Fjármálaeftirlitið hefur gert athugasemdir við nokkra þætti í starfsemi tveggja lífeyrissjóða, Íslenska lífeyrissjóðsins og Eftirlaunasjóði FÍA, eftir að hafa fyrr á árinu ráðist í vettvangsathuganir hjá báðum sjóðunum, meðal annars til þess að kanna þætti tengda útvistun á rekstri sjóðanna.
Íslenski lífeyrissjóðurinn er rekinn af Landsbankanum og Eftirlaunasjóður FÍA (Félags íslenskra atvinnuflugmanna) er rekinn af Arion banka.
Hjá báðum sjóðum gerir Fjármálaeftirlitið athugasemdir við það að sjóðirnir hafi ekki með fullnægjandi hætti greint og metið hugsanlega hagsmunaárekstra vegna útvistunar á innri endurskoðun sjóðsins til rekstraraðila hans.
Að auki eru gerðar athugasemdir við að skriflegir verkferlar vegna tilkynninga á frávikum í rekstri upplýsingakerfa sjóðanna voru ekki til staðar á þeim tíma sem athugunin var framkvæmd. Eftirlaunasjóður FÍA hefur þegar brugðist við þessu með viðunandi hætti, samkvæmt því sem segir í gagnsæistilkynningu Fjármálaeftirlitsins sem birt var í dag.
Seta framkvæmdastjóra á fundum endurskoðunarnefnda gegn lögum
Fjármálaeftirlitið gerir svo athugasemdir við það, hjá báðum sjóðum, að framkvæmdastjórar sjóðanna sætu alla fundi endurskoðunarnefndar lífeyrissjóðsins frá upphafi til enda.
Þetta telur Fjármálaeftirlitið að samrýmist ekki ákvæðum laga um ársreikninga.
Enn frekari athugasemdir hjá Íslenska
Í gagnsæistilkynningu frá Fjármálaeftirlitinu má sjá að gerðar voru fleiri athugasemdir við Íslenska lífeyrissjóðinn en Eftirlaunasjóð FÍA.
Fjármálaeftirlitið segir að hjá Íslenska hafi útvistunarstefnu skort á þeim tíma sem skoðunin átti sér stað, auk þess sem viðbúnaðarumgjörð til að bregðast við mögulegum áföllum upplýsingakerfa hafi ekki verið til staðar.
Þá segist Fjármálaeftirlitið hafa gert athugasemdir við það að fundargerðir sjóðsins voru ekki nægilega ítarlegar, auk þess sem greining á hagsmunaárekstrum vegna rekstrarfyrirkomulags sjóðsins hafi ekki verið til staðar.