Fjölmiðlanefnd hefur sætt nokkurri gagnrýni undanfarna daga, eftir að stofnunin birti í lok síðustu viku ákvarðanir þar sem, í fyrsta skipti, refsivendinum var beint að hlaðvarpsþáttum. Þrír hlaðvarpsþættir hafa núna í um það bil eitt ár verið með mál til meðferðar hjá nefndinni vegna ólögmætra auglýsinga – og nú liggja niðurstöðurnar ljósar fyrir.
Fótboltaspjallþátturinn Dr. Football var sektaður um hálfa milljón króna fyrir að sinna ekki skráningarskyldu sinni sem hlaðvarp og fyrir að auglýsa áfengi, en hlaðvarpsþættirnir Steve Dagskrá og Fantasy Gandalf, sem síðar fékk nafnið The Mike Show, sluppu við sektarákvarðanir af hálfu nefndarinnar, þrátt fyrir að hafa fengið ákúrur fyrir veðmála- og áfengisauglýsingar.
Í álitum nefndarinnar má lesa að það hafi verið þar sem þáttastjórnendur þeirra sýndu fjölmiðlanefnd meiri samstarfsvilja en Dr. Football, sem er haldið úti af Hjörvari Hafliðasyni, sparkspekingi, og hættu að birta þær auglýsingar sem fjölmiðlanefnd taldi í ósamræmi við lög.
Árslangur eltingaleikur
Kjarninn fjallaði um upphaf eltingaleiks fjölmiðlanefndar við þessi hlaðvörp síðasta haust, en þá höfðu forsvarsmenn þeirra allra fengið bréf með óskum um að þeir skráðu hlaðvarpsþættina sem fjölmiðla.
Þetta kom ýmsum spánskt fyrir sjónir, enda hefur fjölmörgum sjálfstæðum hlaðvarpsþáttum haldið úti hér á landi um hin ýmsu málefni og það var alveg nýtt að fjölmiðlanefnd væri að leggja þann skilning fram að þau féllu undir lög um fjölmiðla.
Hvenær verður hlaðvarp fjölmiðill, spurði Kjarninn fjölmiðlanefnd síðasta haust, og fékk þau svör að það „væri ekki þannig að öll hlaðvörp myndu teljast fjölmiðlar í skilningi laga um fjölmiðla“ en að fjölmiðlanefnd skoðaði hvert tilvik fyrir sig.
„Þegar lögin voru sett var ekki hægt að sjá fyrir þá þróun sem orðið hefur á hlaðvarpsmarkaðnum með tilkomu nýrrar tækni og miðlunarleiða. Hlaðvörp voru áður fyrr mun minni í sniðum og meira í líkingu við bloggsíður. Á síðustu árum hafa hlaðvörp hins vegar notið sífellt meiri vinsælda og stækkað í takt við það. Mörg þeirra hafa nú fjölda kostenda eða auglýsinga og þúsundir hlustana á hvern þátt,“ sagði í skriflegu svari Antons Emils Ingimarssonar, lögfræðings fjölmiðlanefndar, við fyrirspurn Kjarnans.
Fyrr á þessu ári setti fjölmiðlanefnd síðan upp sérstaka upplýsingasíðu á vef sínum, þar sem rakið hvað það sé sem geri sum hlaðvörp að fjölmiðlum og þar má sömuleiðis finna leiðbeiningar um skráningu hlaðvarpa hjá fjölmiðlanefnd.
Á þessum upplýsingavef segir að ef hlaðvarp uppfylli skilyrði laga um fjölmiðla og ef af því sé fjárhagslegur ávinningur, sé það „sterk vísbending um að skrá beri hlaðvarpið sem fjölmiðil hjá fjölmiðlanefnd.“
Fjölmiðlanefnd með sitt eigið hlaðvarp – þar sem rætt var um hlaðvörp
Í hlaðvarpsþætti á vegum fjölmiðlanefndar, sem birtist í septembermánuði, var fjallað um hlaðvörp. Þar ræddi Skúli B. Geirdal starfsmaður nefndarinnar við Halldóru Þorsteinsdóttur héraðsdómara og sérfræðing í fjölmiðlarétti um þetta form miðlunar. Hún sagði að hlaðvörp gætu talist fjölmiðlar rétt eins og útvarp, en meta þyrfti hvert dæmi fyrir sig.
