Þrefalt fleiri kvenstjórnendur en karlstjórnendur upplifa að hafa þurft að sanna sig í starfi meira en aðrir og fleiri konur upplifa að hafa verið talað niður til þeirra á vinnustaðnum.
Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknarinnar, Kynin og vinnustaðurinn, sem lögð var fyrir um 2.000 aðildarfélaga Viðskiptaráðs Íslands og kynntar voru í dag á Hilton Reykjavík Nordica. Um er að ræða samstarfsverkefni Viðskiptaráðs, Empower, Háskóla Íslands og Gallup.
Fram kemur í rannsókninni að líkurnar á að talað sé niður til kvenna virðist meiri þegar þær eru stjórnendur. Lítill sem enginn munur sé á milli karla. Þetta eigi við hvort sem um er að ræða starfsfólk eða stjórnendur.
Viðhorfskönnunin var netkönnun sem var send á rúmlega 5.000 einstaklinga sem starfa hjá aðildarfélögum Viðskiptaráðs Íslands og fengust rúmlega 2000 svör til baka frá fjölda fyrirtækja á tímabilinu 26. mars til 16. apríl 2021.
Konur líklegri en karlar til að upplifa að notaður sé grófur talsmáti
Í rannsókninni kemur fram að fleiri kvenstjórnendur en karlstjórnendur upplifa að dómgreind þeirra og hæfni sé dregin í efa og konur eru líklegri en karlar til að upplifa að notaður sé grófur talsmáti og óviðeigandi brandarar. Þegar konur eru stjórnendur eru meiri líkur á því að þær upplifi grófan talsmáta og óviðeigandi brandara.
Þegar spurt er um ábyrgð kynja til heimilisins þá telja 6 sinnum fleiri konur en karlar sig bera ábyrgð á heimilinu að meirihluta eða öllu leyti og bilið eykst þegar kemur að stjórnendum en 14 sinnum fleiri kvenstjórnendur en karlstjórnendur telja sig bera ábyrgð á heimilinu að meirihluta eða öllu leyti.
Í rannsókninni voru kynin spurð út í hversu mikinn stuðning viðkomandi fær frá næsta yfirmanni til að sinna starfi betur við að leysa verkefni og við framgang eða aukna ábyrgð í starfi við að samræma vinnu og einkalíf. Kvenstjórnendur virðast veita meiri stuðning til starfsfólks við að samræma vinnu og einkalíf. Færri körlum en konum finnst þeir fá stuðning frá yfirmanni við að samræma vinnu og einkalíf, en þó meiri frá kvenstjórnenda. Konur telja sig fá sama stuðning óháð kyni stjórnenda. Karlar telja sig fá meiri stuðning frá kvenstjórnenda en karlstjórnenda.
Meiri fórnarkostnaður fyrir konur en karla að gerast stjórnendur
Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé hjá Empower segir að niðurstöðurnar séu áhugaverðar og endurspegli vel þær áskoranir sem fyrirtæki standa frammi fyrir í menningu á vinnustöðum þar sem upplifun kynja er ólík.
„Við erum á réttri leið en það virðist vera kerfisbundin kynjamunur í menningu og enn mikið verk að vinna. Það virðist vera meiri fórnarkostnaður fyrir konur en karla að gerast stjórnendur á vinnumarkaði þar sem að þær bera frekar ábyrgð á heimilisstörfum og mæta frekar áskorunum í menningu. Það er von okkar sem standa að rannsókninni að stjórnendur í atvinnulífinu geta nýtt sér þessar niðurstöður til að bæta stöðu kynjanna innan síns fyrirtækis,“ segir hún.