Kúvending hefur orðið á viðhorfi bresku ríkisstjórnarinnar til hvalrekaskatts (e. windfall tax). Ráðherrar ríkisstjórnarinnar voru áður mótfallnir hugmyndum stjórnarandstöðuflokkanna um að leggja á sérstakan hvalrekaskatt á orkufyrirtæki en nú hefur Rishi Sunak, fjármálaráðherra Breta, tilkynnt að slíkur skattur verði lagður á. Sunak gerir ráð fyrir að skatturinn muni skila fimm milljörðum punda í ríkiskassann næsta árið, eða sem nemur rúmum 800 milljörðum króna. Sá peningur verður nýttur til að greiða hluta kostnaðar við fyrirhugaðan aðgerðarpakka sem ætlað er að styðja við breskar fjölskyldur.
Pakkinn felur í sér 400 punda niðurgreiðslu, um 65 þúsund krónur, á orkukostnaði allra heimila í Bretlandi en talið er að árleg útgjöld breskra heimila fyrir hita og rafmagn muni hækka um 800 pund í ár. Sú upphæð samsvarar um 130 þúsund krónum, hækkunin nemur því rúmum tíu þúsund krónum á mánuði að meðaltali. Að auki munu þau sem búa við lakari kjör fá styrk frá ríkinu sem nemur 650 pundum, rúmum 105 þúsund krónum, í tveimur greiðslum til að standa straum af hækkandi framfærslukostnaði. Alls munu um átta milljón fjölskyldur í Bretlandi fá slíkan styrk.
Mesta verðbólga í 40 ár
Líkt og áður segir voru stjórnarliðar í fyrstu andsnúnir hugmyndum stjórnarandstöðu um hvalrekaskatt. Haft er eftir Rishi Sunak í umfjöllun BBC að hans útfærsla á skattinum myndi „skattleggja óvæntan hagnað skynsamlega og hvetja til fjárfestinga.“ Skatturinn myndi nýtast til að styðja breskan almenning í baráttu sinni við hækkandi verðlag án þess að auka við skuldabyrði ríkisins. Verðbólga í Bretlandi hefur ekki mælst hærri í 40 ár en í apríl var hún níu prósent og hefur matvæla-, eldsneytis- og orkuverð hækkað umtalsvert á nýliðnum mánuðum. Á sama tíma skila þarlend olíu- og gasfyrirtæki methagnaði.
Boris Johnson forsætisráðherra hafði í upphafi sínar efasemdir um hvalrekaskatt, líkt og Sunak, og sagði að slíkur skattur gæti hindrað fjárfestingu fyrirtækja. Sunak hefur nú lagt til að 25 prósenta skattur leggist tímabundið á hagnað olíu- og gasframleiðenda. Aftur á móti stæði til að koma á ríflegum skattaafslætti vegna fjárfestinga. Fyrirtæki myndu því fá 90 prósent endurgreiðslu af fjárfestingum sínum, samkvæmt tillögum fjármálaráðherrans.
Skiptar skoðanir meðal bæði stjórnar- og stjórnarandstöðuþingmanna
„Olíu- og gasiðnaðurinn hagnast nú óvenjulega mikið, ekki vegna nýlegra breytinga í áhættusækni eða nýsköpun eða skilvirkni, heldur vegna hækkunar á hrávöruverði sem er drifin áfram af innrás Rússa að stórum hluta og því er ég fylgjandi því að koma á skynsamlegri skattlagningu á þennan óvenjulega hagnað,“ sagði Sunak í þinginu undir háværum frammíköllum þingmanna sem hafa skiptar skoðanir á málinu.
Stjórnarandstöðuþingmenn gagnrýna Sunak fyrir að ganga ekki lengra, sérstaklega þegar kemur að stuðningi við tekjulága. Samflokksmenn Sunaks eru einnig sumir hverjir efins, segja það ekki í anda Íhaldsflokksins að auka skattbyrði fyrirtækja. Sumir hafa gengið svo langt að kalla hvalrekaskattinn svívirðilegan. Fyrrum formaður flokksins, Sir Iain Duncan Smith, hefur aftur á móti tekið vel í hugmyndir Sunaks og sagt að meira þurfi að gera fyrir tekjulága þar í landi.
Fordæmi til staðar í Evrópu
Nú þegar hafa nokkur ríki Evrópu ákveðið að fara svipaða leið. Segja má að stjórnvöld á Spáni hafi tekið af skarið í september í fyrra þegar skattur var felldur niður af orkureikningum heimila vegna hækkandi orkuverðs. Sú aðgerð hefur í för með sér mikið tekjufall fyrir spænska ríkið en því er mætt með hvalrekaskatti sem lagður er á orkufyrirtæki sem hagnast á sífellt hækkandi orkuverði.
Svipaða sögu er að segja frá Ítalíu en forsætisráðherrann Mario Draghi hefur kynnt 14 milljarða evra, eða um 2000 milljarða króna, stuðningspakka til handa ítölskum fjölskyldum sem verður fjármagnaður með hækkun skattlagningar á hagnað orkufyrirtækja. Í öðrum löndum álfunnar á borð við Frakkland, Þýskaland, Holland, Pólland, Noreg og Svíþjóð hafa stjórnvöld reynt að koma til móts við fjölskyldur vegna hækkandi orkuverðs og verðbólgu.
Hvalrekaskattur komið til tals hér á landi
Ekki hefur verið talin þörf á því að komið sé til móts við íslensk heimili vegna hækkandi orkuverðs, enda hefur alþjóðleg hækkun orkuverðs minni áhrif á íslensk heimili en þau í öðrum Evrópulöndum, samkvæmt minnisblaði sem unnið var í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Það skýrist einkum af því að kynding hér á landi er almennt ekki háð olíu og gasi.
Engu að síður hafa hugmyndir um hvalrekaskatt komið til tals hér á landi. Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins sem jafnframt á sæti í ráðherranefnd um efnahagsmál, sagði í febrúar að hún vildi mögulega láta leggja hvalrekaskatt á ofurhagnað í sjávarútvegi og í bankakerfinu. „Ég tel óábyrgt að ríkissjóður borgi allan reikninginn fyrir faraldurinn og tel að bankarnir eigi að styðja við þau heimili og fyrirtæki, sér í lagi í ferðaþjónustu, sem koma einna verst út úr faraldrinum,“ sagði Lilja í samtali við Morgunblaðið í febrúar.
Nokkrum dögum síðar nefndi hún á Sprengisandi á Bylgjunni að hún vildi mögulega láta leggja á hvalrekaskatt. „Ef það er ofsagróði eða ofurhagnaður hjá einhverjum aðilum, þá eigum við að gera það. Ég er líka á þeirri skoðun að þetta ætti að eiga sér stað varðandi sjávarútveginn. Þar sem við sáum ofurhagnað í einhverjum greinum þá á að skattleggja það,“ sagði Lilja í þættinum.