Fleiri voru sektaðir af lögreglu fyrir notkun nagladekkja á rúmlega fyrstu tíu mánuði ársins 2022 en samanlagt tvö árin á undan. Frá byrjun árs til 6. nóvember voru 116 einstaklingar sektaðir vegna notkunar á nagladekkjum utan þess tímabils sem má aka um á slíkum. Árin 2020 og 2021 voru samtal 86 sektaðir fyrir ólöglega nagladekkjanotkun. Taka verður inn í dæmið að á þeim árum geisaði kórónuveirufaraldur sem takmarkaði ferða- og akstursfrelsi. Sektir sem gefnar hafa verið út í ár eru líka mun fleiri en þær sem gefnar voru út árið 2018 og 2019.
Þetta kemur fram í svari Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata, um sektir vegna nagladekkja.
Samkvæmt gildandi reglugerð má ekki aka um á nagladekkjum frá 15. apríl til 31. október, nema þess sé þörf vegna akstursaðstæðna. Engin sekt er þó gefin út fyrstu tvær vikurnar eftir að bann tekur gildi og síðustu tvær vikurnar eftir að það rennur út.
Þrjár af fjórum sektum í ár á höfuðborgarsvæðinu
Í svari ráðherra kemur í ljós að mun meira hefur verið sektað í ár en mörg árin á undan. Árið 2018 voru til að mynda 53 sektaðir fyrir ólöglega notkun nagladekkja. Það ár var sekt vegna slíkrar notkunar hækkuð umtalsvert, úr fimm þúsund krónum á hvert dekk í 20 þúsund. Fyrir þann sem ekur á fjórum nagladekkjum utan leyfilegs tíma er sektin því 80 þúsund krónur.
Fyrsta árið eftir að sektin var hækkuð fjölgaði þeim verulega, og voru 93.
Í svarinu kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er langduglegust við að útdeila sektum vegna nagladekkjanotkunar, en 75 prósent allra sekta það sem af er ári voru gefnar út af henni. Alls búa um 63 prósent landsmanna á höfuðborgarsvæðinu en þar er mest öll stjórnsýsla og mikið af nauðsynlegri þjónustu landsins og því margt þangað að sækja fyrir þá sem búa annars staðar á landinu. Yfir fimm ára tímabil er hlutfall sekta sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þó nær hlutfalli íbúa, eða 65 prósent.
Mikil aukning á notkun nagladekkja
Í gögnum sem lögð voru fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur fyrr í þessum mánuði kom fram að fleiri voru komnir á nagladekk fyrstu vikuna eftir að það var heimilt í ár en í sömu viku árið 2001. Nú voru 15 prósent bifreiða í borginni komin á nagladekk, samkvæmt úttekt sem Efla framkvæmdi fyrir borgina, en árið 2001 var það hlutfall einungis þrjú prósent.
Samkvæmt nagladekkjatalningum sem framkvæmdar voru fyrir Reykjavíkurborg síðasta vetur voru rétt um 40 prósent bifreiða í borginni á nöglum, frá miðjum nóvember og fram í byrjun mars hið minnsta. Þetta hlutfall hefur hækkað frá vetrinum 2016-17, er um 32 prósent bifreiða í borginni voru á nöglum yfir veturinn.
Ekki er ósennilegt að stóraukinn fjöldi bílaleigubíla í umferð frá þeim tíma eigi þátt í þessari aukningu, en borgin sjálf hefur nefnt það sem líklega ástæðu fyrir auknu hlutfalli bíla á nagladekkjum síðustu ár.
Spurði um heimild til að fara á svig við lög
Vegna þessa lögðu fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar í umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar fram sameiginlega bókum þar sem þeir sögðust telja „óheppilegt að lögreglan lýsi því yfir hvað eftir annað að ekki verði sektað fyrir fyrir notkun nagladekkja áður en nagladekkjatímabilið hefst“ og segja að sú spurning vakni óhjákvæmilega „hvort lögreglan hafi heimild til að fara á svig við lögin“.
Var þar verið að vísa í þá hefð að sekta ekki fyrstu tvær vikurnar eftir að bannið tekur gildi þann 15. október ár hvert, og tvær vikurnar eftir leyfilegum nagladekkjanotkunartíma lýkur 15. apríl.
Andrés Ingi spurði dómsmálaráðherra á hvaða lagaheimild það byggði þegar lögreglan tilkynnti um það að önnur tímamörk giltu en þau sem getið væri um í reglugerð. Í svari Jóns, sem byggði á upplýsingum frá lögregluembættum í landinu, kemur fram að sveigjanleikinn sem hefð hefur skapast fyrir virðist fyrst og fremst byggja á vísunum í veðurskilyrði.