Því eldra sem fólk er og því hærri sem tekjur þess eru, því ánægðari er það með áframhald ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, sem samanstendur af Vinstri grænum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.
Kjósendur allra flokkanna eru mun ánægðari með ráðahaginn en óánægðir. Alls segjast 92 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks vera ánægðir með nýskipaða ríkisstjórn og 84 prósent kjósenda Framsóknarflokks eru sama sinnis. Einungis fjögur prósent Sjálfstæðismanna og sex prósent Framsóknarmanna eru óánægðir með stjórnina.
Alls 71 prósent stuðningsmanna Vinstri grænna eru ánægðir með nýskipaða ríkisstjórn og einungis átta prósent þeirra eru óánægðir.
Þetta kemur fram í nýbirtum þjóðarpúlsi Gallup. Heilt yfir er helmingur landsmanna ánægður með nýskipaða ríkisstjórn en tæplega þriðjungur óánægður. Þá telja flestir, næstum þrír af hverjum fjórum, að stjórnarsamstarfið muni halda út kjörtímabilið. Einungis 17 prósent telja það ólíklegt. Alls eru 42 prósent landsmanna ánægðir með val á ráðherrum í ríkisstjórnina en 36 prósent óánægðir.
Afstaða kjósendahóps Vinstri grænna til veru Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í ríkisstjórn hefur breyst mikið á síðustu árum. Í aðdraganda kosninga 2017 vildu einungis þrjú prósent kjósenda flokksins sjá Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn og tólf prósent Framsóknarflokkinn, samkvæmt könnun sem Gallup gerði þá.
Niðurstaðan er heldur ekki í takti við könnun Prósents sem birt var í Fréttablaðinu í vikunni. Samkvæmt henni voru 53 prósent kjósenda Vinstri grænna ánægðir með ráðahaginn sem flokkurinn valdi sér.
Kjósendur Viðreisnar nokkuð sáttir
Athygli vekur að fleiri kjósendur Viðreisnar, sem á ekki aðild að ríkisstjórninni, eru ánægðir með nýskipaða ríkisstjórn en þeir sem eru ánægðir. Alls 41 prósent stuðningsmanna Viðreisnar tilheyra fyrri hópnum en 39 prósent þeim síðari.
Hjá öðrum stjórnarandstöðuflokkum er yfirgnæfandi andstaða við stjórnarsamstarfið og hún er mest hjá kjósendum Samfylkingarinnar, en sex prósent þeirra segjast ánægðir með samstarfið á meðan að 77 prósent þeirra eru á móti.
Í lægstu tekjuhópunum er afgerandi meiri óánægja með ríkisstjórnina en ánægja en ánægjan eykst eftir því sem meira er í veskinu hver mánaðamót, og er mest hjá þeim sem eru með 1.250 þúsund krónur eða meira á mánuði í fjölskyldutekjur. Innan þess hóps segjast 58 prósent vera ánægðir en 26 prósent eru óánægðir.
Andstaðan við ríkisstjórnina er mest hjá landsmönnum undir þrítugu, þar sem 39 prósent eru ánægðir með hana en 45 prósent óánægðir.
Elstu tveir aldurshóparnir, sem innihalda landsmenn yfir fimmtugu, eru að sama skapi sáttastir. Ánægja með ríkisstjórnina þar mælist 56 til 58 prósent en óánægja 24 til 27 prósent.
Könnunin var gerð 1. til 12. desember. Heildarúrtaksstærð var 1.619 og svarhlutfall 52,5 prósent.
Mjög svipuð staða og í kosningunum
Í síðustu könnun sem Gallup gerði á fylgi flokka, sem birt var 2. desember síðastliðinn kom fram að litlar breytingar voru á fylgi flokka milli mánaða
Þar bar helst til tíðinda að fylgi Samfylkingarinnar jókst um 0,9 prósentustig og mældist 10,7 prósent en fylgi Pírata dróst saman um 0,8 prósentustig og mældist slétt ellefu prósent.
Fylgi annarra flokka var nánast það sama og það var í lok október. Stjórnarflokkarnir þrír eru þeir flokkar sem njóta mest stuðnings. Sjálfstæðisflokkurinn mældist áfram sem áður stærsti flokkur landsins með 22,7 prósent fylgi og Framsókn sá næst stærsti með 17 prósent fylgi. Vinstri græn fylgdu þar á eftir með 13 prósent fylgi. Sameiginlegt fylgi ríkisstjórnarflokkanna var því 52,7 prósent, sem er 0,7 prósentustigum minna en mánuði áður og 1,6 prósentustigum minna en flokkarnir þrír fengu samanlagt í kosningunum í september.