberg.
Biden er sömuleiðis sagður ætla að leggja til að tekjuskattsprósentan í efsta þrepi fari úr 37 prósentum og aftur upp í 39,6 prósent. Það er sama prósenta og var á efsta þrepinu (af alls sjö þrepum) í bandaríska tekjuskattskerfinu þegar Donald Trump tók við sem forseti Bandaríkjanna í upphafi árs 2017.
Búist er við að Biden kynni þessar skattahækkunartillögur, sem eru hluti af fjármögnun fjölskylduáætlunar hans, American Families Plan, í ræðu á Bandaríkjaþingi á miðvikudaginn í næstu viku, 28. apríl.
Fjármálaheimurinn hefur ekki trú á því að 39,6 prósent standi
Titrings varð vart á hlutabréfamörkuðum í Bandaríkjunum eftir að fréttir fóru að birtast um áætlanir Bidens á fimmtudag.
Í frétt Financial Times eru tekin saman neikvæð viðbrögð hinna ýmsu fjárfesta við tíðindunum, en þar segir að nú sé búist við því að margir fjárfestar selji hlutabréf sem þeir haldi á til að tryggja að söluandvirði þeirra falli ekki undir hina boðuðu hærri skattprósentu.
Ekki hefur hins vegar neitt komið fram um það hvenær ráðgert er að láta boðaðar breytingar taka gildi, hvort það verði frá og með maímánuði eða síðar.
Í frétt FT er einnig vitnað til manns að nafni Brad Dillon, sem starfar sem auðráðgjafi hjá fyrirtækinu UBS Global Wealth Management. Hann segist ekki hafa trú á því að þessi mikla hækkun á fjármagnstekjuskatti fari óbreytt í gegnum þingið.
Í samantekt Reuters á viðbrögðum úr fjármálaheiminum sjást svipuð viðhorf, ýmsir virðast telja að með því að setja fram tillögur að svona miklum skattahækkunum sé Biden að búa sér til samningsstöðu inn í þingið.
Fjárfestingarbankinn Goldman Sachs birti sömuleiðis í gær greiningu sína á málinu. Ólíklegt væri að tillögur Bidens í þeirri mynd sem fjallað hefði verið um færu óbreyttar í gegn um þingið, þar sem demókratar hafa tæpan meirihluta í öldungadeildinni. Líklegra væri að fjármagnstekjuskatturinn á tekjuhæstu hópana yrði hækkaður upp í 28 prósent.