Föstudaginn 25. október 1991 klukkan 18.30 sýndi danska sjónvarpið, DR, þátt sem bar yfirskriftina Disney Sjov. Árið 1994 var þátturinn fluttur til klukkan 19. Disney Sjov naut frá upphafi mikilla vinsælda meðal Dana, hugmyndin að þættinum var komin frá bandaríska þættinum Disney Afternoon.
Í Disney Sjov (Sjov er ekki prentvilla) eru, eins og nafnið gefur til kynna, sýndar teiknimyndir frá Disney samsteypunni. Iðulega er sýnd ein ný teiknimynd, stundum tvær, í hverjum þætti, ásamt eldri myndum.
Þátturinn hefur nær alla tíð verið klukkutíma langur, hluti hans með dönsku tali en annars textaður. Árið 1999 ætlaði danska sjónvarpið að hætta sýningum á Disney Sjov, ástæðan var sögð sú að myndefnið væri alltof dýrt og sömuleiðis hefði gæðum nýju myndanna hrakað. Þessi ákvörðun mæltist ekki vel fyrir meðal Dana, símkerfið hjá DR hrundi, mótmælabréfum rigndi inn og í spjallþáttum danska útvarpsins var mörgum mikið niðri fyrir. Sýningar hófust því fljótlega aftur og síðan hefur Disney Sjov verið óslitið á dagskránni á föstudögum klukkan 19.
Umsjónarmaður og ritstjóri hefur frá upphafi verið Jakob Stegelmann.
Hann var ekki blautur á bakvið eyrun í þessum efnum, hafði frá unga aldri haft mikinn áhuga á kvikmyndum. Níu ára gamall eignaðist hann litla sýningarvél og nokkrar 8mm stuttmyndir sem hann sýndi gjarna í afmælum gegn vægu gjaldi. Hann skrifaði líka kornungur kvikmyndagagnrýni í dagblöð og á menntaskólaárunum rak hann verslunina Panoptikon í Kaupmannahöfn sem seldi 8mm kvikmyndir. Um níu ára skeið gaf hann út tímaritið Filmsamleren.
Árið 1980 samþykkti ritstjórn danska sjónvarpsins hugmynd Jakob Stegelmann um vikulegan þátt, sem fékk heitið „Så er der tegnefilm“, 25 mínútna langur þáttur með bandarískum teiknimyndum. Þátturinn var sýndur á laugardagskvöldum og naut frá upphafi mikilla vinsælda sem kom forráðamönnum DR á óvart. „Så er der tegnefilm“ var á dagskrá danska sjónvarpsins þangað til Disney Sjov kom til sögunnar árið 1991 Árið 1989 byrjaði Jakob Stegelmann með þátt, ætlaðan börnum og ungmennum, í danska sjónvarpinu.
Í þættinum sem fékk heitið Troldspejlet var fjallað um bókmenntir, tölvuspil, kvikmyndir og fleira. Þegar rætt var við Jakob Stegelmann, áður en fyrsti þátturinn fór í loftið, sagði sagðist hann hafa eitt mottó: stjórnandinn ætti ekki að spila á gítar og syngja, en það tíðkaðist mjög í sjónvarpsþáttum fyrir börn og unglinga á þessum árum. Troldspejlet er þriðji langlífasti þátturinn í dönsku sjónvarpi, heitir í dag Troldspejlet & Co.
Fjölskyldustund og nammidagur
Fæsta hefur líklega grunað þegar Disney Sjov hóf göngu sína að þátturinn yrði einn langlífasti dagskrárliður í dönsku sjónvarpi og að klukkutíminn frá klukkan 19 til 20 á föstudögum yrði að einskonar fjölskyldustund. Föstudagar höfðu lengi verið vinsælir bíódagar, ekki síst hjá barnafjölskyldum og með tilkomu Disney Sjov færðust sýningarnar heim í stofu, bíóstólnum skipt út fyrir sófann í stofunni.
En með flutningnum úr bíóstólnum varð til það sem kallast fredagsslik. Sem sé að í stað þess að kaupa sælgæti í bíóhúsinu var nú farið í búðina og gotteríið keypt þar. Föstudagsnammið varð nær órjúfanlegur hluti þess að ungviðið og hinir eldri settust við „heimaaltarið“ klukkan 19 á föstudögum. Sagnfræðingurinn Bettina Buhl, sem hefur lagt stund á rannsóknir á matarvenjum Dana, sagði í viðtali við danska útvarpið að sá siður að setjast við sjónvarpið á föstudagskvöldum og „guffe i sig“ eins og hún komst að orði hefði fyrst náð almennri útbreiðslu eftir að Disney Sjov kom til sögunnar.
Skrifari þessa pistils bjó um árabil í Kaupmannahöfn og veitti því athygli að í stórri verslun í nágrenni heimilis hans var iðulega mikil ös við stóran nammibarinn, eftir hádegi á föstudögum. Sölutölur sýna líka umtalsvert meiri sælgætissölu á föstudögum en aðra daga vikunnar.
Mestu nammigrísir í heimi
Samkvæmt rannsókn sem unnin var af sérfræðingum við danska tækniháskólann DTU eru Danir mestu sælgætisgrísir í heimi. Danir borða 6,6 kíló af „slikkeríi“ á ári. Slikkerí er þarna skilgreint sem sælgæti sem finna má í svokölluðum nammibörum í verslunum. Inni í þessari tölu er ekki súkkulaði, heimabakaðar kökur, kökur og sætindi í mötuneytum eða í landamærabúðum.
Í fyrstu kórónubylgjunni vorið 2020 jókst sala á sælgæti um 40% og sala á gosdrykkjum jókst sömuleiðis verulega. „Í kórónuveirunni var dálítill föstudagur í sælgætinu alla daga,“ sagði kaupmaður sem danska útvarpið ræddi við. Sjónvarpsáhorf jókst sömuleiðis umtalsvert.
Fredags Tam Tam í stað Disney Sjov
Fyrir nokkrum dögum var greint frá því á netsíðu danska útvarpsins, DR, að um næstu áramót ljúki 31 árs sögu Disney Sjov. Við tekur, á sama tíma, milli klukkan 19 og 20 á föstudögum, þáttur sem ber heitið „Fredags Tam Tam“. Í þættinum sem fer í loftið 6. janúar 2023 verður fjölbreytt efni víða að, ekki síst danskt og norrænt, eins og Morten Skov, yfirmaður barna-og unglingaefnis hjá danska sjónvarpinu komst að orði „efni fyrir alla fjölskylduna“.
Í könnun sem danska útvarpið gerði, meðal skólabarna, kom í ljós að flestum fannst í lagi að breyta til en sögðu jafnframt að það yrði að koma í ljós hvort þetta yrði jafn skemmtilegt og Disney Sjov. Morten Skov sagðist þess fullviss að breytingin yrði til góðs „allt hefur sinn tíma, líka Disney Sjov“ sagði hann í viðtali fyrir nokkrum dögum.
Þess má í lokin geta að teiknimyndasyrpan Disney Juleshow verður áfram á sínum stað í danska sjónvarpinu 24. desember. Þessi syrpa var fyrst sýnd í danska sjónvarpinu sem var sett saman árið 1958 var fyrst sýnd í danska sjónvarpinu á þorláksmessukvöld árið 1967 en hefur frá árinu 1991 verið sýnd á aðfangadag kl. 16. Að jafnaði setjast rúmlega 700 þúsund Danir sér þá í sófann en árið 2020 horfðu rúmlega 1300 þúsund á þáttinn.