Í frumvarpi til fjáraukalaga, sem birt var í gærkvöldi, er lagt til að tæplega fjórum milljörðum króna verði ráðstafað úr í ríkissjóði á þessu ári í að kaupa á annars vegar Hótel Sögu við Hagatorg, sem keypt yrði með Félagsstofnun stúdenta, og jörðina Mið-Fossa undir starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands.
Ef af kaupunum á Hótel Sögu verður, sem virðist afar líklegt, mun ríkið eiga 73 prósent í byggingunni á móti Félagsstofnun stúdenta, sjálfseignarstofnunar sem á og rekur stúdentagarða. Sá hluti hússins sem verður nýttur af Háskóla Íslands mun að mestu leyti fara undir starfsemi menntavísindasviðs Háskóla Íslands.
Landbúnaðarháskólinn hefur frá árinu 2006 leigt aðstöðu á jörðinni Mið-Fossum undir starfsemi skólans á sviði reiðmennsku og umhirðu hrossa. í fjáraukalagafrumvarpinu segir að Mið-Fossar hafi verið til sölu á almennum markaði um nokkurt skeið og því óvíst um framtíðaraðgengi skólans að þessari kennsluaðstöðu. „Af þeim sökum er talið æskilegt að ríkið eignist jörðina og þær byggingar til að tryggja aðgengi skólans að aðstöðunni.“
Byggingarréttur fylgir með
Háskóli Íslands óskaði eftir því í byrjun ársins 2021 að skoðuð yrðu kaup á Hótel Sögu undir starfsemi menntavísindasviðs háskólans. Í frumvarpinu segir að háskólinn meti sem svo að um sé að ræða einstakt tækifæri til að flytja menntavísindasviðið inn á aðalsvæði háskólans á tiltölulega skömmum tíma ásamt því að skapa önnur tækifæri til að styrkja starfsemi skólans á heildstæðu svæði sem nær frá Vatnsmýri og yfir Suðurgötuna að Hagatorgi.
Í frumvarpinu er sérstaklega tekið fram að Hótel Sögu fylgi byggingarréttur sem hægt sé að nýta undir aðra starfsemi háskólans til framtíðar litið.
Fasteignafélagið greiðir fyrir endurbætur og viðhald
Gert er ráð fyrir að ríkissjóður og Félagsstofnun stúdenta standi að kaupunum sameiginlega.
Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, að áætlaður heildarkostnaður í kaupverði og endurbótum á hlut háskólans sé um 6,5 milljarðar króna.
Í fjáraukalögunum kemur fram að miðað sé við að fasteignafélag háskólans, sem komið var á fót á þessu ári, muni standa straum af kostnaði vegna viðhalds og endurbóta á þeim hluta eignarinnar sem mun tilheyra háskólanum. Hlutdeild ríkisins í kaupverðinu greiðist hins vegar með sérstakri fjárheimild úr ríkissjóði.
Félagsstofnun stúdenta hyggst nýta sinn hluta af húsnæðinu undir stúdentaíbúðir. Kjarninn fjallaði ítarlega um umfang Félagsstofnunar stúdenta í fréttaskýringu sem birtist í gær.