Frá og með næstkomandi mánudegi, 10. maí, fara fjöldatakmarkanir úr 20 í 50 manns, sund- baðstaðir og líkamsræktarstöðva mega taka á móti 75 prósent af leyfilegum hámarksfjölda gesta, hámarksfjöldi þátttakenda í íþróttum og sviðslistum verður 75 í hverju hólfi eða á sviði og hámarksfjöldi gesta á sitjandi viðburðum fer úr 100 í 150 manns.
Þá verður opnunartími veitingastaða lengdur um klukkustund og þeim gert að vera tómir eftir klukkan 23. Þá verða líka gerðar ákveðnar tilslakanir á skólastarfi. Nýju reglurnar munu gilda í tvær vikur. Grímuskylda verður áfram við lýði með óbreyttum hætti.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti þessar breytingar á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Í lok síðasta mánaðar kynnti Svandís afléttingaráætlun varðandi sóttvarnaráðstafanir og samkomutakmarkanir. Þar kom fram að horft sé til þess að að öllum takmörkunum innanlands verði aflétt í lok júní, eða þegar um 75 prósent landsmanna yfir 16 ára aldri hafa fengið að minnsta kosti eina sprautu af bóluefni.
Samkvæmt þeim vegvísi var stefnt að því að hækka fjöldatakmarkanir upp í allt að 200 manns í byrjun maí, en sú dagsetning hefur ekki náðst. Í síðari hluta maí, þegar um 50 prósent landsmanna 16 ára og eldri á að vera orðinn bólusettur að öllu leyti eða hluta þá á að hækka markið upp í allt að þúsund manns og breyta tveggja metra reglunni í eins metra reglu.