„Þegar að við erum að skilgreina fjölmiðla almennt þá er miðað við að þar sé einhver tiltekin ritstjórn og þetta sem felst í þessum áþreifanlegu dæmum sem við höfum um fjölmiðla eins og til dæmis fréttaflutningur, stjórn á efninu sem er miðlað og það með reglulegri tíðni, útbreiðslu og dreifingu til manna. Ef við getum heimfært hlaðvarp undir þessi skilyrði þá er hlaðvarp ekkert minni fjölmiðill en útvarp,“ sagði Halldóra í þættinum.
Halldóra ræddi um að þörf væri á því að „mæta þessum nýju miðlum“ eins og hlaðvörp, en einnig samfélagsmiðla, með því að láta tilteknar reglur gilda um þessa nýju miðla. En um þetta eru skiptar skoðanir.
Mogginn spyr hvenær OnlyFans-stjörnur þurfi að skrá sig
Fjölmiðlanefnd hefur undanfarna daga fengið nokkuð harða gagnrýni fyrir ákvarðanir sínar í tengslum við hlaðvörpin.
Andrés Magnússon, blaðamaður á Morgunblaðinu og áður fjölmiðlarýnir á Viðskiptablaðinu, sagði nefndina vera „fífl“ í færslu á Twitter þar sem hann lét frétt um sektarákvörðunina á Dr. Football fylgja.
„Ógeðfelld eftirlitsstofnun, sem hvorki framfylgir né fer sjálf eftir þeim lögum sem hún á að starfa eftir. Það ætti enginn ærlegur fjölmiðlamaður að virða hana svars,“ skrifaði Andrés.
Í leiðara Morgunblaðsins í dag er einnig vikið að fjölmiðlanefnd og því haldið fram að það virðist ætlan nefndarinnar að fá öll hlaðvörð landsins til þess að skrásetja sig sem fjölmiðla, „með tilheyrandi ómaki, skriffinnsku og kostnaði.“ „Er næst á dagskrá að hinar holdlegu stjörnur OnlyFans skrái sig hjá Fjölmiðlanefnd með nákvæmri lýsingu á ritstjórnarstefnu og efnistökum?“ spurði Mogginn.
Úr öðrum áttum heyrast síðan þau viðhorf að það hafi verið tímabært að fjölmiðlanefnd stigi inn í sístækkandi hlaðvarpsmarkaðinn og sinnti eftirliti með áfengis- og veðmálaauglýsingum, enda er það eftir allt saman vilji stjórnvalda að slíkar auglýsingar séu bannaðar.
Telur að fjölmiðlanefnd mætti vera fjölmennari
Skúli Bragi Geirdal, sem er verkefnastjóri miðlalæsis hjá fjölmiðlanefnd, mætti í Bítið á Bylgjunni í morgun til þess að útskýra hvenær hlaðvarp yrði að fjölmiðli.
Þáttarstjórnendur spurðu Skúla meðal annars að því í viðtalinu hvort það væri nauðsynlegt að vera með fjölmiðlanefnd sem eftirlitsaðila á fjölmiðlamarkaði, en nauðsyn nefndarinnar er stundum dregin í efa af þeim sem finnst eftirlitið ganga úr hófi fram.
Skúli svaraði því játandi og sagði okkur skylt að vera með eftirlit með fjölmiðlum sökum þátttöku Íslands í EES. Hann gaf til kynna að hann teldi íslensku fjölmiðlanefndina jafnvel þurfa meiri mannskap til að rækja hlutverk sitt, miðað við stærð íslenska markaðarins.
„Við erum fimm manns hjá fjölmiðlanefnd, svipað og hjá Gíbraltar, við mættum gefa meira í,“ sagði Skúli og rakti að hlutverk nefndarinnar væri ekki einungis að hafa eftirlit með auglýsingum í fjölmiðlum, en nefndinni er samkvæmt fjölmiðlalögum ætlað að efla fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum, standa vörð um tjáningarfrelsi og rétt almennings til upplýsinga.